Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 15:01:13 (1453)


[15:01]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það sem ég held að skipti mestu máli í þessari umræðu er að við erum að tala um stofnun með mikið hlutverk en lítið fjármagn. Það hefur einfaldlega komið í ljós að þetta mikla hlutverk sem þessari stofnun er ætlað hefur ekki verið tekið yfir af öðrum stofnunum. Meðan svo er og meðan þörf er á að sinna þessu hlutverki, þá er það mikill ábyrgðarhluti að skerða fjármagn svo hrikalega sem hér hefur verið rakið.
    Hitt er annað mál að það er alltaf gott að vinna eftir skipulegum og góðu áætlunum og einnig að endurskoða og gera þær breytingar sem þörf er á. Og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með afgreiðslu byggðaáætlunar á síðasta ári hve mikil tilhneiging var til að þynna út öll raunveruleg markmið. Það var í rauninni það sem eftir stóð að við sátum uppi með áætlun sem hvorki var fugl né fiskur, það var ekki tekin afstaða, það var ekki tekin stefna. Þetta kom fram í stóru og smáu. Þetta finnst mér miður vegna þess að eftir sem áður sitjum við uppi með þessi hlutverk.
    Það er komið í ljós nú sem við kvennalistakonur höfum löngum haldið fram að lítil og meðalstór fyrirtæki er það sem menn líta helst til, bæði hér á landi og ekki síst annars staðar á Vesturlöndum og austur-asíska efnahagsundrið byggist að ótrúlega stórum hluta einnig á slíkum fyrirtækjum þannig að nú er það sem einhvern tíma var kallað smádútl og öðrum niðrandi nöfnum sem við kvennalistakonur vorum að færa fram, nú er þetta orðin fullgild stefna og það er vel. En hvernig er þessu sinnt?
    Það hefur komið hér fram annað atriði sem við kvennalistakonur höfum jafnan haldið á lofti. Það vantar tilfinnanlega samhæfingu í atvinnuátaksverkefnum og í því starfi sem er unnið af miklum heilindum að sjálfsögðu hjá ýmsum atvinnuráðgjöfum. Við sjáum fjármagn streyma um allt of marga litla læki og sameinast kannski allt of seint í einhverjum straumi sem einhver kraftur er í. Við sjáum fjármagn fara um Byggðastofnun, lítið að vísu, um félmrn., um iðnþróunarfélög, atvinnuátaksverkefni sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélög þeirra og þá er ég ekki bara að tala um þau verkefni sem umdeild voru vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þess að það er aðvitað nokkuð annað mál. Einnig skarast þetta við Framleiðnisjóð, Vestfjarðaaðstoð og þá aðstoð sem sérstaklega er veitt vegna landbúnaðar. Ég ætla ekki að fara að blanda sjávarútveginum inn í þó full ástæða væri til því þar er þessum málum einfaldlega ekki nógu vel komið.
    Þarna er þetta orðin spurning um hvernig peningar og kraftar fólks nýtast og ég held að það væri hægt að gera mun betur en gert er nú, ef samhæfing yrði virkileg stefna stjórnvalda og stjórnvöld bæru gæfu til þess að marka almennilega byggðastefnu sem væri rökstudd og skipt upp í áfanga sem hægt væri að hrinda í framkvæmd. Ég er ekki þar með að segja að það hafi ekki ýmislegt verið gert gott. M.a. hefur sá stuðningur sem Byggðastofnun hefur veitt til ferðaþjónustu á margan hátt nýst alveg ljómandi vel. Nú er svo komið að vísu að margir telja að offramboð sé á gistirými en í þessari skýrslu sem við höfum hér í höndunum og er hér til umræðu þá kemur fram ný áhersla sem ég get fyllilega tekið undir en það er það að fara að sinna því betur hvað á að gera við þessa ferðamenn sem við flytjum til landsins, hvað þeir eiga að hafa fyrir stafni og geta boðið þeim upp á svo góða kosti að þeir jafnvel freistist til að koma aftur og gera eitthvað annað. Vísir að þessu er m.a. í þeim verkefnum sem Byggðastofnun hefur stutt við bakið á. Ég nefni Jöklaferðir sem nefndar hafa verið hér fyrr. Ég nefni einnig ágæta ferðaþjónustu varðandi Jökulsárlón og Vestfirði og þær hugmyndir sem eru uppi núna um að uppgötva Vestfirði sérstaklega sem ferðaparadís, bæði fyrir innlenda ferðamenn og erlenda.
