Ólympískir hnefaleikar

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:48:02 (1974)


[15:48]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar fá að taka undir með hv. þm. Pétri Bjarnasyni sem gerði athugasemdir við störf nefnda fyrir nokkrum mínútum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það þýðir þegar þingheimur greiðir um það atkvæði að senda mál til síðari umr. eða 2. umr. Ég hef leyft mér að leggja þann skilning í það að þar með hafi þingið verið að greiða atkvæði um að mál kæmu aftur út úr nefnd og yrðu rædd aftur í þingsalnum. Þess vegna kemur það mér jafnspánskt fyrir sjónir og hv. þm. að það tíðkast mjög mikið að mál eru söltuð í nefndum. Ég hef litið á það sem svo að með því að gera slíkt séu níu þingmenn sem sitja í nefndum að taka atkvæðisréttinn af hinum 54 sem hér sitja. Ég hef þess vegna velt því fyrir mér og það hlýtur að koma að því að maður óski eftir úrskurði úr forsetastóli, þó að ég sé ekki að því núna, hvað þingmenn eru yfir höfuð að gera með því að greiða atkvæði um að vísa málinu til síðari eða 2. umr.
    Það má nefna mörg dæmi um slíkt. Ég held að þekktasta dæmi seinni tíma sé frv. hv. þm. Eggerts Haukdals sem hann hefur flutt núna, ég man ekki alveg hvað oft, en milli sjö og tíu sinnum og alltaf er það saltað í nefnd. Ég tel að þetta sé íhugunarefni.
    Fyrsti flm. þessa frv. hefur farið mjög vel yfir þetta mál og er ekki mjög miklu við það að bæta en ég vil þó aðeins fá að fjalla um það. Ég ítreka það að hér er aðeins um könnun að ræða. Það er óskað eftir því að Alþingi samþykki það að könnun fari fram á því hvort leyfa ætti ólympíska hnefaleika á Íslandi. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu í þeirri könnun að slíkt ætti að leyfa þá kæmi málið aftur fyrir þingið og þingið yrði að taka ákvörðun um það. Það er því engin hætta hér á ferðum. Það er eingöngu verið að óska eftir leyfi fyrir því að slík könnun fari fram.
    Í greinargerð er stutt lýsing á þessari íþrótt. Þar kemur fram að reglur eru aðrar en í þeim hnefaleikum sem fólk gjarnan sér fyrir sér þegar rætt er um ólympíska hnefaleika. Þetta eru ekki þessir stóru bardagar sem menn sjá fyrir sér, sjá fyrir sér alblóðuga menn sem liggja rotaðir á gólfi. Ég hygg að í ólympískum hnefaleikum sé það nánast óþekkt að maður rotist og nánast óþekkt að maður blóðgist. Þarna eru allt aðrar reglur viðhafðar, miklu stífari, keppendur eru verndaðir á allt annan hátt en í hinum hefðbundnu hnefaleikum fyrir utan það að þeir hafa höfuðhlífar og keppa aðeins í þrjár lotur sem eru mjög stuttar. Slysahætta er mjög lítil og ég fullyrði það að ef menn bera saman ólympíska hnefaleika við allmargar aðrar íþróttir, t.d. knattspyrnu sem ég hef aðeins komið nálægt, þá hygg ég að slysatíðnin þar sé miklu hærri. Væri fróðlegt að fá gerða könnun á því hvernig slysum er háttað innan þeirra íþrótta sem eru leyfðar hér á landi. Slík könnun fór fram í Svíþjóð þar sem upp komu raddir um að leggja þessa íþróttagrein niður og er skemmst frá því að segja að niðurstaða þeirrar könnunar varð mjög jákvæð sem leiddi

