Sumarmissiri við Háskóla Íslands

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 16:54:04 (1515)

[16:54]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 164 að flytja till. til þál. um sumarmissiri við Háskóla Íslands, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Svavar Gestsson, hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því í samvinnu við Háskóla Íslands og stúdentaráð Háskóla Íslands að skapa skilyrði til þess að koma á fót sumarmissiri við Háskóla Íslands til að gera atvinnulausum námsmönnum kleift að stunda nám yfir sumartímann, svo og þeim stúdentum sem flýta vilja fyrir sér í námi. Einnig verði kannað hvort sumarmissiri geti orðið hluti af áætlun um endurmenntun fyrir atvinnulausa.
    Í tilraunaskyni verði á árinu 1995 komið á sumarmissiri við Háskóla Íslands sem síðan yrði lagt mat á hvort gera ætti að föstum lið í starfsemi Háskóla Íslands.
    Ríkissjóður standi straum af kostnaðinum, auk þess sem Háskóli Íslands beri fastan kostnað við verkefnið, þ.e. kostnað af húsnæði, ræstingu, skráningu og allri almennri umsýslu.``
    Eins og tillagan ber með sér er lagt til að Alþingi álykti um að menntmrh. beiti sér fyrir því í samvinnu við Háskóla Íslands og stúdentaráð að komið verði á fót sumarmissiri við háskólann, en stúdentaráð hefur á undanförnum mánuðum kynnt þessa hugmynd fyrir ýmsum aðilum innan háskólans, menntamálaráðuneyti, þingmönnum og fleiri aðilum. Alls staðar sem ég þekki til hefur hugmynd þessi hlotið góðar undirtektir og m.a. lýsti hæstv. menntmrh. stuðningi við hana hér á Aþingi nýlega, svo og hefur háskólarektor tekið jákvætt undir þá hugmynd um að koma á fót sumarmissiri. Engu að síður er það svo að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til að hrinda af stað þessu verkefni í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir að þó að hann styddi hugmyndina þá telji hann að háskólinn verði að breyta forgangsröðun sinni innan núverandi ramma fjárlaga sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir næsta ár ef fjárveiting til sumarmissiris eigi að vera möguleg. Ég tel að hér sé um mjög mikla skammsýni að ræða og að í raun sé ráðherrann að hafna því að sumarmissiri komist til framkvæmda á næsta ári með þessari afstöðu sinni. Í fyrsta lagi vegna þess að allir vita, og um það hafa orðið umræður á hv. Alþingi, að Háskóla Íslands eru svo þröngar skorður settar fjárhagslega að við jaðrar að ekki sé hægt að halda uppi eðlilegri starfsemi í háskólanum. Því er alveg augljóst að hann hefur engin tök á því að bæta þessu verkefni við eða þá að breyta forgangsröðun þannig að það er ljóst að ef þetta á að verða að veruleika þá þarf að koma til viðbótarfjármagn.
    Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst það nokkur skammsýni ef hæstv. ráðherra er ekki tilbúinn til að reyna að beita sér fyrir fjárveitingu á næsta ári til þessa verkefnis því að ávinningurinn af starfrækslu sumarmissiris er svo mikill, og reyndar sparnaður ef grannt er skoðað, að hann mun skila sér margfalt aftur og mun ég nú gera grein fyrir því.
    Það er markmið þessarar tillögu að Alþingi lýsi yfir stuðningi við að gerð verði tilraun með þetta verkefni við háskólann á næsta ári og í framhaldi af því verði lagt mat á hvort framhald verði á þessari starfsemi. Með samþykkt tillögunnar mundi liggja fyrir viljayfirlýsing Alþingis um hvernig staðið verði að fjármögnun, en því er lýst í tillögugreininni. En nauðsynlegt er að á fjárlögum 1995 verði tryggt til þess fjármagn. Stúdentaráð hefur sett fram það markmið að með því að setja á laggirnar sumarmissiri sé verið að gera atvinnulausum námsmönnum kleift að stunda nám yfir sumartímann. Einkum er hugsað til stúdenta sem eru án atvinnu og vilja nýta tímann til náms.
