Flottroll og karfaveiðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:16:53 (1549)


[15:16]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég vil árétta, þó að það komi fram í máli hæstv. sjútvrh., að hjá mér gætti misskilnings varðandi hagsmunanefnd aðila í samningum og skipulagningu varðandi fiskveiðistjórnun, þá er ekki um neitt slíkt að ræða og ekki heldur varðandi áhyggjur af fiskifræðingum. Ég tók það skýrt fram að fiskifræðingarnir og sá sérfræðingur, sem mesta þekkingu hefur hérlendis, hefur miklar áhyggjur af þessu máli, en þó meira af gullkarfanum en djúpkarfanum. Það er allt gott um það að segja sem hæstv. ráðherra segir um þær aðgerðir sem hefur verið gripið til, en að mínu mati hefur ekki verið gengið nógu langt og það væri hægt að færa mörg rök fyrir því.
    Samstarfshópur aðila í sjávarútvegi um fiskveiðistjórnun er allra góðra gjalda verður, en þau vinnubrögð eru háð mörgum þáttum og mest kannski varðandi karfann fyrir óvissuna sem ríkir í öllu er lýtur að ferli og viðgangi karfans. Þar hef ég bent á að það sé æskilegt að kalla til reyndustu skipstjórnarmenn landsins og ekki þá bara á karfamiðum heldur á almennum veiðisvæðum landsins og skapa þar nýjan flöt til þess að ná umræðu, safna saman þekkingu og kalla á viðbrögð skipstjórnarmanna til þess að ganga til verka á þessum vettvangi. Það er engin spurning, að mínu mati, að það væri mjög af hinu góða og mundi auðvelda Alþingi, hæstv. ráðherra og öðrum sem koma við sögu að hafa hemil á stjórnun fiskveiða við Ísland í nokkurri sátt. Hún er mjög mikið áhyggjuefni sú ósátt sem er vaxandi meðal landsmanna vegna fiskveiða við landið og það vita allir sem hér eru inni, það vita allir. Það horfir ekki vel í þeim efnum þó að menn séu að gera sitt besta og ég ætla ekki að draga úr því.
    Það er þess vegna ástæða til þess að hvetja enn til þess að það sé gengið í að kalla saman slíkan hóp skipstjórnarmanna og þó að ég hafi talað fyrir daufum eyrum félaga míns, hæstv. sjútvrh., þá vona ég að það gangi nú fram sem ég hef bent á í þessu efni.