Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:37:47 (2298)


[00:37]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að sú umræða sem hér á sér stað að næturlagi er þinginu til lítils sóma. Hér er um alvarlegt mál að ræða sem reyndar skortir allar skýringar á og okkur er boðið upp á það að hæstv. fjmrh. fer á hundavaði í gegnum þetta frv. og fann ekki ræðu sína og mér finnst þetta sannast að segja til lítils sóma.
    Það hefur verið kvartað yfir því að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum borið því við að það væri málaskortur í þinginu. Það er ekki vegna þess að við séum endilega að biðja um einhverja vitleysu úr ríkisstjórninni inn á okkar borð heldur vitum við hvað það er sem þarf að afgreiða fyrir jól og það er áhyggjuefni þegar skattafrumvörpin líta ekki dagsins ljós og þegar við vitum það, við sem eigum sæti í efh.- og viðskn. og reyndar það fólk sem situr í fjárln., hversu skammt sú vinna er komin og nú ætti hv. 5. þm. Reykv. að hlusta því að þetta er mergurinn málsins. ( IBA: Ég er að hlusta.) Ég vil líka koma því á framfæri við þennan hv. þm. að mér voru borin þau skilaboð fyrr í kvöld að gert hefði verið samkomulag um það að hér yrði kvöldfundur, ekki næturfundur. Að mínum dómi erum við komin inn í nóttina og þess vegna er það mitt mat að verið sé að ganga á það sem þingflokksformenn höfðu ákveðið. Ég kannast ekki við annað en þessi hv. þm. hafi oft tekið undir það að vinnutími í þinginu væri eðlilegur. Hann hefur oft farið hér í ræðustól þegar það hefur gerst að fundir hafa teygst inn í nóttina. Þetta er ekki eðlilegur vinnutími og það er engin ástæða til að vera að ræða þetta mál að næturlagi. Það er nægur tími til þess t.d. á morgun. Til þess að hægt væri þá að fá einhverjar skýringar á frv.
    Ég vil benda á að með þessu frv. fylgir engin umsögn frá fjármálaskrifstofu fjmrn. eins og venjulega fylgir frumvörpum og ég spyr bara: Hvað þýðir þetta? Hvað kostar þetta? Og ég ætla að fara hérna aðeins í gegnum það. Það er verið að gera ákveðnar breytingar á virðisaukaskattskerfinu og samkvæmt því sem ég hef séð þá sýnist mér þær vera fremur eðlilegar og að hér sé verið að ganga til móts við ýmsa aðila, en hvað kostar þetta? Hvað þýðir þetta? Það er ekki svo auðvelt að sjá það í frv.
    Það kemur fram í athugasemdum við lagafrv. að í fyrsta lagi er verið að leggja til að rýmkaðar verði heimildir til að endurgreiða virðisaukaskatt aðilum sem selja notuð ökutæki í atvinnuskyni. Hvað er þarna um háa upphæð að ræða, hæstv. fjmrh.?
    Í öðru lagi er lagt til að álag vegna vangreiðslu á virðisaukaskatti verði lækkað. Hversu mikið álag er þetta? Hversu miklir peningar eru það sem koma inn í ríkissjóð vegna vangreiðslu og hvað þýðir það ef álagið er lækkað? Ég er ekki að draga í efa þann tilgang frv. að aðlaga þessa prósentulækkun verðbólgu en hvað er þetta mikið? Hvað þýðir þetta?
    Sama gildir um aðrar greinar. Hvaða aðilar eiga hér í hlut? Það kemur fram í athugasemdum við 1. gr. að innihald hennar geti t.d. átt við þá sem stunda fiskeldi og skógrækt og að hér sé verið að lögfesta skýringarreglur sem hafa verið í framkvæmd við innheimtu virðisaukaskatts. Ég spyr: Eru fleiri aðilar og hvaða aðilar eru það sem þarna um ræðir? Eru það fyrst og fremst bændur eða á þetta við um aðra?
    Varðandi framkvæmd greinarinnar þá segir í athugasemdunum að þeir aðilar sem eiga að fá þessa rýmkun þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði sem eru tíunduð í frv. Síðan er sagt: ,,Gert er ráð fyrir að aðili sýni fram á að hann uppfylli framangreind skilyrði svo sem með rekstraráætlun.`` Hvernig er þetta hugsað í framkvæmd? Ef við tökum bændur sem dæmi, hvar eiga þeir að leggja fram þessa rekstraráætlun? Eiga þeir að leggja þetta inn til skattyfirvalda eða hvernig er framkvæmdin á þessu?
    Mér finnst að það vanti allar skýringar og hugsanlega voru einhverjar skýringar í þeirri ræðu sem við fengum ekki að heyra. Ég skal ekki um það segja. En sannleikurinn er nú sá, virðulegur forseti, að þetta frv. hefði vissulega gefið tilefni til að ræða nokkuð um virðisaukaskattskerfið, stöðu þess og þær breytingar sem hafa verið gerðar á því og það hvaða afleiðingar þær breytingar hafa haft hingað til, hverju þær hafa skilað í ríkissjóð og hverju þær hafa valdið í tekjumissi. Ég hugsa þar ekki síst um þann virðisaukaskatt sem var lagður á bækur og tímarit og bókaútgefendur kvarta sáran undan. Hverju hafa þær breytingar sem við gerðum á sl. ári, bæði á virðisaukaskatti á matvæli og það sem sneri að gistingu og slíku, skilað og hvernig virkar kerfið? Ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar um þetta og talið ástæðu til að ræða þessi mál nokkuð ítarlega í tengslum við þetta frv. en aðalatriðið er þó að skilja hvað í þessu frv. felst og um hvað er þarna verið að tala og hversu mikið þessar breytingar kosta ríkissjóð.
    En ég ætla nú að hlífa þeim fáu þingmönnum sem eru í húsinu við lengri ræðuhöldum og ekki síst ráðherranum sem mér sýnist þurfa á hvíld að halda. En ég vil að endingu mótmæla því, virðulegur forseti, að umræða um jafnalvarlegt mál og virðisaukaskatt skuli fara hér fram að næturlagi. Látum nú vera ef umræðan hefði byrjað í dag eða að við værum að reyna að ljúka 2. umr. eða eitthvað slíkt, en að byrja umræðu eftir miðnætti um mál af þessu tagi finnst mér ekki vinnubrögð sem sæma hinu háa Alþingi. Ég get ekki annað en lýst yfir vanþóknun minni á þessum vinnubrögðum.