    Í öðru lagi að sumarmissiri nýtist þeim stúdentum sem vilja flýta fyrir sér í námi og létta sér róðurinn seinna meir eða taka sér frí til vinnu á öðrum árstímum. Ég tel að þetta sé mjög mikilvæg markmiðssetning sem hér er sett fram. Þetta felur ekki síst í sér þann kost að opna möguleika fyrir barnafólk sem er í námi og öðrum þeim sem hafa átt erfitt með að mæta auknum kröfum lánasjóðsins um námsframvindu eða að skila einingum til lokaprófs. Stúdentaráð telur að með því að hvetja stúdenta til að taka sér leyfi til vinnu á öðrum árstíma mætti einnig létta nokkru álagi af vinnumarkaðnum yfir sumartímann og koma í veg fyrir að þúsundir skólafólks fari út í atvinnulífið á sama tíma yfir sumarmánuðina.
    Ég tel einnig athyglisverða þá hugmynd og það markmið sem að baki því býr og stúdentar hafa einnig sett fram, að nýta megi sumarmissiri fyrir aðra hópa sem eru án atvinnu, en fyrir þá gæti sumarnámskeið í háskólanum verið hluti af áætlun um endurmenntun fyrir atvinnulausa sem ljóst er að þarf að auka verulega á næstu mánuðum og árum. Einnig er bent á að sumarið sé fyrir vinnandi fólk að mörgu leyti heppilegri tími til endurmenntunar en þéttsetinn tími í ýmsum önnum yfir vetrarmánuðina.
    Ég held að það sé ljóst af því sem ég hef hér lýst og fram kemur í greinargerð með þáltill. að hugmynd stúdentaráðs, sem þeir hafa reifað víða, feli í sér svo marga möguleika og mikla nýbreytni að kostir þessa verkefnis að setja á laggirnar slíkt sumarmissiri séu ótvíræðir. Það er mitt mat að Alþingi eigi að láta einskis ófreistað að leggja þessu brýna máli lið.
    Stúdentar við háskólann hafa áður sent frá sér athyglisverðar hugmyndir og hafa þar haft frumkvæði að mikilvægum nýjungum svo sem með stofnun Nýsköpunarsjóðs námsmanna sem var stofnaður fyrir tveimur árum síðan að frumkvæði stúdenta en markmiðið með þeim sjóði var að gefa námsmönnum færi á að nýta sér menntun sína yfir sumarmánuðina. Ég tel að stofnun þessa sjóðs hafi ótvírætt sannað gildi sitt en sjóðurinn hefur nýst til mjög fjölbreyttra námstengdra verkefna sem örugglega mun skila sér í ýmissi nýsköpun í atvinnulífinu.
    Virðulegi forseti. Sem fskj. með þessari tillögu er sett fram það sem stúdentaráð sjálft hefur sett fram sem helstu kosti sumarmissiris við Háskóla Íslands og ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlega ofan í hér frekar en ég hef gert. Þeir telja að hér sé um nýja leið að ræða til að mæta bágu atvinnuástandi, þetta geti minnkað framboð á vinnuafli yfir sumartímann, geti verið liður í menntun atvinnulausra og þáttur í endurmenntunarstefnu stjórnvalda. Síðan telja þeir þetta fýsilegan kost fyrir háskólastúdenta af ýmsum öðrum ástæðum og nefna að nám sé góður valkostur í samanburði við atvinnubótavinnu. Þeir telja einnig að framlög í sjóð fyrir sumarmissiri séu góður kostur fyrir ríki og sveitarfélög, ódýr leið til að sannreyna sumarmissiri sem nýja leið í erfiðu árferði. Fyrir ríkissjóð sé það annars að tómt húsnæði háskólans nýtist yfir sumartímann líka og einnig að námsmenn munu geta lokið lokaprófum fyrr og skilað sér hraðar út á vinnumarkaðinn. Fyrir sveitarfélögin er það vænlegur kostur í stað þess að sjá háskólastúdentum fyrir kostnaðarsamri atvinnubótavinnu.