til þess að þessi íþrótt var ekki bönnuð þar.
    Það vita það allir að hér á landi stundar stór hópur manna hnefaleika. Þeir eru æfðir reglulega af ákveðnum hóp þannig að menn geta ekki horft fram hjá því að íþróttin er iðkuð og því er spurningin hvort ekki ætti að leyfa hana. Það er alveg fráleitt að þetta er eina íþróttagreinin sem er bönnuð með lögum á Íslandi. Hér geta menn komið og leyft sér að byrja hvaða bardagaíþróttir sem er sem eru margfalt hættulegri. Menn geta farið í blandabox sem er líka keppt í þar sem eru engir hanskar, þar sem eru engar hlífar, þar sem leyft er að sparka og kýla. Sumt af þessu er iðkað hér og það er ekki bannað. En síðan ætla menn að banna svona sárasaklausa íþróttagrein og þarna er verið að ræða um og hefur meira að segja yfir sér ólympíustimpilinn, það er ólympíuhugsjónin, þetta er ólympíuíþróttagrein og það segir nokkuð. Ég hygg að engin önnur þjóð en Íslendingar banni að stunda ólympíuíþrótt. Ég veit ekki um neina þjóð sem bannar slíkt. Við erum svo öfgafullir í þessu að það er meira að segja bannað að sýna frá hnefaleikum. Samkvæmt laganna bókstaf má ekki sýna hnefaleika í sjónvarpi. Þeir eru að vísu lítið sýndir hér, það er kannski örlítið brot, en þá kemur að því að á gervihnattaöld er t.d. Stöð 2 með fjölvarp. Þar inni er, ef ég man rétt, stöð sem kallast Eurosport og þar eru heilu þættirnir, klukkutíma þættir og jafnvel lengur með hnefaleikum. Þetta eru náttúrlega bein lögbrot. Menn geta ekki staðið á móti tímanum. Það er ekki hægt þannig að þó að það væri ekki nema til að breyta þessu til þess að við höfum ekki hálfa þjóðina sem lögbrjóta við það að horfa á Eurosport og box þar þá ætti að lappa upp á þann lagabókstaf.
    Ég hlýt að vitna líka til þeirra umsagna sem hafa komið og eru jákvæðar af hálfu íþróttahreyfingarinnar sem hefur mest vit á þessu. Ég skil umsagnir frá læknum og frá foreldrum sem horfa á þetta í öðru ljósi. Auðvitað ber læknum að vara við öllu slíku og ég skil það að þeirra umsagnir séu ekki beint fylgjandi slíkri íþróttagrein. En þær yrðu það líka ef við tækjum aðrar greinar sem við erum að stunda á Íslandi í dag. Ef þær væru í sömu stöðu og við mundum spyrja lækna að því hvort það ætti að leyfa þær eða ekki, þá mundu þeir að sjálfsögðu benda á mikla slysatíði. Menn geta bent á fótbrot, handleggsbrot, nefbrot og hvað þetta allt heitir, tábrot bara í knattspyrnunni einni saman. Það er því mjög skiljanlegt. Og auðvitað er líka skiljanleg afstaða foreldrafélaga sem sjá þetta sem slagsmálaíþrótt en ekki sem íþrótt, íþrótt sem hefur tækni þar sem menn þurfa að kunna að verjast, menn þurfa að kunna að sækja og þar fram eftir götum. Ég skil þær umsagnir. En þeir aðilar sem þekkja til íþrótta og hvernig íþróttir fara fram og á hvern hátt á að stunda þær mæla með þessu. Það er öll íþróttahreyfingin, ÍSÍ og UMFÍ og hverjir það eru sem hafa sent inn umsagnir.
    Ég verð því að segja það að sérstaklega í ljósi þess að hér geta menn stundað nánast hvaða einustu íþrótt sem er og menn sáu það í sjónvarpinu í fyrra. Þá var verið að sýna hér frá mikilli og ljótri slagsmálaíþrótt í sjónvarpinu sem stunduð er hérlendis. Hún er leyfð. En þessi íþrótt sem er undir ströngum reglum, með hlífðarbúnað, í stuttan tíma, með reglur sem vernda keppendurna, með ólympíuhugsjónina, er bönnuð. En menn mega ekki gleyma því að hún var bönnuð á allt öðrum forsendum á sínum tíma. Hún var bönnuð sem hefðbundnir hnefaleikar sem þá voru stundaðir hér en ekki ólympískir.