Samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 16:05:36 (1508)


[16:05]
     Flm. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 56 sem er 56. mál þingsins. Þetta er till. til þál. um að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Flm. till. auk þess sem hér stendur eru hv. alþm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson, Jón Helgason, Guðmundur Bjarnason, Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson. Þáltill. hjóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela viðskipta- og iðnaðarráðherra að láta fara fram úttekt á því í hve miklum mæli innkaup ríkis og sveitarfélaga eru á erlendum vörum eða efnum með útboðum eða öðrum hætti, enda þótt sambærileg innlend efni eða vörur séu fáanlegar og framleiddar hér á landi, og hvernig útboðslýsingum opinberra aðila er háttað hvað varðar íslenska framleiðslu og erlenda. Einnig verði kannað hvaða vörur eru fluttar inn til landsins en jafnframt framleiddar innan lands eða hægt væri að framleiða hér á landi á sambærilegu verði.
    Þegar niðurstöður liggja fyrir, og gefi þær tilefni til, grípi stjórnvöld til aðgerða til að tryggja samkeppnisstöðu innlendu framleiðslunnar, þó þannig að ekki brjóti í bága við þá alþjóðlegu viðskiptasamninga sem Íslendingar hafa gerst aðilar að. Jafnframt verði hlutast til um að kynna hugsanlega framleiðslukosti innan lands á vörum sem nú eru fluttar inn en gætu verið samkeppnishæfar við innfluttar í verði og gæðum.``
    Hér lýkur tilvitnun í texta þáltill., virðulegi forseti. Í greinargerðinni er þess getið að tilgangur þessarar þáltill. sé að kanna með nákvæmum hætti hvernig hið opinbera stendur að efnisöflun og hvort hið opinbera leitast við að nota íslensk efni og vörur. Sé þess nokkur kostur ber hinu opinbera að nota íslenskar vörur í þeim verkum sem unnin eru á þess vegum. Jafnframt er það tilgangur að kanna almennt hvort ekki megi minnka innflutning fullunninna vara með því að framleiða slíkar vörur hérlendis.
    Staðreyndin er sú og það er í raun sorglegt til þess að vita, að það eru ekki alltaf einstaklingarnir, litlu fyrirtækin, iðnaðarmennirnir sem haga sér með þeim hætti að velja frekar erlenda framleiðslu en innlenda. Það er því miður svo að sveitarfélögin og ríkisvaldið setur oft þeim sem gera tilboð í vöru og þjónustu á þessu sviði svo þröngar skorður, bæði í tíma og eins í kröfum um hvað skuli uppfyllt í útboðsskilmálum að það er oft og tíðum ekki hægt að uppfylla það með því að koma við innlendri framleiðslu. Mörg, mörg dæmi mætti nefna í þessu sambandi. Eitt nýlegt frá sl. vori var það hér í Reykjavík að boðnar voru út innréttingar, stólar og borð, í skólastofu. Tíminn var svo knappur sem innlendu framleiðendunum var gefinn til framleiðslunnar að það var ekki hægt að afgreiða vöruna á það skömmum tíma að innlendir framleiðendur gætu boðið í. Því var ekki um neitt annað að ræða en að leita eftir tilboðum erlendis frá. Á meðan ríkisvaldið og sveitarfélögin haga sér með þessum hætti er auðvitað ekki von á góðu.
    Þessi þáltill. gerir í raun og veru ráð fyrir því að mótuð sé stefna í þessum efnum, stefna sem að vissu leyti og að mörgu leyti tæki til almennrar stefnumótunar í íslenskri framleiðslu og í íslenskum iðnaði.
    Í greinargerð þessarar þáltill. er tekið dæmi sem ég ætla hér að vitna í, virðulegi forseti. Sem dæmi um verð má nefna kostnað vegna hleðslu á skilrúmi í íbúðarhúsnæði þar sem annars vegar er notað innflutt efni, gifsplötur, sem eru 66x50 sm og 7 sm þykkar og hins vegar íslenskar gjallplötur af sömu þykkt, 50x50 sm að stærð og veggurinn gróf- og fínhúðaður. Kostnaður á 9 fermetra af hinu innflutta efni er 5.096 kr. á fermetra en 4.599 kr. á innlenda efnið. Mismunurinn á hvern fermetra er því 495 kr. innlenda efninu í vil.
    Svona mætti taka mýmörg dæmi og bera saman þar sem innlenda efnið er ekki síðra að gæðum til og oft og tíðum og í langflestum tilfellum sem betur fer ódýrara, en útboðslýsingarnar, kröfurnar, sem þar eru gerðar, meina oft og tíðum þeim sem standa í framkvæmdunum að nota innlenda efnið. Sökin í þessu, því miður oft og tíðum, virðulegur forseti, liggur hjá ríkisvaldinu sjálfu.
    Nú er það svo að síðari hluti þessarar þáltill. gerir ráð fyrir því að það verði kannað gaumgæfilega hvort stjórnvöld geta gripið til einhverra þeirra aðgerða sem gera það að verkum að menn velji frekar innlendu efnin, menn velji frekar það íslenska og segi: Já, takk, heldur en það erlenda. Ég fékk þær upplýsingar frá samtökum iðnaðarins úr samantekt sem gerð hafði verið á þeirra vegum. Þegar verslunarskýrslur Hagstofunnar fyrir árið 1990 voru skoðaðar kom í ljós að ef við hefðum þá valið innlendu framleiðsluna, innlenda efnið í öllum tilfellum umfram það erlenda, en hefðum samt verið að velja sömu gæði, sama verð og stundum ódýrara, þá hefðum við sparað í innflutningi það árið 20 milljarða kr. --- 20 milljarða, eða á einu ári, 1991, hefði enginn viðskiptahalli orðið það árið. Þetta eru staðreyndir sem eru umhugsunarverðar fyrir þjóð sem hefur á undanförnum árum búið við viðvarandi viðskiptahalla.
    En hvað hefði þetta nú þýtt ef öll þessi innlenda framleiðsla hefði átt sér stað í landinu? Jú, þetta hefði skapað í landinu a.m.k. 5.800 ný störf eða með öðrum orðum, við hefðum hér um bil útrýmt því atvinnuleysi sem við búum við nú um þessar mundir. Er þetta nú ekki tilefni til að menn staldri við og spyrji sig: Er ekki skynsamlegt að við öll, hvort sem það erum við sem einstaklingar, stjórnvöld, þá á ég við ríkisvald og sveitarfélög, stöldrum örlítið við og athugum hvort við getum nú ekki gert dálítið betur sjálf og hugsað þetta út frá okkar eigin hagsmunum án þess þó á nokkurn hátt að vera að brjóta einhverja alþjóðlega viðskiptasamninga sem við höfum gerst aðilar að? Og það er staðreyndin að þessi tillaga, sem hér er flutt, er hluti af miklu stærri atvinnustefnu sem Framsfl. vill berjast fyrir, hún er hluti af því að skapa í landinu ný störf fyrir það fólk sem núna er atvinnulaust. Markmiðið er að bæta stöðu íslenskrar framleiðslu, draga úr viðskiptahalla, skapa ný atvinnutækifæri og koma í veg fyrir atvinnuleysi.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til hv. iðnn.