Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:01:05 (1658)

[12:01]
     Flm. (Elínbjörg Magnúsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 217 um endurskoðun laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Flm. auk mín eru hv. þingmenn Sturla Böðvarsson, Guðmundur Hallvarðsson og Árni Johnsen. Ályktunin hljóðar svo með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Endurskoðunin miði einkum að því að lögin tryggi betur en nú atvinnuöryggi verkafólks með því að takmarka rétt atvinnurekenda til tilefnislausra uppsagna og rétt þeirra til að vísa fólki úr vinnu vegna hráefnisskorts. Nefndin verði skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, auk fulltrúa félagsmálaráðuneytis og Atvinnuleysistryggingasjóðs og ljúki hún störfum fyrir þinglok.``
    Ég tel rétt að fara hér yfir greinargerðina til að setja þingmenn inn í það mál sem hér er á ferðinni, fara hér yfir þau lög sem við erum að vitna til og sérstaklega þá 3. gr. sem er brotalömin í þessum lögum:
    ,,Eins og fram kemur í 1. gr. laga nr. 19/1979 er atvinnuöryggi íslensks verkafólks ekki annað en sá uppsagnarfrestur sem fyrir er mælt í lögunum. Almennt njóta íslenskir launþegar ekki tryggingar fyrir vinnunni að öðru leyti en því að segja ber þeim upp störfum með eins, tveggja eða þriggja mánaða uppsagnarfresti hið mesta ef litið er til laganna, en þar að auki hafa aðilar vinnumarkaðarins samið um sérstakan viðbótaruppsagnarfrest þegar um lengri starfsaldur er að ræða og starfsmenn hafa náð vissum aldri. Íslenskt verkafólk hefur því engan lagalegan rétt til þess að krefjast skýringa á uppsögnum eða vita ástæður fyrir þeim. Uppsagnarrétturinn er allur í höndum atvinnurekanda og þar af leiðandi er uppsögnin alfarið að hans geðþótta.
    Í annan stað felur 3. gr. laganna í sér að falli vinna niður hjá atvinnurekanda þegar hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu eða fyrirtæki verða fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skipstapa, er honum heimilt að fella niður vinnu án launa samkvæmt þeim aðferðum og með þeim skilyrðum sem lögin greina. Þessi grein laganna er einkum harkaleg gagnvart fiskvinnslufólki því að túlkun atvinnurekenda á því hvað sé hráefnisskortur hefur alla

tíð verið ákaflega frjálsleg. Fyrir alllöngu hafa aðilar vinnumarkaðarins samið um nánari útfærslu á þessari grein með svokölluðum kauptryggingarsamningum í fiskiðnaði. Hins vegar hefur komið í ljós að þau ákvæði virðast harla haldlítil. Þrátt fyrir ákvæði kjarasamninga og reglugerða er nú svo komið að atvinnurekendur sniðganga með ýmsum aðferðum þá skyldu sína að bjóða verkafólki kauptryggingarsamning að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Flutningsmenn telja ljóst að verkalýðshreyfingin muni í komandi samningum krefjast nýs og endurbætts samnings um kauptryggingu í fiskiðnaði en hins vegar sé ljóst að á meðan 3. gr. laga nr. 19/1979 veiti atvinnurekendum nánast óheftan rétt til þess að senda fiskvinnslufólk heim án launa muni aldrei fást viðunandi lausn í kjarasamningum. Grunninn sé að sækja í umrædda lagagrein og þar sé vandans að leita. Nauðsynlegt sé að gera þær umbætur á 3. gr. laganna að sett verði nánari skilyrði fyrir þeirri aðferð sem atvinnurekendum er þar heimiluð. Skilgreina þarf nánar hráefnisskort og setja skorður við því að hugtakið sé ofnotað, en einnig þarf nauðsynlega að afnema rétt atvinnurekenda til þess að vísa fólki fyrirvaralaust úr vinnu af þessum ástæðum. Einhver uppsagnarfrestur verður að vera ef við eigum á annað borð að viðurkenna rétt fólks til einhvers lágmarksatvinnuöryggis í þjóðfélaginu.``
