Fæðingarorlof

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 16:14:49 (1705)

[16:14]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um endurskoðun laga um fæðingarorlof, en tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða lög og reglugerðir um fæðingarorlof. Nefndin hafi það verkefni að undirbúa löggjöf sem tryggi það að foreldrar, hvar sem þeir eru í starfi, njóti jafnréttis hvað varðar lengd fæðingarorlofs, greiðslur í fæðingarorlofi og rétt til töku fæðingarorlofs. Sérstaklega skal hugað að rétti feðra. Jafnframt skal nefndin leggja fram tillögur um að lengja fæðingarorlof í áföngum og mat á leiðum til fjármögnunar. Frumvarp þar að lútandi verði lagt fram í byrjun næsta þings.
    Nefndin verði m.a. skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, bæði á almenna markaðinum og hinum opinbera.``
    Það eru ýmsar ástæður fyrir því að þetta mál er hér fram borið. Ég held að það hafi komið í ljós að það eru ýmsir annmarkar á löggjöfinni um fæðingarorlof og vantar alla samræmingu varðandi framkvæmdina auk þess sem það er tímabært að huga að því hvort og þá hvernig hægt er að lengja fæðingarorlof í áföngum sem ég tel mjög brýnt.
    Árið 1987 voru sett ný lög um fæðingarorlof. Lagabreytingin 1987 var veruleg réttarbót á sínum

