Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:38:48 (1650)


[11:38]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að taka þátt í umræðum á Alþingi þar sem menn eru jafneinhuga um það sem er á dagskrá og ég veit að málsvarar menningar í landinu hugsa gott til glóðarinnar að fá þetta mál til umræðu í menntmn. og það geri ég líka og fagna því að hér er að finna mikinn og góðan stuðning við þetta mál. Það er mjög ánægjulegt.
    Hérna hafa verið nefndir fleiri þættir menningar, baðmenning og verkmenning. Ég vil taka undir það með hv. þm. 5. þm. Norðurl. e. sem ræddi hér um verkmenningu. Þetta er mikill og nauðsynlegur þáttur hjá okkur að kynna og eins mætti nefna útflutningsvöru sem við verðum að fara að leggja mikla áherslu á að kynna og eigum mikla framtíð fyrir vonandi, þ.e. vistvænar vörur, vistvænar landbúnaðarvörur o.fl. sem þeim tilheyrir. En það sem ég ætlaði að ræða um í þessu andsvari var það sem hann nefndi um þessa atvinnugrein og menn hefðu ekki áhuga á að hleypa útlendingum inn í fyrirtæki í fiskvinnslunni. Hérna er mjög erfitt mál viðureignar og þetta hefur verið áhyggjuefni okkar sem höfum verið að skipuleggja og starfa að ferðaþjónustu, mikið áhyggjuefni, því að útlendingar hafa verulegan áhuga á að kynna sér þennan þátt, þennan mikilvæga þátt og nauðsynlega í íslensku atvinnulífi, en þeim er sagt að þeir geti ekki fengið að fara inn í frystihúsið eða rækjuverksmiðjuna. En það má segja að sem betur fer eru þeir sem þar starfa mjög meðvitaðir um nauðsyn þess að halda þessari vöru hreinni og gæta allra varúðarráðstafana. Þetta hefur verið okkur ákveðinn styrkur, einmitt þessi tregða því að fyrst verða útlendingar hissa, síðan velta þeir þessu fyrir sér, en þeir skilja þetta. Það sem þarf að gera er að koma fyrir aðstöðu eins og sumir hafa gert þar sem hægt er að skoða þetta án þess að fara í beina snertingu við vöruna og þetta er vel hægt að gera.