    Þegar til þess er litið að um er að ræða 30 millj. til að koma þessu á fót, þá tel ég að miðað við alla þessa kosti, sem hér hafa verið settir fram, þá muni það margborga sig að stuðla að því að setja á fót slíkt sumarmissiri. En það er gert ráð fyrir að háskólinn beri svonefndan fastakostnað við verkefni, þ.e. kostnað af húsnæði, ræstingu, skráningu og allri almennri umsýslu við námskeiðin og framlag ríkisins er ætlað að mæta beinum kostnaði við kennslu og fyrirlestrahald og svo launum kennara.
    Síðan er sett fram, sem ekki kemur fram í þáltill. sjálfri sem verður þá til skoðunar fyrir þá nefnd sem fengi málið til umfjöllunar, að það komi til athugunar að sveitarfélögin legðu fram hluta af kostnaði sem tæki mið af fjölda nemenda eftir lögheimilum þeirra.
    Virðulegi forseti. Það hafa ýmsir lýst yfir stuðningi við þessa hugmynd, m.a. Alþýðusamband Íslands en þeir skrifuðu bréf 9. sept. 1994 um þetta mál þar sem það er að mati þeirra að hugmyndin um sumarmissiri sé áhugaverð og að slík viðbót við Háskóla Íslands gæti orðið góður kostur fyrir marga, bæði námsmenn og aðra, sem hafa áhuga á að notfæra sér það sem skólinn hefur upp á að bjóða.
    Ýmsir aðrir hafa látið í sér heyra um þetta mál og allt eru þetta jákvæðar undirtektir.
    Ég vil í lokin vitna í það, virðulegi forseti, sem stúdentar sjálfir hafa líka sett fram og fram kom í kynningargögnum sem þeir senda um þetta mál á miðju þessu ári eða 15. júlí en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á sumarmissiri yrði einkum um leiðbeinendavinnu kennara að ræða en minna um eiginlega fyrirlestra. Það verður augljóslega styttra en önnur missiri skólaársins. Hvert námskeið næði yfir styttri tíma, kennslan væri þéttari og meira byggðist á eigin vinnu nemenda. Kennsla á sumarmissiri færi fram í húsnæði háskólans og standa vonir til að háskólinn taki á sig kostnað samfara því. Þó er ljóst að ekki yrði um

hefðbundið námskeiðahald í viðteknum skilningi þess orðalags að ræða. Þannig líta stúdentar á sumarmissiri sem fyrsta skref í átt til þess að breyta kennsluháttum og sjálfstæðari vinnubragða námsmanna.
    Sumarmissiri við háskólann er ný leið fyrir atvinnulaust ungt fólk. Stúdentar hafa þegar sýnt það með mikilli ásókn í Nýsköpunarsjóð námsmanna að þeir vilja nýta sumarið til vinnu í tengslum við námið.``
    Einnig kemur fram í þessum kynningargögnum, virðulegi forseti, eftirfarandi: ,,Nauðsynlegt er að geta hafið undirbúning og kynningu hið fyrsta fáist fjárveiting fyrir sumarmissiri. Heppilegast væri að auglýsa eftir umsóknum í Fréttabréfi háskólans þar sem fram kæmu hugmyndir kennara og drög að væntanlegu námskeiði. Það sem helst þarf að varast við skipulagningu sumarmissiris er að það verði ekki eins konar fornám heldur fullgildur hluti háskólanáms. Námskeiðin sem eru í boði þurfa að gera sömu kröfur til nemenda og kennara og vetrarnámskeiðin og þeim þarf að ljúka með sams konar námsmati, haustprófum, ritgerð eða lokaverkefni.``
    Ég læt þetta nægja, virðulegi forseti, sem rökstuðning fyrir þessari tillögu sem við fjórir þingmenn höfum flutt. Ég ítreka það að ég tel ekki vera það mikinn kostnað við að koma á fót þessu sumarmissiri og minni á þann ávinning sem það mun skila og treysti því að hv. þm. geti sameinast um það að þessi þáltill. verði samþykkt og að tryggt verði til þess fjármagn við næstu fjárlagagerð. Ég treysti mér fullkomlega til þess og veit að örugglega geta aðrir meðflm. mínir tekið undir að það sé hægt að setjast yfir fjárlögin og finna þar leið til þess að spara þær 20 eða 30 millj. sem hér er verið að biðja um vegna þess að ég held að þetta sé það stórt verkefni að um þetta eigi að reyna að nást góð sátt á þinginu.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. menntmn.