Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:33:13 (2080)


[16:33]

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. sem talaði áðan er orðhagur maður en ekki að sama skapi grandvar um meðferð orða. Að tala um þessar GATT-tillögur sem dæmi um brjálaða frjálshyggju ríkisstjórnar þegar um er að ræða að hér er verið að leita allra leiða til þess að stilla upp í topp verndartolla eða tollígildun og forsenda málsins er að tryggja að lágmarki að innlendir framleiðendur þoli í engu skerðingu á samkeppnisstöðu, séu í jafnstöðu, er náttúrlega ekki nógu gott, hv. þm. Að sjálfsögðu er hér ekki um neina frjálshyggju að ræða, þaðan af síður brjálaða. Tilgangurinn er hins vegar sá að stuðla smám saman á sex árum að örlítilli tilslökun sem gæti í besta falli leitt til þess að það yrðu einhver örvandi áhrif til vöruþróunar og verðsamkeppni, sérstaklega í vinnslugreinum landbúnaðarins. En af því að hv. þm. vék að kjörum bænda þá er auðvitað aðalatriði þess máls þetta: Um leið og við fetum fyrstu skrefin frá innflutningsbanni, einokun og verndarstefnu, þá þurfum við auðvitað að horfast í augu við það að ekki er hægt að bjóða íslenskum bændum upp á það að keppa við innfluttar afurðir með hendur bundnar aftur fyrir bak í kvótakerfi. Þannig að mál málanna í landbúnaði er að finna skynsamlegar leiðir til þess að afnema þetta kvótakerfi.