Skýrslur stofnana Háskóla Íslands um ESB-aðild

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 10:42:09 (1641)


[10:42]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna þessa máls. Eins og fram kom í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur þá kom fram í fréttum á dögunum að ríkisstjórnin hefði ákveðið að gangast ekki fyrir sérstakri kynningu á þessum skýrslum heldur lagði það í vald háskólans og þeirra stofnana sem að unnu. Ég fæ ekki séð hvernig það getur orðið umræðuefni hér þó Alþfl. gangist fyrir fundi um Evrópusambandið og fái aðila úr háskólanum sem hafa unnið að þessum rannsóknum að undanförnu til þess að vera þar frummælendur. Ég hélt að það væri af hinu góða að örva umræðu í samfélaginu um þessi mál sem og önnur sem brenna á þjóðinni og öðrum þjóðum í nágrenni okkar.