Málefni Atlanta-flugfélagsins

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:28:12 (1681)


[14:28]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég útiloka ekkert í þessum efnum með sáttanefnd. Það er mjög óvanaleg leið að fara en getur vissulega komið til greina ef þetta mál heldur áfram að vera óleyst. Ég tel farsælast að það sé sáttasemjari sem leiði þessa deilu til lykta, en ef hann eða deiluaðilar telja að stjórnvöld geti orðið að liði við að finna lausn þá eiga stjórnvöld að verða við því.
    Ég ítreka það að stjórnvöld hafa takmarkaða möguleika á því að hafa formleg afskipti af vinnudeilu eins og þessari. En eins og ég sagði áðan þá skortir ekkert á minn vilja til að hafa áhrif þar sem ég get og innan þess ramma sem mér er fært.
    Varðandi það sem hér var nefnt um breytingar á vinnulöggjöfinni þá er þetta vissulega bara annar vinnudagur minn í ráðuneytinu sem slíkur þannig að þó ég sé búin að sýna hinn mesta vilja og hafa mig alla við, þá geri ég mér grein fyrir að þar geta fundist mál í gangi sem ég þekki ekki til. Ég held þó að það sé ekki þannig að það sé komin í gang nein endurskoðun á vinnulöggjöfinni. Ég hef hins vegar hugsað mér að eiga mjög fljótlega viðræður við aðila vinnumarkaðarins. Ég hef hugsað mér það að eiga viðræður við fulltrúa launþegasamtaka og hlusta á þá varðandi ýmis mál sem á þeim brenna og hvort þar á eftir að koma inn eitthvað varðandi þetta veit ég ekki, en ég mun vissulega sýna þeim málum mjög mikinn áhuga og hlusta á hvað mönnum liggur á hjarta.