Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 21:44:40 (2258)


[21:44]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég skil alveg hæstv. fjmrh. þó hann vilji eyða nokkrum tíma þingsins á þessum tíma í að ræða eitt einkavæðingarfrv. það er nefnilega ekkert annað við tímann að gera vegna þess að þingið er starfslaust. Það er starfslaust vegna þess að hæstv. ríkisstjórn kemur sér ekki saman um neitt. Þá er jafngott á meðan ekki koma fram nein fylgifrv. við tekjuhlið fjárlaga og tímanum ágætlega varið í að ræða eitt minni háttar einkavæðingarfrv. sem er lagt fram til að bæta við afrekaskrá hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. í þeim efnum sem er nú ekki beysinn það sem af er og heldur skrautlegur er þessi ferill orðinn allur.
    Það var satt að segja farið af stað með miklu brambolti í þessum efnum og væri hægt að tala langt mál um þau fögru fyrirheit sem hæstv. fjmrh. og ráðherrar Sjálfstfl. hafa gefið sínum mönnum því nú skyldu þeir selja ríkisfyrirtæki sem aldrei fyrr. Það náðust reyndar góðir áfangar í þessu og góðar gjafir hafa verið gefnar, m.a. SR eins og rakið hefur verið í umræðum á undan. En margt hefur líka farið úrskeiðis og mörg áform hafa farið út um þúfur í þessu efni, t.d. þau áform að selja bankana sem voru fróm áform um en ekki náðist samkomulag um í ríkisstjórninni frekar en margt annað. Hér er sem sagt tímanum eytt þegar fer að nálgast jólin í það að reyna að koma í gegn frv. um að selja afganginn af hlutabréfunum í Lyfjaverslun ríkisins, helst fyrir jól.
    Það hefur margoft verið rakið í þessum umræðum í dag að með sölu ríkisfyrirtækja verði að vera ákveðið markmið. Ég tek undir að það skiptir miklu máli að ákveðið markmið sé um það hvaða tilgangur er með sölunni. Það er svo að Framsfl. hefur þá stefnu að ríkið eigi ekki endilega að ( SJS: Hefur hann stefnu?) vasast í rekstri fram yfir það sem nauðsynlegt er og það sé ekki útilokað að selja ríkisfyrirtæki ef þau eru í samkeppni á almennum markaði. Við höfum markað okkur ákveðna stefnu í þessum efnum, að það sé réttlætanlegt að selja fyrirtæki ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. En þó er tvennt efst í mínum huga í þessu efni. Það er í fyrsta lagi að hagsmuna ríkissjóðs sé gætt við þessar sölur. Það á að selja ríkisfyrirtæki en ekki gefa þau, það er grundvallaratriði. Trúarbrögð um einkavæðingu eiga ekki að vera drifkraftur og gerandinn í þessum málum. Það liggur ekki svona mikið á í þessum efnum þó við framsóknarmenn útilokum ekkert að ríkisfyrirtæki skipti um eigendur, langt frá því. En flokkurinn hefur markað sér ákveðna stefnu í þessum málum. Hún er í fyrsta lagi sú að það verði að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar við söluna og allir njóti sambærilegrar þjónustu og næg samkeppni sé fyrir hendi á hinum frjálsa markaði ef selt er, að starfsfólk eigi möguleika á að gerast eignaraðilar og að markaðsaðstæður séu þannig að eðlilegt verð fáist fyrir þessar eignir. Þetta eru lykilatriði sem verður að gæta varðandi þessi mál. Þess vegna þarf að gefa sér tíma í þessum efnum og fara eftir fyrir fram settum reglum, slíkt er höfuðnauðsyn.
    Í umræðum hér í dag hefur borið á góma hvað eftir annað skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins frá 1991 til 1994. Hæstv. fjmrh. gerði þessa skýrslu að umræðuefni í dag og satt að segja finnst mér að hæstv. fjmrh. vilji hlusta á Ríkisendurskoðun og taka mark á álitum hennar þegar það kemur ríkisstjórninni og hans ráðuneyti vel en þegar það kemur honum ekki vel og ríkisstjórninni þá séu þessar álitsgerðir lítils virði.
