Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:06:09 (2073)


[16:06]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að samningur um Alþjóðaviðskiptastofnun er hér til umfjöllunar og ég vil lýsa alveg sérstakri ánægju minni yfir því að við skulum um svo langan tíma hafa fylgt þeirri stefnu að reyna að ýta undir þá þróun að viðskipti á alþjóðavettvangi verði sem frjálsust og höfum gert minna af því sem betur fer að múra okkur inn í einhver bandalög sem eru að verða til og styrkja sig í sessi til þess að starfa á kostnað annarra þjóða í heiminum. Ég held að það sé út af fyrir sig ekki hægt að bannfæra það á nokkurn hátt þó að lönd geri með sér viðskiptasamninga af ýmsu tagi en það er alla vega engin spurning að ríkustu þjóðirnar í heiminum eru að reyna að notfæra sér aðstöðu sína til að halda stöðu sinni og halda möguleikum fátæku þjóðanna frá til þess að ná árangri. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst svolítið skondin sú umræða sem hefur farið fram í dag um það hvernig sumar af þeim þjóðum sem hafa verið að ná árangri með miklum hagvexti hafa náð honum og við þurfum mikið að læra af þeim. Ég tel reyndar að við getum eitthvað lært af þeim en mér heyrist að menn séu ekki tilbúnir til þess miðað við það sem hér hefur verið sagt að læra það sem fyrst verður auðvitað að læra af því sem þarna er á ferðinni og það er að ekki á að vinna á kostnað umhverfisins og það á ekki að vinna á kostnað fólksins sem á hlut að máli. Það hafa satt að segja skelfilegar sögur verið að koma og frásagnir af því hvernig þessum hagvexti er náð í þessum löndum fyrst og fremst á kostnað fólksins sem vinnur og líka á kostnað umhverfisins. Það er ekki bara það að skattar séu lágir og fólkið vilji spara. Það séu lítil ríkisafskipti ef menn rýna ekki í þau orð, þýðir auðvitað að menn hafi frelsi til hlutanna. En lítil ríkisafskipti á þessum svæðum þýða líka að það er ekkert verið að skipta sér af því hvernig menn ganga um umhverfið, hvernig menn koma fram við starfsfólk fyrirtækja.
    Það er reiknað með í þessum samningi að Alþjóðaviðskiptastofnunin komist á laggirnar 1. jan. Það er vonum seinna að við tökum þennan samning til umræðu í hv. Alþingi. Það eru satt að segja mikil vonbrigði að hafa hlýtt á þessa umræðu í dag og komist að þeirri niðurstöðu, sem er óhjákvæmilegt að komast að, að hæstv. ríkisstjórn og hennar starf við að koma með þetta til umræðu í þinginu hefur nánast ekkert gengið frá því í vetur leið. Það liggur fyrir að pólitísk samstaða hefur ekki náðst um hvernig eigi að beita tollígildunum. Ég vil gera tilraun til að spyrja hæstv. utanrrh. því að greinilega þýðir ekkert að spyrja hæstv. landbrh. um þetta mál: Hvar eru þessir samningar á vegi staddir? Getur hæstv. utanrrh. gert okkur grein fyrir því með einföldum orðum með hvaða hætti verður staðið að því að nota þessi tollígildi? Verða breytingar á verði innfluttrar vöru eða ekki? Mér finnst að það ætti að vera hægt að svara þessu með einföldum hætti.
    Einnig langar mig að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann geti ekki komið fram með a.m.k. sína skoðun á því hvernig lágmarksmarkaðsaðgangurinn á að koma fram í sölu á vörum hér á landi. Ég verð að segja það alveg eins og er að þessi skrýtni samningur um lágmarksmarkaðsaðgang, um 3% af vörum sem eigi að flytja inn á miklu lægri tollum, var náttúrlega fyrir fram vitað að yrði mjög erfitt að framkvæma, en einhvern veginn verða menn að bregðast við og nú hafa menn haft töluvert langan tíma til að liggja yfir því og varla hafa menn verið að bíða eftir því að Norðmenn fyndu upp einhverjar aðferðir við það þó að hér hafi komið fram hjá hæstv. landbrh. að það hafi verið beðið eftir því að Norðmenn væru búnir svo að það væri hægt að sjá hvernig þeir færu að í þessu.
    Menn hljóta að hafa verið að reyna að finna einhverjar leiðir sjálfir og ég tel að það sé mikil niðurlæging bæði fyrir hv. Alþingi og ekki síður fólkið í landinu að við skulum vera að ræða um þennan stóra og mikla samning í dag án þess að það liggi nokkuð fyrir með hvaða hætti eigi að taka á þessu máli.
    Mig langar líka að nefna það sem kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv. en þar kom mjög skýrt fram að hann telur að hv. utanrmn. geti ekki skilað af sér öðruvísi en þessi mál liggi fyrir frá hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnin mun auðvitað ekki skila af sér fyrr en þessi ágæta nefnd sem hún hefur í málinu skilar af sér og hæstv. landbrh. talar nánast eins og það standi bara á nefndinni að klára málið. Þarna eru menn að skjóta sér á bak við embættismenn í þeim feluleik að reyna að fela vandræðagang hæstv. ríkisstjórnar í málinu. Það hefur ekki enn náðst samkomulag um það hvernig eigi að standa að þessum hlutum og það er miklu betra fyrir menn að viðurkenna það heldur en að vera að reyna að breiða yfir það hér með því að skjóta sér á bak við embættismenn sem hafa lítið til saka unnið annað en það að hafa tekið að sér að skipa nefnd á vegum hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég tel að umræðan hafi sem sagt sýnt okkur það að hér hefur ríkisstjórnin, eins og reyndar oft áður hjá þessum hæstv. ráðherrum sem hér hafa starfað að undanförnu í hæstv. ríkisstjórn, brugðist í undirbúningi mála. Við höfum séð það oftar en einu sinni að hér hafa verið til umræðu mál sem hafa alls ekki verið tilbúin til umræðunnar. Það hefur vantað svörin. Og það er ekki bara vegna þess að hæstv. landbrh. vilji ekki svara að hann svarar ekki hér. Það er líka vegna þess að hann hefur ekki svörin. En ég tel að menn væru þá a.m.k. menn að meiri ef þeir segðu frá því hver ágreiningurinn er og hvaða möguleikar eru á því að leysa hann. Er það kannski þannig að það sé meiningin að stilla Alþingi Íslendinga upp frammi fyrir þeim kosti einum að samþykkja þennan samning án þess að vita hvernig framhaldið á síðan að verða? Á t.d. landbúnaðurinn að bíða með þau spurningarmerki fram á næsta ár með hvaða hætti tollígildunum verði beitt? Ég spyr.