Framkvæmdir við álver í kjölfar hækkaðs álverðs

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:10:54 (1888)


[14:10]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórn getur náttúrlega ekki lofað því að verksmiðja skuli byggð ef þeir sem ætla að byggja verksmiðjuna hafa ekki áhuga á því. Það verður að vera áhugi á málinu hjá þeim sem ætla að reisa viðkomandi verksmiðju og kosta hana. Ríkisstjórn getur engu lofað og hefur engu lofað í því sambandi öðru en því að stuðla að því eftir fremsta megni að slík verksmiðja geti risið þegar þeir aðilar sem eiga að greiða kostnaðinn eru til þess búnir. ( GÁ: Hvað gerði Jón Sigurðsson?) Hann gerði það, nákvæmlega það en það sem varð þess verkandi að þær vonir rættust ekki voru ekki einhver afskipti eða afskiptaleysi ríkisstjórnar Íslands. Það var sú staðreynd að álverð hrundi á erlendum mörkuðum. Það vekur vissulega vonir okkar þegar álverð fer að stíga á ný en ég vara einfaldlega við að menn fyllist of mikilli bjartsýni vegna þess að það á sínar skýringar hvers vegna álverðið er að hækka og það er ekkert víst að sú hækkun verði varanleg. Verði hún hins vegar varanleg þá opnast aftur þeir möguleikar sem voru fyrir nokkrum árum síðan á að álver gæti risið og þá finnst mér alveg augljóst að það verði á þeim stað sem lengst var fram genginn þegar áætlanir um byggingu álvers á Íslandi voru gerðar á sínum tíma.