Lyfjalög

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:16:41 (2227)


[16:16]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Við þessa umræðu hafa talað þeir hv. þm. sem voru með fyrirvara við það frv. sem hér er til umfjöllunar. Mér þykir því rétt að gera grein fyrir því hvaða ástæður liggja að baki að ég sem einn af nefndarmönnum í hv. heilbr.- og trn. skrifaði undir þetta frv. án fyrirvara. Mér finnst mikilvægt að því sé líka haldið til haga hér við þessa umræðu. Fyrir því eru fjórar meginástæður.
    1. Ég held að allir nefndarmenn hafi verið sammála um að nauðsynlegt væri að tryggja sambúð bænda og dýralækna þannig að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda geti búið við hana og þeir sem þjónustuna eiga að veita treysti sér til að veita hana. Svo var komið eins og gildandi lög eru nú að við þessar aðstæður treysti hvorugur aðilinn sér lengur við að búa, þ.e. hvorki bændur né dýralæknar.
    2. Önnur ástæðan er sú að með þeim breytingum sem boðaðar eru og gerðar eru með þessu frv. eins og það liggur hér fyrir er gerð grundvallarbreyting á gildandi lyfjalögum. Sú grundvallarbreyting snýr að dýralæknunum þannig að það er ekki gert ráð fyrir að þar eigi nein samkeppni að ríkja eins og menn vilja halda fram að sé í gildandi lyfjalögum og það sé andi laganna. Það er hins vegar tómur misskilningur og ég ætla ekki við þessa umræðu að færa aftur rök fyrir því. Það gerði ég hér við 1. umr. Það er ekkert sem heitir að hægt sé að koma við samkeppni á þessum markaði. En þessi grundvallarbreyting er gerð þannig að það á ekki að ríkja samkeppni um lyfsölu dýralækna og það verða menn að hafa í huga þegar menn eru hræddir um að það sé verið að brjóta einhvern anda í þeim lögum sem til staðar eru. Það er verið að breyta þessu ákvæði að þessi samkeppni á ekki að vera til staðar um sölu dýralyfja.
    3. Af þessum sökum eiga ekki lengur við þær viðvaranir sem Samkeppnisstofnun var með er sneru að því að þetta gengi hugsanlega gegn anda laganna vegna þess að það er ákveðið að verð dýralyfja skuli fara eftir ákvörðun lyfjaverðsnefndar. Þetta er enn ein undirstrikunin á því að það á ekki að vera nein samkeppni um sölu dýralyfja.
    Í öðru lagi kemur það líka skýrt fram í áliti Samkeppnisstofnunar að þarna sé um svo sérstakan markað að ræða að byggðasjónarmið eigi og verki mjög sterkt á samkeppnissjónarmiðið væri það til staðar þannig að það eru auðvitað rök fyrir þessu líka.
    4. Þá tel ég að breytingin sem gerð er á lyfjalögunum með þessu frv. og snýr að dýralæknum og lyfsölu þeirra eigi ekki að skapa fordæmi varðandi þá einstöku heilsugæslulækna sem nú hafa með hendi

lyfsölu í landinu úti í hinum dreifðu byggðum vegna þess að í gildandi lögum eru úrræði til sem tryggja að hægt sé að halda áfram dreifingu á lyfjum á þeim stöðum eftir 1. nóv. 1995 þegar heilsugæslulæknarnir missa lyfsöluna úr sínum höndum. Þá er gert ráð fyrir að stjórnir heilsugæslustöðvanna geti séð um þessa sölu áfram þannig að þarna er ekki verið að skapa neitt fordæmi og það er ekki með neinum hætti verið að útbúa ástand sem aftur geti komið upp er snýr að þessum heilsugæslulæknum.
    Þetta eru þessi fjögur atriði sem mér þykir rétt að halda hér til haga í þessari umræðu. Þegar flestir hv. þm. þeirrar nefndar sem flytur þetta frv. eru að gera grein fyrir sínum fyrirvörum, þá finnst mér líka rétt að þeir þingmenn sem skrifa undir frv. án fyrirvara geri grein fyrir því hvers vegna þeir skrifa undir frv. án nokkurs fyrirvara. Telji hins vegar Samkeppnisstofnun það vera hlutverk sitt þegar þetta hlutverk hefur orðið að lögum sem ég vonast til að það verði að þurfa að kanna þennan þátt sérstaklega af því að um svo mikla hagsmunaárekstra sé að ræða, þá vil ég benda þeirri ágætu stofnun á, sem ég tel að hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, að snúa sér nú að örlítið stærri málum áður en þessi smámál verði tekin til skoðunar, en það eru þau atriði er snúa að þeim hagsmunaárekstrum sem augljóslega eru til staðar í dag milli lækna og lyfsala bara hér í höfuðborginni og skoða hverjir eru eigendur þess húsnæðis sem stór hluti lækna er nú með til afnota og eru í nábýli við þær lyfsölur sem viðkomandi lyfsalar eiga.