Hlutdeild áfengis og tóbaks í grunni framfærsluvísitölu

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:55:47 (1729)


[15:55]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram að ég tel að hv. fyrirspyrjandi hafi mikið til síns máls að benda á það hér að útreikningar á framfærsluvísitölu geta haft áhrif á ákveðin markmið í heilsugæslu. Samspil framfærsluvísitölunnar við kjaramál getur leitt til þess að menn standi gegn hækkunum á tóbaksvörum sem gætu engu að síður verið jákvæðar þegar um markmið heilsugæslu er að ræða. Mér finnst því þessi ábending hv. fyrirspyrjanda góð, við eigum að taka mark á henni og velta því fyrir okkur hvort það sé eðlilegt að framfærsluvísitalan geti gengið beinlínis gegn ákveðnum markmiðum í heilsugæslunni.