Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:44:19 (1937)


[13:44]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er greinilega stóralvarlegt ásökunarefni sem hér er borið fram á hæstv. utanrrh. og greinilegur trúnaðarbrestur í stjórnarliðinu gagnvart honum vegna meðferðar þessara mála. Þetta er nánast yfirlýsing um vantraust á meðferð utanrrh. á málefnum sem ákveðin eru í ríkisstjórninni.
    Ég ætla svo að segja um þetta mál að mér finnst það ákaflega niðurlægjandi fyrir þingmenn að sjá auglýsta fundi og sagt frá fundum þar sem verið er að kynna og segja frá skýrslum af þessu tagi og hafandi sjálfur mætt á fund þar sem einn af skýrslugerðarmönnum var mættur til að kynna landbúnaðarskýrsluna. Mér finnst það ekki ná nokkru tali og mér finnst það ekki vera sæmandi hæstv. utanrrh. að vera að bera í bætifláka fyrir svona meðferð á stóru máli eins og þessu. Auðvitað áttu alþingismenn að fá í hendur þessa skýrslu og fyrir utan það að beiðnin um skýrsluna virðist hafa verið þannig fram sett og þannig um þessa hluti talað við háskólamenn að um leið og þeir segja frá sínum skýrslum ganga þeir um og segja að bæði hafi fjármagni og tíma verið svo naumt til þeirra skammtað að það sé ekkert að marka skýrslurnar. En þær eru þó notaðar í þeim tilgangi að halda því fram að niðurstaða þeirra styðji við það að við eigum að ganga í Evrópusambandið.
    Þetta eru vinnubrögð í svona stóru máli sem er ekki hægt að bjóða upp á og rúsínan í pylsuendanum á þessu er auðvitað þegar stjórnarliðar koma með slíkar ásakanir eins og þessar inn á fundi til hv. Alþingis.