Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:21:36 (1742)

[16:21]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 206 flyt ég svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh. um Fiskvinnsluskólann:
  ,,1. Hver er ástæðan fyrir lokun Fiskvinnsluskólans?
    2. Telur ráðuneytið þá menntun sem skólinn hefur veitt ófullnægjandi?
    3. Hefur verið erfitt fyrir fólk úr Fiskvinnsluskólanum að fá atvinnu?
    4. Hvenær verða teknar ákvarðanir um framtíð fiskvinnslunáms á Íslandi?``
    Ástæðan fyrir þessari fsp. er fjölþætt, hæstv. forseti. Í fyrsta lagi sú að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 segir svo í greinargerð á bls. 296, með leyfi forseta:
    ,,Á móti lækkar fjárveiting til Fiskvinnsluskólans um rúm 40% frá fjárlögum. Starfandi er nefnd sem er ætlað að endurskoða sjávarútvegsnám í heild sinni, þar með talda starfsemi Fiskvinnsluskólans, og er því ekki gert ráð fyrir starfrækslu hans á vorönn 1995.``
    Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að loka sjálfum fiskvinnsluskóla fiskveiðiþjóðarinnar á fyrri hluta ársins 1995 samkvæmt því orðalagi sem er í grg. frv.
    Í Morgunblaðinu á haustdögum var farið aðeins yfir þetta mál. Þar kemur fram að menntmrn., eins og það er orðað hér, með leyfi forseta: ,,stöðvaði innritanir í skólann sl. vor. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, ráðunautur menntmrh. í skólamálum, segir að þetta komi til af illri nauðsyn þar sem námið sé ekki lengur í samræmi við þarfir fiskvinnslunnar. Það er verið að vinna að endurskipulagningu námsins og ekki þótti rétt að halda því áfram fyrr en að þeirri vinnu lokinni.``

    Af þessum ástæðum og fleirum, hæstv. forseti, er þessi fsp. hér flutt að fá botn í það hvernig þessi mál horfa við að mati menntmrn.
    Sumar fyrirspurnirnar eru dálítið óvenjulegar, ég viðurkenni það. Hér segir t.d.: ,,Telur ráðuneytið þá menntun sem skólinn hefur veitt ófullnægjandi?``
    Ég geri ráð fyrir því að ráðherra telji svo ekki vera. Staðreyndin er hins vegar sú að þau ummæli sem höfð hafa verið eftir einstökum starfsmönnum ráðuneytisins gefa það í skyn að ráðuneytið líti svo á að sú menntun sem þarna er gefinn kostur á sé algjörlega ófullnægjandi. Þess vegna er nauðsynlegt að ráðherra kveði upp úr með það hvaða skoðun ráðuneytið hefur á því fólki og menntun þess sem í skólanum er.
    Þess vegna er fsp. borin fram og mætti margt segja um málið að öðru leyti, m.a. það að forráðamönnum þessa skóla og nemendum hefur ekki tekist að ná sambandi við menntmrn. núna um hálfs árs skeið eða svo.