Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:26:33 (1715)



[15:26]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Það er fyllsta ástæða til að taka undir margt af því sem fram hefur komið í máli hv. þátttakenda í umræðunni. Þeir vilja koma á framfæri því viðhorfi sem ríkir í mínu heimahéraði til landpósta. Almennt viðhorf er að þjónusta sú sem veitt hefur verið sé og hafi verið til fyrirmyndar. Landpóstar hafa einnig lagt sig fram um að auka hæfni sína til að veita þjónustu.
    Ég vil vekja athygli á því að gefið loforð um að engum fastráðnum landpósti yrði sagt upp störfum hefur verið brotið samkvæmt upplýsingum. M.a. hafa menn fengið uppsögn þrátt fyrir 10 til 20 ára starf, fólk sem hafði áunnið sér gott orð, ekki síst fólksins sem hafði notið þeirra þjónustu og einnig hefur það verið staðfest af stöðvarstjórum Pósts og síma.
    Ég vil ráða Pósti og síma frá því að láta stundarhagsmuni ráða gjörðum sínum. Krafa þeirra sem í dreifbýli búa er að sitja við sama borð og aðrir landsmenn um a.m.k. ekki lakari þjónustu en verið hefur.
    Í greinargerð landpósta til samgn. kemur skýrt fram að loforð hefur legið fyrir um að varlega yrði farið í útboð. Það sem liggur að mínu mati í þeim orðum er að ekki skuli tekið tilboðum sem eru óeðlilega lág og hæpið að geti staðist. Því ítreka ég tilmæli um það að taka upp viðræður við Félag landpósta áður en til ófarnaðar stefnir. Þessum tilmælum beini ég til hæstv. samgrh. með fullu trausti um að hann verði við þeim, en eins og fram kom í hans ræðu áðan þá var hann tilbúinn að stoppa útboð að sinni.