    Eins og kom fram í greinargerðinni, sömdu aðilar vinnumarkaðarins um sérstakan kauptryggingarsamning í fiskiðnaði fyrir alllöngu síðan. Þetta var mikið framfaraspor gagnvart fiskvinnslufólki. Það þurfti viku til að tilkynna uppsögn vegna hráefnisskorts en 1988 var samið um breytingu á eldri kauptryggingarsamningi og ákvæði um uppsagnarfrests vegna fyrirsjáanlegs hráefnisskorts var lengt í fjórar vikur úr einni. Þá var einnig samið um það að skylt væri að bjóða starfsmönnum kauptryggingarsamning þegar þeir hefðu starfað í sama fiskvinnslufyrirtæki í þrjá mánuði. Þessi frestur hefur reyndar í síðustu samningum verið styttur í tvo mánuði og þá voru einnig sett lög nr. 34/1988, um greiðslur Atvinnutryggingarsjóðs vegna atvinnuleysisbóta, fastráðsins fiskverkafólks. Þar segir m.a. með leyfi forseta:
    ,,Vinnuveitandi, sem hefur skuldbundið sig til þess að greiða fastráðnu fiskvinnslufólki föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við nánari ákvæði í reglugerð, þótt hráefnisskortur valdi vinnslustöðvun, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem hér segir:
    Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og fullnægir skilyrðum 2. mgr. þessarar greinar og þarf að stöðva framleiðslu tímabundið vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi til vinnslu, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag umfram tvo sem fyrirtækið heldur starfsmönnunum á launaskrá.``
    Þetta þýðir að atvinnurekandinn fær endurgreitt frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Hann tekur á sig fyrstu tvo dagana sjálfur en síðan getur hann fengið úr Atvinnuleysistryggingasjóði mestan part launa starfsmannanna allt að 30 daga á ári þegar þetta er gert en er nú komið í 45 daga. Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga.`` Sú reglugerð var sett 1988 nr. 425 og með síðari breytingum varð hún nr. 260/1992 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 425/1988, um greiðslu vegna fastráðsins fiskvinnslufólks.
    1. mgr. 6. gr. orðist svo: Fyrirtæki í fiskvinnslu, sem fullnægir skilyrðum 1. gr., skal skylt að gefa þeim starfsmönnum sem hafa unnið hjá fyrirtækinu í 2 mánuði, kost á fastráðningarsamningi. Telja skal eldri starfstíma, sem reiknast til réttinda vegna fyrri ráðningar hjá sama fyrirtæki. Fastráðningarsamningur getur verið tímabundinn eða til ótiltekins tíma og skal hann gerður í því formi sem Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna annars vegar og Verkamannasamband Íslands hins vegar samþykkja. Uppsagnarfrestur á fastráðningarsamningi er sex vikur af beggja hálfu.``
    Ákvæði þessarar reglugerðar hafa mörg fyrirtæki í fiskvinnslu þverbrotið og neita starfsmönnum um kauptryggingarsamning þó að fyrirtækjunum hafi verið skylt að gefa þeim kost á honum samkvæmt reglugerðinni. Þetta hefur aukist sérlega mikið núna í því atvinnuástandi sem er að fólki er neitað um kauptryggingarsamning, það býr við það mánuðum og jafnvel árum saman að vita ekki hvort það hefur vinnu á morgun þó svo að sú skylda samkvæmt reglugerðinni hvíli á atvinnurekendum um að þeir eigi að bjóða þennan kauptryggingarsamning þar sem þeir með því að vera á kauptryggingarsamningi eigi rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Ekki er vitað til þess að eftirlit miðað við skilyrði reglugerðarinnar sem ég ræddi um hér áðan og laganna sé fylgt af hálfu félmrn. eða Atvinnuleysistryggingasjóðs eða þess gætt að fyrirtæki sem ekki standa við ákvæðin og eiga því ekki rétt á greiðslu, sé veitt það aðhald. Það er ekki sæmandi þjóðfélagi sem vill kenna sig við velferð að því fólki sem vinnur í starfsgrein sem gefur okkur 80% af útflutningstekjum okkar og skapar þar með stærstan grundvöll þeirra lífskjara sem við búum við skuli vera búið minna öryggi um afkomu sína og atvinnu en flestum öðrum þegnum þess.
