Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:25:39 (1680)


[14:25]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að deiluaðilum megi vera það ljóst að Alþingi Íslendinga leggur mikla áherslu á það að fundin sé farsæl lausn á þessu máli. Þar af leiðandi tel ég að þessi umræða hafi verið til góðs. Ég vil líka hvetja til þess að ekkert sé gert til að magna upp þessa deilu. Hún er á viðkvæmu stigi, en það má alveg ljóst vera að ef héðan í frá er reynt að magna hana upp með ýmsum þvingunaraðgerðum þá er ekki líklegt að það verði auðvelt að leysa hana.
    Ég tek líka undir að það á ekki að fara að blanda þessari deilu neitt sérstaklega inn í endurskoðun á vinnulöggjöfinni. Ég tek undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar um það mál. Hins vegar er vinnulöggjöfin frá 1938 og það er eðlilegt að um hana sé umræða. Það er líka eðlilegt að endurskoðun hennar sé á dagskrá í breyttu þjóðfélagi þar sem mun fleiri stéttir starfa en 1938. Það getur ekki verið að sú löggjöf sé algerlega gallalaus og reyndar tel ég að hún sé það ekki. Menn verða að þola að nokkur umræða fari fram um það.
    Það hefur komið hér fram að ríkisstjórnin hyggist ekki grípa inn í málið á þessari stundu. En ég skil orð hæstv. félmrh. þannig að það sé ekki útilokað að skipuð verði sérstök sáttanefnd í málið. Það væri vissulega óvenjulegt en málið er líka óvenjulegt og mikilvægt. Ég tel því að alls ekki eigi að útiloka það að skipa sérstaka sáttanefnd vegna þess að þetta mál getur haft alvarlegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir þetta fólk heldur líka fyrir þá atvinnustarfsemi sem þarna er að hasla sér völl.