Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:37:55 (1827)


[15:37]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni útúrsnúningar frá hv. þm. Hann segir að ég hafi komið og hafnað öllum viðræðum við lífeyrissjóðina. Þetta er rangt og aðrir sem hér eru inni eru til vitnis um það. Ég dró það í efa að þetta væri raunhæft með tillit til þess að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki lækkað sína vexti á lánum til húsbyggjenda, að það reyndist erfitt að fá þá til að kaupa skuldabréf til að fjármagna félagslega kerfið. Það var allt og sumt sem ég hélt fram. Ef það er raunhæft að setjast að borði með lífeyrissjóðunum þá styð ég það auðvitað. En ég met það svo eftir samskipti mín við lífeyrissjóðina, af reynslunni, að það muni ekki skila miklu. Ég held því miður að þessi tillaga sem hv. þm. setur fram sé ekki mjög raunhæf. ( SvG: Þingmaðurinn staðfestir allt sem ég sagði. Takk fyrir.)