Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 21:17:54 (2253)


[21:17]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru kannski tvö atriði sem ég vildi nefna, sem komu fram í ræðu hv. þm., en hann er nú reyndar sérfræðingur í því að tala um það sem kemur ekki málinu við. Annað atriðið er þetta. Hv. þm. heldur því fram að það hafi engan tilgang að breyta opinberum fyrirtækjum í hlutafélög nema þá að ætlunin sé að selja þessi fyrirtæki. Þetta er rangt. Ég get nefnt dæmi t.d. um bankana sem eru í samkeppni við aðra banka, að það hefur þýðingu að vera í hlutafélagsformi því hlutaféð er skráð á höfuðstól með þeim hætti að það hefur skattalega þýðingu. Í öðru lagi þá hefði þetta komið sér ákaflega vel við sameiningu Landsbankans og Samvinnubankans því þá hefði ekki þurft að losa um fé í Landsbankanum til að kaupa Samvinnubankann, það hefði verið hægt að sameina að nokkru leyti bankana og skilja eftir fjármuni í bankanum.
    Í öðru lagi hélt hv. þm. því fram að sala á Geir goða væri einhver einkavæðing, öðru nær. Það hefur komið mjög skýrlega fram og það veit ég að hv. sessunautur hans getur staðfest, en hann er í fjárln., að þetta mál hefur verið skýrt mjög rækilega fyrir fjárln. Þetta er innheimtumál. Ríkið fékk hverja einustu krónu sem ríkið átti hjá þessum aðilum sem var verið að ná í peninga hjá, sem skulduðu opinber gjöld. Það var ekkert markmið að taka skip eða kvóta af þessum eigendum, þetta voru fyrri eigendur og núverandi eigendur skipsins. Það hefði verið gagnrýnisvert ef ríkið hefði afhent eða selt öðrum jafnvel utan byggðarlagsins kvótann og skipið. Þetta var innheimtumál og það var staðið að því eins og hverju öðru innheimtumáli, þótt fréttamaður Ríkisútvarpsins sæi ástæðu til þess að taka þetta mál upp í pólitíska horninu og reyna að gera það ótrúverðugt. Leiðrétting hefur komist til skila og m.a. til nefndarinnar og ég veit að hv. sessunautur hv. þm. getur sagt honum hvernig sú leiðrétting var.