    Byggðastofnun hefur líka borið gæfu til þess að taka þátt í ýmsu sem aðrir hafa annaðhvort lítið eða ekkert stutt. Ég veit ekki hvort dæmi sem ég tek eru einmitt rétt til þess að nefna það, en fiskeldi Eyjafjarðar er gott dæmi. Ég hef þegar nefnt Jöklaferðir og Límtré hf. á Flúðum er dæmi um athyglisverða starfsemi sem ætti að geta haldist miðað við það sem byggt er, t.d. af íþróttahúsum hér á landi, en í öllu þessu á Byggðastofnun umtalsvert áhættufé.
    Það hefur löngum verið sagt að það sé þessi skortur á áhættufjármagni sem stendur íslensku atvinnulífi sérstaklega fyrir þrifum og ég held að það eigi ekki síst við um hinar dreifðu byggðir landsins þar sem áhættufé þyrfti að vera og ekki síst til smærri verkefna. Þó ekki sé um háar upphæðir að ræða, ekki háar upphæðir sem þarf til, þá vantar engu að síður þennan pening og fólk er einfaldlega ekki reiðubúið til þess að veðsetja heimili sín og taka þá áhættu sem það er, sérstaklega ekki konur, að ná í það áhættufé. Og það eru líka ákveðin rök fyrir því að leggja áhættufé í t.d. smáiðnað og smáfyrirtæki sem veita heilmikla atvinnu og er þessi vaxtarbroddur í atvinnulífi mjög víða á Vesturlöndum og í Austur-Asíu. Styrkveitingar til smáfyrirtækja geta verið hvetjandi á tvo vegu. Það er bæði til þess að mögulegt sé að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og einnig getur slíkur styrkur verkað hvetjandi fyrir lánastofnanir sem þá eru tilbúnar til að koma með mótframlag og þetta held ég að skipti verulegu máli.
    Einnig eru oft ýmsir sjóðir sem lána fé til áhættusamra verkefna. Það kemur ekki alltaf mikið út úr þessu öllu, en það hefur sýnt sig víða að þetta fé til smáfyrirtækjanna skilar sér hvort sem tilraunirnar takast eða ekki þannig að áhættusjóðir, sem lána fé út á lágum vöxtum, verða ekki alltaf fyrir sömu

skakkaföllum og þeir sem lána til stórra og mikilla verkefna og taka mikil skakkaföll á sig eða atvinnugreinar þegar öll eggin eru sett í eina körfu og veðjað á eina atvinnugrein sem á að bjarga lífi þjóðarinnar þá stundina.
    Atvinnuráðgjöf er annað atriði sem ég hef talað um að þurfi að samhæfa. En það þarf að gera fleira en að samhæfa það. Það þarf líka að skilgreina hver vandinn sé. Hverjir eru það sem eru atvinnulausir víða um byggðir landsins? Það eru að miklum meiri hluta konur. Konur eru að vísu hlutfallslega fjölmennari í hópi atvinnulausra en karlar yfir landið allt, þá eru 4,6% kvenna atvinnulaus í september, sem eru nýjustu tölur frá félmrn., en 2,2% karla. Þarna munar meira en helming. En úti á landi er munurinn enn meiri. Á landsbyggðinni eru það 4,2% kvenna og 1,6% karla sem eru atvinnulaus, þannig að þarna erum við einfaldlega að tala um að það eru konur sem eru mun líklegri til þess að vera atvinnulausar um hinar dreifðu byggðir landsins heldur en karlar. Á þessu þarf að sjálfsögðu að taka með ráðum sem duga.
