Hjúskaparlög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 16:06:06 (1976)


[16:06]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Meðflutningsmenn mínir að frv. eru Salome Þorkelsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Kristján Guðmundsson, María Ingvadóttir og Guðmundur H. Garðarsson: 1. gr. frv. hljóðar svo:
    ,,Við 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður: Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa á meðan hjónabandi stóð, skulu þó ekki falla utan skipta.``
    Það er svo, virðulegi forseti, að samsvarandi mál var lagt fram á 112., 113., 115., 116. og 117. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Að vísu var þá öðruvísi farið með þetta frv. þar sem gert var ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir skyldu halda til haga hjúskaparstöðu þess sem aðild átti að lífeyrissjóðnum og það var lagt á þeirra herðar að sjá um skipti við slit á fjárfélagi hjóna.
    Á þeim þingum sem ég tiltók áðan gerðist það þegar leitað var umsagna lífeyrissjóða í landinu að greinargerðir voru svo sérkennilegar að undrun sætti. M.a. höfðu menn allt á hornum sér og töldu að þetta gæti ekki náð fram að ganga, báru fyrir sig að hér væri um svo margþættan rétt að ræða, t.d. hvað varðaði Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, varðandi flýtirétt, hina svokölluðu ,,aldur plús starfsaldur``-reglu. Menn báru fyrir sig að það væri ófært að sjá um þessar greiðslur eða samþykkja slík lög vegna þess að aðilar í lífeyrissjóðskerfinu áynnu sér örorkubætur og svo mætti lengi telja og töldu þar af leiðandi erfitt að það mál, sem var flutt á þeim þingum sem ég tiltók áðan, gæti náð fram að ganga. Athugasemdir um frv. sem þá voru lögð fram voru á þá leið að þessir ágætu aðilar lífeyrissjóðanna töldu að ef fara ætti grannt ofan í málin þá væri þetta óvinnandi vegur jafnvel þó að skýrt væri tekið fram að eingöngu væri átt við hinn eiginlega lífeyri, þ.e. án nokkurra flýtireglna og án þess að nokkuð væri litið til þeirra átta sem ég gat um varðandi örorku og annað þess háttar.
    Ég verð að segja það sjálfur sem stjórnarmaður lífeyrissjóðs að þessar umsagnir annarra lífeyrissjóða en Lífeyrissjóðs sjómanna komu mér mjög sérkennilega fyrir sjónir þegar það er haft í huga að öll skráning áunninna lífeyrisréttinda og annarra réttinda í lífeyrissjóðnum er nú tölvuvædd og allt hefur það verið í rétta átt hvað tölvuna áhrærir hér á landi þó að margir hafi bundið meiri vonir við þær en raun hefur orðið á um. Engu að síður er það þó svo að öll lífeyrisréttindi eru miklu betur skráð en áður var og miklu aðgengilegri þannig að þetta átti ekki að vera vandamál gagnvart lífeyrissjóðunum.
    Með þetta allt í huga, virðulegi forseti, er þetta frv. lagt fram sem nú snýr að hinum eiginlegu hjúskaparlögum og verð ég að viðurkenna að það hefði kannski verið eðlilegt að taka þessi ákvæði inn í hjúskaparlögin þá þau voru samin svo nýlega á Alþingi eins og ég gat um áðan eða á árinu 1993. Í greinargerð með frv. segir svo m.a.:

