Staðgreiðsla af launum blaðsölubarna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:13:07 (1788)


[18:13]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna orða hæstv. ráðherra segja það strax að auðvitað er fráleitt að þessum lögum verði breytt öðruvísi heldur en að það verði látið ganga jafnt yfir öll börn hvaða atvinnu sem þau stunda. Það getur ekki gengið að menn ætli að fara að undanþiggja sérstaklega einhverja ákveðna atvinnustarfsemi. Það verður þá að vera af einhverjum öðrum ástæðum heldur en hér hafa verið ræddar.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort einhver annar en ráðherra þessara mála geti borið ábyrgð á því ef lögunum er ekki framfylgt úr því að málið kom upp og var rætt í ráðuneytinu. Og ef einhver annar ber ábyrgð á því þá hlýtur það að vera einhver eða einhverjir embættismenn í kerfinu og þess vegna spyr ég: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til þess að lögunum verði framfylgt? Og ég tek þar með undir fyrirspurn hv. þm. sem talaði hér á undan.