Réttur verkafólks til uppsagnarfrests

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 12:36:11 (1663)


[12:36]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð þeirra þingmanna sem hafa talað á undan mér varðandi þakkir til hv. þm. Elínbjargar Magnúsdóttur vegna þáltill. sem ég er meðflm. að.
    Mér þótti vænt um að heyra það áðan þegar vitnað var í fortíðina og talað um ágætan félaga okkar og leiðandi mann á árum áður úr íslenskri verkalýðshreyfingu, Guðmund H. Garðarsson, að hann skyldi hafa komið að þessu máli 1979. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að hann hefur verið vakandi maður og ötull eins og raun ber vitni.
    Það vakti hins vegar upp í huga mér það ástand sem var á árum áður þegar ég ungur maður var að breiða saltfisk hjá Tryggva Ófeigssyni og eiginlega blasir sú mynd enn við í dag hjá íslensku verkafólki í fiskvinnslu. Ef kom til þess að breiddur skyldi saltfiskur til þerris þá var flaggað, en á jafnskömmum tíma gat svo farið að ský dró fyrir sólu og ef almennt var mætt til vinnu þá var vinna flautuð af og hver fór til síns heima án þess að fólk fengi nokkur laun fyrir ómakið. Það þótti bara sjálfsagt og eðlilegt að réttleysið væri slíkt. Því miður er í dag ekki fjarri þessu ástandi eins og hv. þm. Árni Johnsen kom hérna inn á áðan og Margrét Frímannsdóttir. Það er óeðlilegt, eins og hér hefur komið fram áður, að það fólk sem vinnur við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar skuli búa við það réttleysi sem raun ber vitni.
    Hér var talað um að margar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru þess eðlis að Íslendingar hafa ekki gerst aðilar að og standa kannski manna lakast hvað þau réttindi verkafólks áhrærir sem og Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert samþykktir um. Í allri umræðunni um nánara samstarf við erlendar þjóðir virðist það eitt hafa ráðið og ráða umræðunni allri sem snýr að viðskiptalegum þáttum samskipta í milli þjóða. Kannski er það svo að Íslendingar þurfi að fara að athuga sinn gang hvað áhrærir rétt verkafólks einnig í samskiptum sem við eigum við aðrar þjóðir og þar sem við erum að taka þátt í ýmsu alþjóðlegu starfi. Þá kemur upp í hugann: Hvers vegna erum við yfir höfuð að taka þátt í samstarfi og vinnu hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni ef þar eru svo margar greinar samþykktar af meginhluta þeirra þjóða sem þar eiga aðild að en við Íslendingar erum slíkir eftirbátar sem raun ber vitni um varðandi rétt og réttarstöðu íslensks verkafólks? Getur það verið að í mörgum tilfellum sé það orðið svo að íslenskt verkafólk stendur mjög lakar en frændur okkar t.d. á hinum Norðurlöndunum eða í Evrópu allri?
    Það er alvarleg þróun sem hefur orðið hjá íslensku fiskverkunarfólki þegar litið er til þess að frystitogurum hefur fjölgað svo mjög. En sú þróun á kannski skýringar og sína sögu þegar til þess er litið að jafnhliða réttarleysi fólks í fiskverkun hefur líka framþróunin í mörgum þáttum fiskvinnslunnar staðið í stað, ekki það að vinnslan og vinnsluaðferðin og hraðinn hafi ekki náð framþróun heldur hitt að lengd vinnutímans hefur staðið í stað. Menn hafa keppst við að nýta eingöngu dagvinnutímann til þess að vinna fiskinn og jafnvel borið því við að vegna þess að verkafólk hafi takmarkaðan uppsagnarfrest þá sé nauðsynlegt að nýta dagvinnutímann á meðan sá eini togari sem kannski er til í viðkomandi plássi sé úti á miðunum til að ná í meiri afla og sá afli sem fyrir er er þá unninn í einhverjum hægagangi sem hefur jafnvel komið niður á gæðum. Kannski er það hluti af skýringunni hvers vegna menn hafa lagt sig fram um að frysta hráefnið sem allra ferskast. Kannski er þarna skýringar að leita að hluta til, að menn hafa verið að draga það í of langan tíma að vinna það hráefni sem að landi hefur komið vegna þess að til er eitthvað sem heitir kauptrygging hjá fiskverkunarfólki. Eðlilegt hefði verið að horfa svo á í fortíðinni að slíkur fjöldi frystihúsa væri ekki byggður sem raun ber vitni núna og að jafnframt hefði verið tekið upp vaktafyrirkomulag til þess að sú matvælaiðja sem við höfum stundað um langan tíma væri eins og ætlast er til á þessum tímum.
    Hér kom líka einn þingmaðurinn inn á að sá hugsunargangur væri kannski enn ríkjandi að fólk talaði niður til fiskverkunarfólks og í skólum landsins væri jafnvel sá sem ekki hefði lært lexíuna sína spurður að því hvort hann ætlaði að verða verkamaður í frystihúsi allt sitt líf. Ég vona að þessum móral hafi verið eytt úr skólum. Ég trúi því ekki að enn sé til slíkur orðhengilsháttur meðal fræðimanna íslenskra ungmenna sem hér hefur verið getið um. Það er vissulega full ástæða þá til, ef svo er, að því verði snúið við.

    Ég vildi að lokum ítreka að ég vona að þessi þáltill. fái skjóta afgreiðslu og tek undir það sem var sagt áðan að það ber því miður of mikið á því að þáltill. eru að þvælast í nefndum allt of lengi og eru jafnvel afgreiddar þaðan seint og illa út. Ég vildi aðeins bæta við varðandi það réttleysi sem fiskverkunarfólkið hefur hvað uppsagnarfrest áhrærir og ítreka það og minni á að enn þá búa íslenskir fiskimenn við það réttleysi að eiga aðeins viku uppsagnarfrest, en þáltill. liggur hjá hv. samgn. þar að lútandi og vonast ég til, hæstv. forseti, að formaður samgn. afgreiði þá tillögu skjótt og vel úr nefnd.