    Mér finnst hæstv. fjmrh. lesa þessa skýrslu á nokkuð sérstakan hátt. Það er rétt að það sem kemur honum vel er það sem jákvætt er í henni varðandi hans ráðuneyti og hans embættisfærslur, það er gott í skýrslunni. Það sem er neikvætt er ekkert að marka. Það er tekið skýrt fram í þessari skýrslu að markmið með einkavæðingu eigi að vera skýrt mörkuð. Það stendur á bls. 8 í skýrslunni, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst má vera að framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur unnið ötullega að framkvæmd á stefnu stjórnvalda í einkavæðingarmálum. Það sem að mati Ríkisendurskoðunar hefur helst torveldað framkvæmd þessara mála er að markmiðssetning stjórnvalda hefði mátt vera skýrari. Þetta á ekki síst við um það atriði hvort hámarka skuli tekjur af sölu eða hvort önnur sjónarmið, ósamrýmanleg þessu, eigi að hafa meira vægi.``
    Þetta er fínt orðað í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hér er auðvitað verið að ýja að því að þessi fyrirtæki hafi verið seld við vægu verði og önnur sjónarmið en að gæta hagsmuna ríkisins hafi ráðið meiru. Ef þetta er lesið eftir orðanna hljóðan þá er ekkert hægt að lesa annað út úr þessu. Það brýtur í bága við það grundvallaratriði sem ég nefndi áðan að það á að gæta hagsmuna ríkisins við þessar sölur. Það getur verið réttlætanlegt að hafa önnur sjónarmið í huga um atvinnuuppbyggingu, rekstraröryggi og aðra slíka

hluti en það er í engu tilfelli réttlætanlegt að setja þessi fyrirtæki á útsölu og selja þau fyrir slikk ef svo má að orði komast.
    Það eru fleiri tilvitnanir í þessari skýrslu sem er auðvitað áfellisdómur yfir vinnubrögðum við þessar sölur þó að hæstv. fjmrh. beri sig vel og segi að þessi skýrsla sé góð og telji að einkavæðingarnefnd hafi unnið verk sitt ötullega. Hún hefur vissulega gert það. Einkavæðingarnefnd hefur rótast í þessum málum og gert ýmis tilhlaup, sum hafa farið út um þúfur, önnur ekki. Það hefur í sumum tilfellum tekist að selja þessi fyrirtæki ákveðnum aðilum og það hefur orðið nýtt orð til eða nýtt orð náð vinsældum sem er ,,einkavinavæðing``. Það hefur orðið til í tengslum við þessar sölur á ríkisfyrirtækjum. Hér er t.d. á bls. 9 rætt um sölu á Ferðaskrifstofu Íslands hf. og þar segir:     ,,Hlutabréf ríkisins í fyrirtækinu voru seld starfsmönnum þess á tæpar 19 millj. kr. . . . Bréfin voru ekki boðin öðrum aðilum til kaups þar sem forkaupsréttarákvæði voru talin rýra sölugildi þeirra á almennum markaði og stjórnvöld höfðu áhuga á að starfsmenn eignuðust allt fyrirtækið.``
    Síðan segir: ,,Það er mat Ríkisendurskoðunar að réttara hefði verið að auglýsa bréfin opinberlega til sölu eins og verðbréfafyrirtækið sem hafði með þetta mál að gera virðist hafa gengið út frá. Forkaupsréttur sem starfsmönnum var lögum samkvæmt tryggður hefði átt að nægja til að gæta hagsmuna þeirra við sölu fyrirtækisins.``
    Það er einnig á bls. 11 rætt um sölu Þróunarfélags Íslands. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Að mati Ríkisendurskoðunar vekur þessi sala upp þá spurningu hvort stundum sé of hratt farið við sölu fyrirtækja í eigu ríkisins. Í sumum tilfellum kann að vera skynsamlegt að bíða með sölu í þeirri von að hærra verð kunni að bjóðast síðar.``
    Ég veit ekki hvað er hægt að kveða skýrar á um flumbruganginn í þessum málum heldur en hér er gert af Ríkisendurskoðun. En þetta er sjálfsagt eitt af því sem flokkast að mati hæstv. fjmrh. undir að vera vitleysa.
    Það hefur einnig verið rakið hér af næsta ræðumanni sem talaði á undan mér um Þvottahús Ríkisspítalanna sem var gert tilhlaup til að selja, rætt um við fjárlagagerð hér ítrekað að selja þetta fyrirtæki en allt í einu rann upp ljós fyrir einkavæðingarnefnd að þetta væri óráð og var hætt við slíkt.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu um söluna á SR-mjöli. Það mál hefur verið rakið og ég ætla ekkert að vera að tefja tímann með því að endurtaka það. Það stendur í þessari skýrslu á bls. 13, með leyfi forseta:
    ,,Samanburður á mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls og mati Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka (VÍB) benti til að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra en nam söluverði bréfanna.``
    Hér er náttúrlega sagt svo ekki verður um villst að þetta fyrirtæki hafi verið selt undir verði.
