Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:24:35 (2120)


[13:24]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Þetta hefur um margt verið athyglisverð umræða um dreifbýlisverslunina og stöðu hennar og ég vildi bæta örfáum orðum við það sem ég sagði fyrr í þessari umræðu.
    Það er alveg rétt sem hefur komið fram að ýmislegt er hægt að gera til að bæta stöðu dreifbýlisverslunarinnar. Ég hef látið í ljós þá skoðun að verslunin geti gert mjög mikið sjálf í þessu efni og vissulega er í gangi mikil vinna til þess að svara kröfum um lægra vöruverð en það er alveg rétt sem fram hefur komið að ýmsar verslanir á litlum markaðssvæðum í litlum byggðarlögum eiga mjög erfitt. Kröfur eru gerðar til þeirra að þær hafi úrval í matvöru og daglegum vörum og þær vörur eru yfirleitt með lágri álagningu en verslunin í ýmsum sérvörum með hærri álagningu fer til annarra staða, stærri markaðssvæða þar sem stærri búðir eru sem bjóða meira vöruval. Það er verkefni til að vinna að hvort hægt sé að létta undir með þeim verslunum sem svona stendur á um með aðgerðum, t.d. með styrk til þess að koma húsnæði yfir verslanirnar og lækka þar með þeirra kostnað eða aðgang að lánum með einhverjum ívilnunum frá opinberri hálfu. Auðvitað er hlutverk þeirrar nefndar sem vinnur á vegum viðskrn. eða á að vinna a.m.k. að skila tillögum um slíkar aðgerðir. En það er alveg rétt sem hefur komið fram að þau ráðuneyti sem um þessi mál eiga að fjalla, viðskrn., jafnvel félmrn. eins og hv. síðasti ræðumaður minntist á, ( Gripið fram í: Forsrn.) hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut í þessu máli. Dreifbýlisverslun er t.d., svo að maður nefni forsrn. eins og var kallað fram í hér, dreifbýlisverslun er ekki á verksviði Byggðastofnunar. Það er ekki á hennar verksviði að líta á vanda lítilla verslana í dreifbýli.

    Það er alveg rétt sem hefur komið fram í umræðunni að það vantar ekki mikið af upplýsingum í þessu efni. Staðan liggur auðvitað fyrir og ég hef langmesta samúð með litlu verslunum í dreifbýli sem eru í litlum byggðarlögum með markað kannski ofan í 200 manns. Það er útilokað að reka þær verslanir af neinu viti án þess að nota hærri álagningu en í stærri verslununum. Eina ráðið er að reyna að lækka kostnað þeirra á einhvern hátt. Það eru nærtækustu aðgerðirnar. Ég hef enga trú á því að farið verði í einhverjar aðgerðir til þess að jafna vöruverð almennt í landinu. Við lifum hreinlega ekki á þeim tímum, það er ekki uppi á borðinu. Við þurfum að gera litlu verslununum kleift að lifa og reka sig. Ég hef fjöldamörg dæmi um slíkar verslanir, bæði frá Austurlandi og annars staðar af landinu. Ég veit að allir hv. þingmenn sem hér eru þekkja slík dæmi þannig að óþarft er að rekja það en í þessar aðgerðir væri nærtækt að fara. Því miður hafa ráðuneyti Alþfl. ekkert gert í málinu og er því ekki furða þó að þeir hv. þingmenn flokksins vilji, af því að það er dálítið liðið á kjörtímabilið, flytja tillögu um þessi mál. Það er mjög nærtækt að fara í aðgerðir í þessu efni og ég skal ekkert segja um það hvort tillagan er gagnslaus eða ekki. Ég vona að gagn sé að henni og ég tek undir efni hennar að öðru leyti en því að óþarfi er að eyða löngum tíma í kannanir á ástandinu. Aðalatriðið er að bæta úr ástandinu og fara beint í það verkefni.