Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:30:16 (2043)


[14:30]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að andsvörum er lokið en ég kýs að nota ræðutíma minn til að endurtaka það enn einu sinni sem ég sagði áðan og hv. 9. þm. Reykn., Anna Ólafsdóttir Björnsson, kaus að fara vitlaust með. Það hefur enginn ágreiningur verið staðfestur í nefndinni. Enginn. Á hinn bóginn, eins og ég sagði, eru uppi ýmis álitamál og þegar maður talar um ágreining þá auðvitað þýðir það að sjónarmið hafa ekki sæst eða menn hafa ekki komist að niðurstöðu. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Málin eru í athugun, það er verið að fara yfir það hvernig þessum málum verður háttað hjá öðrum löndum, m.a. Norðmönnum og meðan svo stendur er auðvitað jafnrangt að tala um að ágreiningur sé uppi eins og það er rangt að segja að við vitum fyrir fram að það verði fullkomið samkomulag í nefndinni. Ég sé að hv. þm. Steingrímur Sigfússon hlær mikinn, enda hygg ég að margir menn hafi nú dáðst að því og þótt athyglisvert hversu gott samkomulag var með honum og hæstv. utanrrh. í síðustu ríkisstjórn um það hvernig bæri að standa að málefni landbúnaðarins í alþjóðlegum samningum.