    Hér er einnig talað um söluna á Þormóði ramma á Siglufirði og það bregður svo við þegar rætt er um þá sölu þá telur hæstv. fjmrh. að Ríkisendurskoðun hafi lög að mæla.
    Ég ætla ekki að leggja dóm á það mál, það var rætt hér á sínum tíma, en ég vil ítreka það að salan á Þormóði ramma er undir sömu sök seld og aðrar sölur hér að það þarf að gæta hagsmuna ríkissjóðs þegar farið er með eigur almennings og þær boðnar til sölu að fá fyrir þær eðlilegt verð.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg fleiri orð. Ég held að það væri ráð fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera hlé á og hugsa sig um, fresta þessum áformum, því þessi ferill er allur orðinn með eindæmum. Ég ætla ekki að rekja mál eins og sölu Skipaútgerðar ríkisins. Þar var rokið til og sala Skipaútgerðar ríkisins hefur það í för með sér að nokkur byggðarlög úti á landsbyggðinni eru komin svona 50 ár aftur í tímann í samgöngumálum. Það kann að hafa sparað ríkinu eitthvert fé en hins vegar er það fólkið úti á landsbyggðinni sem þarf að borga það fé til baka. Í sumum tilfellum í hærra vöruverði.
    Ég held því að það ætti að setja punkt aftan við þennan feril, leggja þetta frv. til hliðar, það er nóg að gert í bili og það er nógur tíminn til þess að leggja þetta mál undir dóm kjósenda. En ég skil hæstv. fjmrh. að því leyti að hann þarf að friða frjálshyggjuliðið í Sjálfstfl. með einhverju og þetta er svona smábiti í viðbót sem hann hyggst rétta þeim áður en gengið verður til kosninga í vor. En ég held að það sé engin ástæða til þess að rétta þetta fram til þeirra, hvorki nú né síðar og það eigi að endurmeta þessi áform, gera eins og sagt er í skýrslu Ríkisendurskoðunar, setja skýrari reglur um þessi mál, greina markmiðin með þessum sölum betur. Það liggur ekkert á því að afgreiða þetta frv. og það má vel liggja og bíða nýrrar ríkisstjórnar hver sem hún verður nú. Það var nú svo að það var mikið tilhugalíf í umræðum nýlega hjá hv. 9. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. þar sem hæstv. utanrrh. talaði um, eins og sagt er í sveitinni, að væru tilhleypingar á ferð þannig að enginn veit nú hver samfylgdin verður eftir kosningar í þessum efnum. Það getur alveg farið svo að það verði flokkur hv. 4. þm. Norðurl. e. sem verður í sænginni hjá Sjálfstfl. eftir kosningar. Ég hygg nú að svo geti farið. ( KÁ: Hvað hefur þingmaðurinn fyrir sér?) Ég hef fyrir mér ýmsar orðræður í umræðum um málið og ég hef fyrir mér ýmsar meldingar sem hafa farið fram um slíka hluti. Það er nú svo að þó að hv. 4. þm. Norðurl. e. segi að það séu framsóknarmenn í stjórnum ýmissa ríkisfyrirtækja og segir frá því með nokkurri öfund þá hefur ýmsum ýmsum verið hent út úr þessum stjórnum og m.a. hefur þeim verið hent út sem hafa verið kallaðir framsóknarmenn í Sjálfstfl. eins og hv. 3. þm. Austurl. sem var hent út úr stjórn Áburðarverksmiðjunnar ( Gripið fram í: Mikið hneyksli.) og var mikið hneyksli á heitum sumardögum í sumar þegar honum var hent út eftir dygga þjónustu þar og lögfræðingur hér í bæ settur sem stjórnarformaður í staðinn, lögfræðingur eins og hæstv. fjmrh. Ég ber

mikla virðingu fyrir þeirri stétt að sjálfsögðu, en ég er ekki viss um að hv. 3. þm. Austurl. hafi verið eins ánægður með þetta eða borið eins mikla virðingu fyrir þessari ráðstöfun. ( KÁ: Hann samþykkti þetta nú samt.) Þessar sölur ríkisfyrirtækja eru auðvitað einn þáttur í því að treysta valdastöðu ýmissa aðila hér í þjóðfélaginu, treysta valdastöðu Sjálfstfl. Það er alveg ljóst. Og þó að kannski hafi fyrir slysni einhverjir framsóknarmenn slæðst inn í einhverjar stjórnir þá skiptir það ekki sköpum í þessum efnum.
    En mergurinn málsins er að þetta frv. má liggja að skaðlausu. Það er nóg gert í einkavæðingunni í bili og örugglega hefur ríkissjóður ekki hagnast á henni, það hafa einhverjir aðrir gert.