Fréttaflutningur af slysförum

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:34:23 (1972)


[15:34]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég tek mjög eindregið undir þessa till. til þál. Maður hugsar nú margt þegar maður veltir því fyrir sér að þetta er í fjórða sinn sem þessi tillaga er flutt þannig að það virðist vera mjög erfitt að koma jafneinföldu máli í gegn. Þetta hefur vakið fyrst og fremst þær hugrenningar hjá mér hvert er hlutverk þingsins og hlutverk nefnda. Mörg mál, sem koma til þingsins til meðferðar þingmanna og umræðu og atkvæða, fara einu sinni í gegnum málstofu og eru rædd og fara síðan til nefndar. Mjög margar nefndir hafa komið sér upp nokkuð föstu kerfi á því að salta mál. Það getur vel verið að nefndirnar séu oft notaðar í þágu þeirra sem ráða peningamálunum vegna þess að margar tillögur eru taldar kannski erfiðar og dýrar í framkvæmd. Ég held að flestir sem skoða tillöguna, lesa hana og heyra með henni greinargerð, hljóti að vera sammála því að á þessu máli þarf að taka. Þetta eru mál sem eru mjög viðkvæm og vandmeðfarin.
    Í heimi fjölmiðlanna er gífurlega mikill hraði. Menn verða að vinna þar undir mikilli pressu og e.t.v. er þeim einhvern tíma vorkunn að eitthvað skjótist en þeim mun mikilvægara er að þeir hafi reglur til að fara eftir, þeir hafi viðmiðanir sem settar eru í samráði þeirra aðila sem best þekkja til, bæði vinnubragða annars vegar, þ.e. til fjölmiðlaheimsins, og hins vegar til mannlega þáttarins og þar eru margir aðrir sem koma að. Ég held að þetta sé mjög þýðingarmikið og ég efast ekki um að flutningsmaður þekki vafalaust mýmörg dæmi af þessum toga en ég býst við að flest okkar, sem hér störfum, þekki einhver dæmi. Sjálfur þekki ég dæmi sem er ótrúlega sorglegt og reyndar grimmilegt hvernig fjölmiðlar af vangá

geta farið með fólk.
    Við búum í litlu landi í fámenni. Hér eru oft og tíðum fáir bátar á sjó á afmörkuðu svæði. Hér eru oft og tíðum fáar flugvélar á flugi um afmörkuð svæði. Síðan kemur fjölmiðill og birtir oft og tíðum mjög ótímabæra frétt og eins og kom fram í máli áðan, stundum jafnvel ranga vegna þess að í flýtinum fékkst ekki tími til að sannreyna og ég veit allmörg dæmi þess að fólk hafi frétt af ástvinamissi með þessum hætti og þó að ekkert væri nafngreint var staðsetning og vissan um ferðir viðkomandi einstaklinga það þröngt staðsett að ekki var hægt að draga aðrar ályktanir. Þetta er ein hliðin á málinu og reyndar eru þær fjöldamargar aðrar.
    Ég vil fyrir mitt leyti leggja mitt lóð á vogarskálar í allshn. ef ég fæ einhverju ráðið um það að þetta mál verði tekið þar til umræðu og ég vona þá til afgreiðslu hingað út aftur.