    Hægt er að nefna mýmörg dæmi um það hvernig atvinnurekendur hafa túlkað ákvæði laga nr. 19/1979 einhliða sér í hag. Ákvæði laganna hafa verið rakin hér að framan. Misnotkun lagaákvæðanna er alvarlegt mál og er óviðunandi. Þekkt dæmi um tilbúinn hráefnisskort er þegar skip sem hefur verið í föstum viðskiptum við fyrirtækið og er að miklu leyti eða að hluta í eigu þess siglir með aflann eða hann er settur í gáma við hlið fyrirtækisins á sama tíma og starfsmennirnir ganga atvinnulausir vegna hráefnisskorts. Þarna er þessum tilbúnu atburðum jafnað við það að skipið hafi sokkið með manni og mús. Þetta nota atvinnurekendur sem ,,force majeure``-reglu. Það sé sama hvort skipið er að sigla á markað erlendis með aflann eða það hafi sokkið. Það er því ótvírætt að lögin eiga við um atburði sem hljóta að bitna á öllum hjá fyrirtækinu og vinna jafnt en framkvæmdin er með öðrum hætti. Hluti starfsfólks er felldur af launaskrá á forsendum reglugerðarinnar en aðrir eru í vinnu. Tímabundnir ráðningarsamningar eru brotnir og starfsmenn felldir af launaskrá vegna ófyrirsjáanlegs hráefnisskorts. Fyrirtækið neitar að greiða þeim laun og Atvinnuleysistryggingasjóður hafnar bótarétti á þeim forsendum að samkvæmt ráðningarsamningi beri fyrirtækinu að greiða því laun. Og það er rétt að upplýsa af þessu tilefni að fyrir rúmu ári síðan gerði loðnubræðsla ein á Íslandi samning við hóp starfsmanna þar sem þeir undirrituðu, fyrirtækið undirritaði, trúnaðarmaður undirritaði, það gerði fjögurra mánaða starfsamning. Síðan kom engin loðna, starfsmennirnir sendir heim. Að sjálfsögðu löbbuðu þeir á næstu vinnumiðlunarskrifstofu og skráðu sig atvinnulausa. Þegar umsókn þeirra var tekin fyrir voru þeir með fastráðningarsamning við fyrirtækið. Atvinnuleysistryggingasjóður borgar ekki laun, fyrirtækið neitar að borga launin og nú eru málaferli í uppsiglingu.
    Það er með þessum hætti sem verkafólk eru algerir þolendur laganna og framkvæmdar þeirra. Þannig geta starfsmenn verið launalausir dögum og vikum saman og það er því brýn nauðsyn og algert réttlætismál að Alþingi bregðist strax við flutningi þessarar tillögu og tryggi endurskoðun laganna fljótt og vel. Og sú endurskoðun tryggi betur en nú er atvinnuöryggi verkafólks með því að takmarka rétt atvinnurekenda til uppsagna og með því að takmarka rétt þeirra til að vísa fólki úr vinnu vegna hráefnisskorts.