tíma, fyrst og fremst vegna lengingar orlofsins úr þremur mánuðum í sex. Síðan hafa komið í ljós ýmsir annmarkar á lögunum eins og ég nefndi áðan og ljóst er að núgildandi lagareglur um fæðingarorlof mismuna einstaklingum. Það gilda eins og allir þekkja aðrar reglur um opinbera starfsmenn en fólk á almennum vinnumarkaði. Greiðslur fæðingarorlofs opinberra starfsmanna eru tekjutengdar en greiðslur á almennum vinnumarkaði eru almennt ekki tekjutengdar. Einungis konur í starfi hjá hinu opinbera eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi. Barnsfeður opinberra starfsmanna eiga ekki rétt til greiðslna í fæðingarorlofi, hvort sem þeir eru í starfi hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Óheimilt er að semja í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði um viðbótargreiðslur í fæðingarorlofi. Það hefur þó verið gert í kjarasamningum bankamanna athugasemdalaust.
    Þegar litið er á framkvæmd fæðingarorlofs í dag til viðbótar því sem ég hef sagt, þá segir í lögum um fæðingarorlof að foreldrar sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi eigi rétt á sex mánaða fæðingarorlofi. Lögin ná til allra foreldra en þau fjalla aðeins um orlofstökuna sem slíka en ekkert um greiðsluþáttinn. Reyndin er því sú að þótt allir foreldrar eigi rétt á orlofinu er ekki nema hluti þeirra sem fær greiðslur þann tíma sem þeir eru frá störfum og greiðslurnar auk þess misjafnar.
    Tryggingastofnun ríkisins greiðir fæðingarstyrki og fæðingardagpeninga til foreldra á almennum vinnumarkaði, en fæðingarstyrkur greiðist síðan óháð vinnuframlagi en fæðingardagpeningar greiðast þeim foreldrum sem leggja niður launuð störf þannig að þeir sem hafa unnið 1.032 dagvinnustundir eða meira á sl. 12 mánuðum fá fulla dagpeninga, en þeir sem hafa unnið 512--1.031 dagvinnustund fá hálfa dagpeninga.
    Fullt fæðingarorlof er rúmlega 56 þús. kr. á mánuði og reglur um fæðingarorlof gilda ekki um mæður sem eru opinberir starfsmenn og hafa verið sex mánuði eða lengur í starfi, mæður sem vinna í bönkum, feður sem giftir eru konum sem eru opinberir starfsmenn og feður sem eru opinberir starfsmenn. Sé móðir opinber starfsmaður með sex mánaða starf að baki gilda um hana reglur um barnsburðarleyfi opinberra starfsmanna. Hún heldur fullum launum fyrstu þrjá mánuði í orlofi og heldur síðan dagvinnulaunum næstu þrjá mánuði. Vinni móðir í banka gilda um hana ákvæði kjarasamninga bankamanna og einhvers konar samkomulag sem gert var við heilbr.- og trmrn. vorið 1988. Þær konur halda fullum launum fyrstu þrjá mánuði í fæðingarorlofi en síðari þrjá mánuði fá þær greitt fæðingarorlof frá Tryggingastofnun ásamt eingreiðslu frá bankanum sem mig minnir að sé um 30 þús. kr.
    Hér er því um að ræða eins konar sambland af rétti fólks á almennum markaði og rétti kvenna í starfi hjá ríkinu. Það má ætla að fjórðungur allra sem njóta réttar í fæðingarorlofi séu opinberir starfsmenn.
    Síðan er eitt atriði sem er mikið óréttlæti. Sé faðir giftur konu sem er opinber starfsmaður fær hann engar greiðslur í fæðingarorlofi og byggist þetta á því að Tryggingastofnun túlkar 16. gr. þannig að faðir geti ekki átt meiri rétt til greiðslna úr Tryggingastofnun en móðir átti þar sem réttur til greiðslu fæðingarorlofs er afleiddur réttur. Móðir sem er opinber starfsmaður á ekki rétt á greiðslum úr Tryggingastofnun og því getur faðirinn heldur ekki átt rétt. En sé faðir opinber starfsmaður fær hann ekkert greitt frá ríkinu þar sem reglur um barnsburðarleyfi opinberra starfsmanna ná einungis til kvenna en ekki karla. Hann á væntanlega rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun svo framarlega sem móðir fellur undir almannatryggingalögin.
    Síðan eru viðbótargreiðslurnar frá vinnuveitanda, sem er alveg sérstakt mál. Þær voru þannig að þeim foreldrum sem semja um viðbótargreiðslur frá vinnuveitendum er synjað um greiðslu fæðingarorlofs á grundvelli túlkunar Tryggingastofnunar ríkisins, en á sínum tíma hnekkti bæjarþing Reykjavíkur þessari túlkun. Málinu var þá vísað til Hæstaréttar og með dómi Hæstaréttar í maí 1993 var þessari framkvæmd hnekkt og opnað á þann möguleika að samið væri um einstaklingsbundnar greiðslur.
    Allt þetta sem ég hef lýst, virðulegi forseti, sýnir ljóslega að það eru miklir annmarkar á löggjöfinni um fæðingarorlof og mikið ósamræmi sem nauðsynlegt er að leiðrétta.
    Því til viðbótar má benda á að með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbinda stjórnvöld sig til að tryggja launafólki sama lágmarksrétt hér á landi og gildir í löndum Evrópubandalagsins. Með tilskipun um vinnuvernd barnshafandi kvenna og kvenna sem nýlega hafa fætt, sem tók gildi 19. okt. 1994, eru aðildarlöndin skyldug til að sjá barnshafandi konum fyrir heilsusamlegu vinnuumhverfi og í vissum tilfellum tryggja tilflutning í starfi án launabreytinga.
    Samkvæmt þessum skuldbindingum ber einnig að taka tillit til vinnutíma barnshafandi kvenna og kvenna með börn á brjósti og þá sérstaklega að komast hjá næturvinnu þessara kvenna. Séu störf beinlínis hættuleg þessum konum og tilfærslum verður ekki við komið ber að veita þeim leyfi á fullum launum eða með fullnægjandi dagpeningum. Aðildarlöndin eru skyldug til að lögbinda að minnsta kosti 14 vikna fæðingarorlof með óskertum launum eða dagpeningum sem jafngilda veikindalaunum konunnar. Heimilt er að ákveða lágmarksgreiðslu og setja skilyrði um lágmarkstíma fyrir unnum réttindum.
    Í tilskipuninni er einnig tryggður réttur barnshafandi kvenna til mæðraeftirlits án skerðingar á launum verði eftirliti ekki við komið utan vinnutíma. Konur skulu ekki missa nein starfsréttindi þann tíma sem þær eru frá vegna fæðingarorlofs.
    Þarna eru náttúrlega ýmis mikilvæg ákvæði í þessum tilskipunum sem við þurfum að aðlaga okkar löggjöf og þó ekki væri nema þess vegna þá er nauðsynlegt að fara að huga að því að breyta hér reglum um fæðingarorlof til þess að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar gagnvart EES, en Ísland hefur tveggja ára aðlögunartíma að þessum reglum.
    Frá því 1987 að lögin voru sett sem fólu í sér lengingu á fæðingarorlofi hafa verið skipaðar nefndir til þess að endurskoða lög um fæðingarorlof, en ég held að það hafi aldrei komist lengra en að þetta hefur verið skoðað í nefnd. Ég veit til þess að á sl. ári vann nefnd á vegum heilbrrh. frv. um fæðingarorlof. Þar voru lagðar til veigamiklar breytingar á lögum um fæðingarorlof og nefndin lagði til að reglur um fæðingarorlof yrðu samræmdar þannig að allir, hver svo sem vinnuveitandi þeirra væri, sætu við sama borð. Þar var gert ráð fyrir hámarksfæðingarorlofi 125 þús. kr. og lágmarksfæðingarorlofi, 25 þús. kr. og taldi nefndin að í þessari kerfisbreytingu fælist fyrst og fremst tilfærsla greiðslna innan hópsins í samræmi við raunverulegt tekjutap í stað þess að greiða flestum sömu upphæð eins og gert er í núverandi kerfi. Í þessum tillögum fólst ákveðin réttarbót þannig að greiðslur í fæðingarorlofi yrðu nær því sem konur eða foreldrar hafa á hinum almenna vinnumarkaði. Nokkuð hefur því verið hugað að því þó að þetta mál hafi aldrei komist lengra en í mesta lagi að nefnd hafi skoðað það og þetta liggi þá á borði ráðherra.
    Ég held því að öll rök standi til þess að menn fari í þetta verkefni. Varðandi það verk sem var unnið í þessari nefnd, ég legg ekki mat á þær tillögur sem þarna voru settar fram, en engu að síður þarf mun víðtækari endurskoðun en þessi nefnd vann að, ekki síst með tilliti til bæði ósamræmisins og skuldbindinga okkar og tilskipana vegna Evrópska efnahagssvæðisins.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa um þetta mál fleiri orð. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.