    Þegar verið var að fjalla um stefnumótandi byggðaáætlun sl. vetri lögðum við kvennalistakonur fram brtt. sem ég harma að var ekki samþykkt, en við lögðum til að við a-lið 4. gr. yrði bætt setningu þannig að á eftir orðunum ,,Áfram verður stutt við verkefni sem efla framtak kvenna í atvinnumálum`` kæmi: ,,Í því skyni verði ráðinn í öllum landshlutum sérstakur atvinnuráðgjafi fyrir konur.``
    Fyrir þessu eru ákveðin rök. Ekki bara vegna þess að konurnar fylla hóp atvinnulausra heldur líka vegna þess að það hefur sýnt sig að þar sem sérstakir atvinnuráðgjafar kvenna eru til staðar hafa konur verið mun líklegri til þess að sýna sig og koma með hugmyndir sínar en þar sem almenn atvinnuráðgjöf á sér stað. Þetta verðum við einfaldlega að horfast í augu við. Ég ætla ekki að skilgreina það hér vegna þess að tíminn er of naumur til þess hver rökin eru fyrir þessu en þetta hefur verið skoðað, þetta hefur verið skilgreint og fyrir þessu eru ákveðin rök. Þar af leiðandi finnst mér að það eigi að bregðast rétt við þessu og það er alveg hægt. Vissulega eru til dæmi um slíkt atvinnuátak eins og Snerpa á Vestfjörðum og það þó í mjög smáum stíl sé þá eru hlutir að gerast þar og það er hreyfing á málum. Á fleiri stöðum hefur verið tekist á um þessi mál. Á Suðurnesjum hefur verið mikið atvinnuleysi kvenna og þar hefur verið hugað að ráðningu sérstaks starfsmanns. Ekki hefur verið greint eins skýrt frá hver árangurinn þar hefur verið en þó er samdóma álit þeirra sem komu á fund allshn. og ræddu þessi mál á sl. vetri að þetta þjónaði sérstökum tilgangi og ástæða væri til að halda slíkri starfsemi áfram. Þetta þýðir einfaldlega að verið er að skilgreina vandann og grípa til markvissari aðgerða en ella væri gert.
    Ég held að ekki þurfi að fjölyrða um að það hefur sýnt sig í öðrum löndum og einnig hér að fái konur ekki störf við hæfi um lengri tíma flytjast þær þangað sem möguleikarnir til að fá störf eru meiri, þ.e. til þéttbýlisins. Þetta leysir upp fjölskyldur og karlarnir fylgja gjarnan í kjölfarið þannig að þeir eiga líka verulegra hagsmuna að gæta. Ef mönnum vex eitthvað í augum að vera sérstaklega að sinna konum geta þeir gert það af eigingjörnum hvötum vegna þess að þetta er einfaldlega til staðfest. Ég býst hins vegar við því að fólk sé almennt meðvitað um að ekkert sé athugavert við að taka sérstaklega á málefnum kvenna og ekki þurfi slíka brýningu við þá sem hér eru staddir. Ég held einfaldlega að umræðan sé komin á það stig að menn séu farnir að skilja að sérstaklega þarf að taka á atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni.
    Ekki fer mikið fé til slíkra verkefna. Ef við lítum á liði eins og nýsköpun og annað það sem verið er að tíunda, útborgaða styrki árið 1993, kemur í ljós að þarna er gjarnan um að ræða upphæðir á bilinu frá 100.000 kr. upp í 1,6 millj. kr. þar sem mest er þar sem sérstaklega er verið að huga að verkefnum er lúta að atvinnumálum kvenna. Ég held að allt þetta hafi ávaxtað sig býsna vel svo og það fé sem félmrn. hefur sérstaklega ætlað til kvenna og því beri að líta á þetta sem sérstakan valkost í viðbót við annað.
    Ég hef ekki farið út í nema einn einangraðan þátt sem aðalefni ræðu minnar vegna hins takmarkaða tíma en ég held að þessi ákveðni þáttur geti verið lykilatriði í því hvernig við stöndum að byggðamálum okkar í framtíðinni. Þar af leiðandi held ég að þetta val sé réttlætanlegt þótt stórt sé hér undir og ég óttast einnig að þetta verði ekki aðaláhersla allra hér sem taka til máls en ég vona að sjálfsögðu að við fáum tækifæri til að þó eitthvað fleira um atvinnumál kvenna á landsbyggðinni í umræðunni.