Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:03:12 (2113)


[13:03]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem ég gerði í minni ræðu var að vitna orðrétt í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar. Það sem vakti athygli mína og kom fram í hans andsvari var að nú væri það orðið flókið vandamál að jafna lífskjörin í landinu. Ég get tekið undir með hv. þm. Svavari Gestssyni að það virðist vera mjög flókið fyrir mörgum fleirum en honum en það kemur mér mjög á óvart að hv. þm. skuli ekki vilja taka undir jafnhógværa till. til þál. og þá sem hér er til umræðu um það að gera nákvæma úttekt á vöruverði lífsnauðsynja og þeim mikla verðmun er ríkir á milli þéttbýlis og dreifbýlis í þeim efnum. Það horfir til jöfnunar lífskjara.
    Sú nefnd sem nú er að störfum er sérstaklega að skoða stöðu dreifbýlisverslunarinnar en ekki að skoða stöðu verslunarinnar í ljósi vöruverðsins. Það er á þann þátt málsins og þá hlið málsins sem við hv. flm. erum að leggja áherslu með þessari tillögu. Það er háttur þeirra manna sem vilja gera lítið úr málum að hætta að tala um málið og fara að tala um eitthvað allt annað eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði í sínu andsvari.