    ,,Frumvarp til laga um lífeyrisréttindi hjóna var lagt fram á 112., 113., 115., 116. og 117. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það var sama efnis og þetta frumvarp, að ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa í hjúskap, skuli teljast hjúskapareign þeirra og koma því jafnt til skipta verði slit á fjárfélagi hjónanna.
    Ný hjúskaparlög tóku gildi 1. júlí 1993 og er því lagt til að mælt verði fyrir um þetta atriði þar. Samkvæmt hjúskaparlögum er eign hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars, sbr. 54. gr., og er þar m.a. átt við persónuleg réttindi að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við þær sérreglur sem um þau réttindi gilda, sbr. 57. gr. laganna. Um fjárskipti þessara réttinda eru ákvæði í 102. gr. en þar eru taldar upp þær hjúskapareignir sem geta fallið utan skipta að kröfu maka. Í frumvarpi þessu er lagt til að ellilífeyrisréttindi verði ekki í þessum hópi, þau séu hjúskapareign sem geti ekki fallið utan skipta.
    Eins og nú háttar til eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald, enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.
    Eins og fram hefur komið er frumvarp um þetta efni ekki lagt fram í fyrsta sinn en oft hafa umræður og umsagnir um málið snúist meira um aðra þætti, eins og greiðslur frá lífeyrissjóðum, en sjálfan ellilífeyrisréttinn sem kannski vonlegt er. Kemur þar einkum til skráning á greiðslum og áunnum réttindum í viðkomandi lífeyrissjóði sem í dag tengjast einvörðungu þeirri persónu sem iðgjöld til viðkomandi lífeyrissjóðs eru greidd fyrir, svo og sá viðbótarréttur sem ávinnst við inngreiðslu, þ.e. örorkulífeyrir og barnalífeyrir. Þá er réttur til töku ellilífeyris mismunandi hjá lífeyrissjóðum. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er t.d. um að ræða svokallaða 95 ára reglu (þ.e. samanlagður aldur og starfsaldur), tengingu lífeyris við launaflokk viðkomandi, svo og niðurfellingu iðgjaldagreiðslna eftir 32 ár. Í Lífeyrissjóði sjómanna öðlast menn rétt til ellilífeyris 60 ára hafi þeir stundað sjómennsku í 25 ár. Þá veitir 20--25 ára starf á sjó rétt til ellilífeyristöku frá 61 árs aldri og frá 62 ára aldri eftir 15--20 ára starf á sjó.
    Hér eru nefnd fáein dæmi um það flókna kerfi sem lífeyrissjóðir hafa komið sér upp, en fjölmörg dæmi væri einnig hægt að nefna þar sem löggjafinn hefur gripið inn í eða ákvarðanir eru teknar beint af stjórnum sjóðanna samkvæmt reglugerð.
    Flutningsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem stjórnir hinna fjölmörgu lífeyrissjóða stæðu frammi fyrir væri ætlunin með frumvarpi þessu að rétturinn yrði allur sá sami hvað hjón varðar, þ.e. áunninn flýtiréttur til töku lífeyris, tímabundnar örorkubætur eða bætur fyrir langtímaörorku. Með frumvarpi þessu er hins vegar eingöngu gert ráð fyrir að við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skuli áunninn ellilífeyrisréttur greiddur til fyrrverandi maka miðað við inngreiðslur í viðkomandi sjóð á meðan hjúskapur stóð yfir og þá miðast við almennan lífeyrisaldur viðkomandi lífeyrissjóðs án tillits til flýtireglna. Að sjálfsögðu yrði viðkomandi lífeyrissjóður að taka upp skráningu lífeyrisréttinda með tilliti til þess sem að framan greinir. Ætla má að slík skráning yrði starfsmönnum lífeyrissjóða ekki erfið þegar litið er til þeirrar tölvuvæðingar og mikils samstarfs og upplýsingaflæðis á milli lífeyrissjóða í dag.
    Með ólíkindum er hve mál þetta hefur átt lítinn hljómgrunn hjá löggjafanum og jafnvel samtökum kvenna þrátt fyrir annars jákvæða afstöðu til þeirra mála er lúta að jafnrétti kynjanna.``
    Það kann að vera, virðulegi forseti, að einhverjum komi spánskt fyrir sjónir síðasta setningin í þessari greinargerð. En mér þykir rétt að geta þess hér að í viðræðum mínum við ágætan kvennalista um þetta mál, þar sem ég vildi þó leggja mitt fram um að þær konur væru jafnframt á þessu frv., kom fram að þær hefðu ekki hug á því að vera meðflutningsmenn að þessu frv. hverju svo sem það sætir. Hins vegar hef ég fengið þá skýringu frá þeim að þær telji að annaðhvort skuli rétturinn vera allur eða enginn. En ég tel, virðulegi forseti, að hér sé stigið ákveðið skref í átt til, við gætum kallað það mannréttindi og til jafnréttis kynjanna. Því kemur mér það ákaflega spánskt fyrir sjónir að kvennalistakonur vilja fara þá leið og stíga það stóra skref að jafnframt þessu skuli vera stefnt að því og helst hefði það átt að vera í þessu frv. að þeirra mati að húsmóðir sem væri í störfum heima hjá sér, ekki á hinum almenna vinnumarkaði, mundi ávinna sér lífeyrisréttindi. Það er vissulega göfugt markmið og skref sem einhvern tíma verður stigið. En eins og háttar til í þjóðfélaginu í dag má það ljóst vera að það er líklega nokkuð langt í það að svo geti farið. Þess vegna, virðulegi forseti, og með hliðsjón af því að fjölmargir aðilar og konur nokkrar sem hafa staðið frammi fyrir þessum vanda að vinna með karli sínum að heimilinu, að uppvexti barna sinna og síðan að löngu dagsverki staðið einar eftir, karl farinn úr hreiðrinu, börnin löngu flogin og konan eftir með ellilífeyrinn einan en karl farinn í burtu með lífeyrissjóðinn. Það kemur kannski einhverjum spánskt fyrir

sjónir að sjá og heyra að ég skuli mæla hér fyrir auknum réttindum kvenna en svo sjálfsagður og eðlilegur sem þessi réttur er þá held ég að það skipti ekki máli hvort það er karl eða kona sem flytur þetta mál. Hitt er svo annað mál að ég er stoltur af því að endurflytja þetta frv. sem ágætur vinur minn og fyrrv. alþm. og nú þingmaður sitjandi hér í dag, Guðmundur H. Garðarsson, hefur margsinnis flutt á þingi eins og hér hefur komið fram í greinargerðinni. Og ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en með þessari breytingu sem við höfum gert nú á frv., þ.e. beina því inn í lög hjúskapar, hjúskaparlaga, nr. 31/1993, þá vona ég og trúi og treysti að þetta mál nái nú fram að ganga á þessu þingi svo að konur við slíkar aðstæður megi njóta þess réttar og þeirrar sanngirni sem er eins og kemur fram í greinargerðinni að það eru bæði konan og maðurinn í hjónabandi sem hafa lagt sig fram um það að eignast þann rétt sem lífeyrisrétturinn gefur og er jafnvel sá eini sameiginlegi sparnaður sem kannski til er eftir áratuga hjúskap.
    Um leið og ég vænti þess að þetta mál fari til 2. umr., þá verði því vísað til allshn.