    Það er líka rétt að það komi fram að kauptryggingarsamningur sem fiskvinnslufólk á sínum tíma taldi mikla réttarbót hefur víða verið þverbrotinn en það skal líka tekið fram að það eru atvinnurekendur í þessari grein sem virða þennan samning og það er óréttlæti gagnvart þeim að aðrir brjóti samninginn. Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands hafa skrifað Verkamannasambandinu bréf þar sem þeir óska eftir endurskoðun á kauptryggingarsamningnum þar sem þeir treysta sér ekki til þess að standa við hann í óbreyttu formi. Því lítur málið enn verr út.
    Það er kaldhæðni örlaganna og sú staða væri kannski ekki í dag um uppsagnir, það er mikið um það að aðalmál lögfræðinga verkalýðshreyfingarinnar snúa að uppsagnarbréfum sem almennur starfsmaður fær þar sem ástæðan er ekki tilgreind, hann er ekki þess virði að honum sé sagt af hverju honum sé sagt upp. Hann fær bara bréfið. Ef Ísland hefði nú fullgilt þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert, og þá bendi ég sérstaklega á samþykkt nr. 156 og 158, þá værum við ekki í þessari stöðu gagnvart uppsögnunum. Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 nær til starfsfólks með fjölskylduábyrgð en hún leggur bann við því að fjölskylduábyrgð ein og sér geti verið ástæða til uppsagnar. Þegar talað er um fjölskylduábyrgð er ekki aðeins átt við fólk sem hefur börn á framfæri heldur einnig þá sem hafa aldraða foreldra sína á framfæri eða t.d. sjúkan maka. Í íslenskum lögum eru það bara trúnaðarmenn og vanfærar konur sem njóta verndar. Í þessari samþykkt nr. 156 er verið að vernda þann sem sér fjölskyldunni farborða, sama hvort það eru börn, aldraðir foreldrar eða maki í veikindum viðkomandi. Það hefði verið mjög vel til fallið á ári fjölskyldunnar að Ísland hefði staðfest og fullgilt þessa samþykkt. En sú nefnd hér á Íslandi sem er þríhliða nefnd aðila vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og félmrn., það er fulltrúi Vinnuveitendasambandsins í nefndinni sem hefur jafnan lýst andstöðu og gerir málið patt.
    Þá er önnur samþykkt ekki síður mikilvæg fyrir almennt launafólk og það er samþykkt nr. 158 þar sem atvinnurekendum er bannað að segja fólki upp að ástæðulausu. Það segir ekki að atvinnurekandi geti ekki sagt upp vegna skipulagsbreytinga í fyrirtækinu en ástæðan verður að vera fyrir hendi og það má ekki mismuna fólki vegna hörundslitar, skoðana eða annars slíks. Þar er réttur fólksins ótvíræður.
    Það er kannski rétt í þessu sambandi að vekja athygli á frammistöðu Íslands gagnvart þessum samþykktum sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur sent frá sér og aðildarlöndin eiga að sjálfsögðu að staðfesta. Það er mikið kvartað yfir því hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni hvað við Íslendingar erum slappir í því að samþykkja þetta. Við berum okkur oft saman við Norðurlöndin. Af þeim samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, lista sem er frá 1. júní 1994, hafa Spánverjar samþykkt 101 og eru þar hæstir. Noregur samþykkir 83, Finnland 73, Svíþjóð 69, Danmörk 59 en Ísland 18. Við erum þar í flokki með Írak, Ekvador og slíkum þjóðfélögum.
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er á ferðinni er brýnt réttlætismál fyrir það fólk sem hefur veikasta stöðu í þjóðfélaginu, býr við minnst atvinnuöryggi og vinnur í þeirri atvinnugrein sem hingað til hefur ekki notið mikillar virðingar en stendur vonandi til bóta. Það er von okkar flm. að þetta mál fái góða og skjóta afgreiðslu á Alþingi því að fram undan eru erfiðir kjarasamningar og það væri gott vegarnesti fyrir íslenskt verkafólk að fá afgreiðslu hér á jákvæðum nótum.
    Að lokinni 1. umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.