Vegaframkvæmdir á Austurlandi

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:01:59 (1804)


[14:01]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér heyrðist á hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni, að hann væri mjög fastur í þeim förum að sjálfsagt væri að hafa óbreytta skiptingu á framkvæmdafé milli kjördæma frá þeim tíma sem flokksbróðir hans, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, var samgrh. og skyldi nú í engu hvikað frá því. Væri þó skemmtilegt að fá að vita hvað hann segir um þau efni þegar hann kemur að göngum undir Hvalfjörð. Ætli það kosti ekki um það bil 500--600 millj. kr. einungis að koma veginum að jarðgöngunum frá Akranesi og fyrir Akrafjallið að vegamótum, eitthvað svoleiðis. Eftir því sem hv. þm. talaði finnst honum sjálfsagt að þetta fé verði tekið af almennu framkvæmdafé þeirra á Vesturlandi og er ekki nema gott um það að segja fyrst hv. þm. sér leið til þess. Nema ég hafi misskilið hv. þm. og hann sé allt í einu þann veg þenkjandi þegar kemur að hans eigin kjördæmi að þá skuli ekki fara eftir þeim sömu skiptitölum og farið var eftir í tíð fyrrv. samgrh. Hv. þm. vill alltaf fá skýr svör og nú væri mjög gott að fá að vita hvernig hann lítur á sín eigin mál, hvernig hann horfir til þeirra og hversu fast hann vill þá halda sig við fortíðina.
    Þegar við erum að tala um það hvert sé framlag ríkissjóðs til Vegasjóðs eða Vegasjóðs til ríkissjóðs á þessu ári þá er á það að líta að vegna þeirra óhappa og tafa sem orðið hafa á Vestfjarðagöngum er óhjákvæmilegt að ætla 350 millj. kr. á aukafjárlögum til þeirra framkvæmda nú á þessu ári. Auðvitað breytir það öllu dæminu. Ég vil líka segja hv. þm. að það er alls ekki í fyrsta skipti meðan ég er samgrh., þó að ég sé uppfinningasamur, sem samgrh. hefur dottið í hug að skerða Vegasjóð og leggja fjármuni hans inn í ríkissjóð og getur hann spurt forvera minn um söguna í þeim efnum.