Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:27:29 (2076)


[16:27]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þrír í andsvari, þýðir það ekki venjulega tvær og ein? En, virðulegur forseti, ég hlýt að hlýða þessum úrskurði.
    Það verður að segja hæstv. utanrrh. til hróss að hann reynir þó í það minnsta að svara spurningum. Hann staðfestir það að starf nefndarinnar er ekki komið lengra á veg en svo að undirhópar eru ekki búnir að skila. Ég skil það þannig að hin raunverulega nefnd fimm ráðuneyta geti þar af leiðandi ekki hafið störf sín fyrr en það liggur fyrir og ríkisstjórnin ekki heldur sína pólitísku stefnumótun. Hvert einasta atriði sem ég færði fram í mínu máli er ég ræddi við hæstv. landbrh. áður er því staðfest.
    Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að grunnvinna sé ekki búin og þetta eigi allt saman að klárast fyrir áramót. Ég botna hvorki upp né niður í svona vinnubrögðum.
    Virðulegur forseti, aðeins að lokum varðandi tilhugalífið og hæstv. utanrrh. nefndi tilhleypingar í því sambandi. Það er mjög eðlilegt á þessum tíma. (Forseti hringir.) Þetta er einmitt tími tilhleypinga og við úr sveitinni í það minnsta vitum að ávöxtur tilhleypinganna sýnir sig venjulega einhvern tímann upp úr miðjum apríl ef farið er af stað núna.