Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:31:00 (1898)

[15:31]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að óska eftir utandagskrárumræðu um vinnudeilu ríkisins við sjúkraliða og ástandið á heilbrigðisstofnunum í landinu.
    Verkfallið segir víða til sín, ekki aðeins á heilbrigðisstofnunum heldur einnig á öðrum vinnustöðum þar sem starfsmenn komast ekki til vinnu þar sem þeir verða að sinna veikum og lasburða ættingjum heima við. Þannig kemur í ljós, hafi einhver verið í vafa áður, að sjúkraliðar vinna lífsnauðsynleg störf fyrir þjóðfélagið allt og allt tal um opinbera starfsmenn í þjónustugreinum sem einhvers konar afætur á þjóðfélaginu er fjarstæða. Það kemur sem sé fram að velferðarkerfið snýr ekki aðeins að þeim sem njóta þess kerfis beint heldur er velferðarkerfið í raun ein mikilvægasta undirstaða atvinnu- og efnahagslífs í landinu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, ekki síst í seinni tíð þegar niðurskurður á velferðarkerfinu hefur orðið eitt helsta keppikefli stjórnvalda.
    Að undanförnu má segja að fjölmiðlar hafi skýrt allvel stöðu sjúkraliða eftir því sem kostur er. Þannig ætti öllum að vera ljóst nú að hér er um að ræða láglaunastétt. En það virðist samt ekki duga til því forráðamenn samninganefndar ríkisins og fjmrh. koma í fjölmiðla einu sinni á dag eða svo og segja að það megi ekki koma til móts við sjúkraliða umfram þau 3% sem sýnt var á fyrir nærri hálfu ári og er bersýnilega óviðunandi m.a. með hliðsjón af launum annarra heilbrigðisstétta.
    Sjúkraliðar sjá nefnilega ekki bara launaumslögin sín, þeir frétta líka af launum dómara og presta og einstaka heilbrigðisstéttir hafa allmiklu hærri laun en sjúkraliðarnir, sumir reyndar margfalt hærri laun.
    En samninganefnd ríkisins hefur því miður ekki hlustað á þau rök. Sjúkraliðar hafa einnig boðist til þess að setja fulltrúa ríkisins ásamt fulltrúa sínum til að reikna út viðmiðunarpunktinn í þessum viðræðum. Það hefur ekki heldur fengist. Sjúkraliðar hafa mætt á hverjum fundinum á fætur öðrum, sáttafundum klukkan tíu á morgnana og þeir eru orðnir 40 talsins þessir fundir. Þar gerist ekkert fyrr en um þrjúleytið þegar aðilar fara að tala saman um það hvenær eigi að halda næsta fund. Fundirnir hafa því verið gagnslausir til þessa.
    Þá er því við að bæta og það er undirstaða þessarar utandagskrárumræðu, hæstv. forseti, að hæstv. heilbrrh. lýsir því yfir að það megi hækka kaupið og það séu til peningar fyrir því. Ég spyr hann því í þessari umræðu: Hvað hefur hæstv. heilbrrh. gert til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri við hæstv. fjmrh.? Hefur hæstv. heilbrrh. beitt sér, hvar og hvernig?
    Auk hæstv. heilbrrh. hafa aðrir aðilar tjáð sig um málið eins og flokksráðsfundur Sjálfstfl. Hefur fjmrh., sem ætlaði að vera viðstaddur þessa umræðu, lesið samþykktir flokksráðsfundar Sjálfstfl.? Þar segir að það eigi að hækka lægstu laun sérstaklega og vissulega eru sjúkraliðar í þeirra hópi.
    Fleira kemur til í þessu sambandi, hæstv. forseti. Um árabil hefur það verið fast viðkvæði í umræðum um launamál að laun megi ekki hækka vegna þess að þá fari verðbólga af stað og þjóðfélagið standi þá frammi fyrir gjaldþroti og nauðungaruppboðum eins og reyndar fjöldi íslenskra launamanna um þessar mundir. Nú virðist hins vegar landslag vera að breytast í þessum efnum. Fólkið hefur afnumið verðbólguna með því að una allt of lágu kaupi allt of lengi og í seinni tíð hafa borist fréttir um stóraukinn hagnað fyrirtækja. Það berast fregnir um ævintýralega starfslokasamninga, m.a. inn á borð þingmanna í dag. Það berast fréttir um uppgjör á námsleyfum sem aldrei voru notuð. Það berast fréttir um greiðslur fyrir ferðalög sem aldrei voru farin. Og svo berast einnig fréttir af því, einmitt þessa dagana, að þjóðarbúið standi nú betur en nokkru sinni fyrr um langt skeið. Það sé ekki einu sinni einasta bati eins og hæstv. forsrh. tók fram heldur verulegur bati og hér verði hagvöxtur, ekki aðeins á næsta ári heldur á hverju einasta ári fram yfir næstu aldamót. Það er talað um aukningu landsframleiðslu allt upp í 4%.
    Allt er þetta með þeim hætti að ég tel óhjákvæmilegt að menn slái því föstu að láglaunatímabilinu verði að linna og hæstv. heilbrrh. verður að gera okkur grein fyrir því hvað hefur hann gert til að berjast fyrir þeirri skoðun sinni að laun sjúkraliða eigi að hækka. Hvernig telur hann stöðuna á heilbrigðisstofnunum vera um þessar mundir? Hefur hann ekki áhyggjur af heilbrigðiskerfinu í dag? Hvernig telur hann að eigi að taka á málunum næstu daga? Mun hann sýna næstu daga hvort hann er heilbrrh. eða lætur hann fjmrh. beygja sig?