Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:06:55 (2115)


[13:06]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég taldi mig hafa talað nokkuð skýrt áðan og það sem ég sagði var að vissulega væri hátt vöruverð í dreifbýli til sem vandamál en það yrði þá að skilgreina það vandamál og skilgreina þau svæði sem eiga við það að stríða og gagnvart því yrðu aðgerðirnar að miðast. En að stilla þessu svona upp, vöruverð í dreifbýli gegn vöruverði á höfuðborgarsvæðinu þjónar engum tilgangi. Það er eingöngu til að drepa málinu á dreif. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt áður, það þarf ekki að flytja tillögu um það að kanna vöruverðið, það er alltaf verið að því, hv. þm. Ég man ekki betur en að við fáum þetta í hólfið okkar alltaf annað slagið og gott ef það er ekki Samkeppnisstofnun sem er farin að senda okkur þetta núna. Hv. þm. ætti bara að lesa póstinn sinn, þá sér hann þetta þar.
    Ég innti hv. þm. eftir því hvað hann sæi til úrlausnar. Þingmaðurinn nefndi eitt atriði, flutningskostnaðinn, virðisaukaskatt á flutningskostnað. Ef málið er svo einfalt að ekki þurfi annað þá skulum við drífa í því. En ég er bara því miður hræddur um að málið sé miklu flóknara. Ég er tilbúinn að taka þátt í þeirri vinnu sem einu atriði í almennum byggðaaðgerðum að skoða verslun á ákveðnum, afmörkuðum svæðum, en því betur er það svo að stór hluti landsbyggðarinnar, mikill meiri hluti ef við tökum íbúafjöldann, hefur af eigin rammleik leyst þessi mál. Það gerir hins vegar í mínum huga ekkert lítið úr því að gagnvart dreifbýlasta hluta landsins þurfum við eflaust að grípa til ákveðinna aðgerða en þessi tillaga er því miður ekkert tillegg í þá umræðu.