Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:22:37 (2351)


[15:22]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þau tilmæli sem komu fram áður en umræðan hófst frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að hæstv. sjútvrh. yrði viðstaddur umræðuna og henni þá frestað þar til svo gæti orðið ef hann hefur ekki tök á að vera við hana núna. Ég get ekki fallist á þau rök forseta að starfandi sjútvrh. sé til staðar og því sé ekki ástæða til að verða við þessari ósk. Það er eðlilegt að hæstv. sjútvrh. sé fenginn til að vera í forsvari fyrir því máli sem hann flytur og til andsvara við málflutningi þingmanna og til svara við spurningum. Af eðlilegum ástæðum er hæstv. landbrh. ekki besti maðurinn til þess að svara þeim spurningum og taka þátt í umræðu um Þróunarsjóðinn en óhjákvæmilega mun umræðan leiðast út í að fjalla um önnur atriði í löggjöfinni en það eina sem hér er lagt til að verði breytt.
    Ég bendi á að þó að hæstv. ráðherra hafi hér inni varaþingmann sinn um stund þá hefur ráðherra seturétt á þingi þótt að hann hafi ekki atkvæðisrétt um tíma og ekkert sem hindrar það að hann geti verið hér til að mæla fyrir máli og taka þátt í umræðum. Mér finnst að það hafi verið í hæsta máta eðlilegt að verða við þessari frómu ósk þingmannsins. En ég tek undir þau orð hans líka að ég sé ekkert athugavert við það þó hæstv. landbrh. taki þátt í umræðunni og segi sína skoðun og ég hef mjög gaman að fylgjast með framgöngu hans í þessari umræðu og röksemdafærslu en ég held að frammistaða hans réttlæti frekar en áður að það er nauðsynlegt að fara fram á að hæstv. sjútvrh. verði viðstaddur sitt eigið mál.
    Hins vegar undrar mig svolítið að hæstv. sjútvrh. skuli flýja af hólmi og hverfa frá því og fela öðrum að mæla fyrir þessu máli sínu. Mér hefði fundist að hann ætti að hafa þann manndóm í sér að standa sjálfur fyrir því að mæla fyrir breytingum á vitlausri löggjöf sem hann barðist fyrir og láta það vera að etja hæstv. landbrh. á foraðið þó að hann sé duglegur að stunda sitt skemmtiskokk milli ráðherrastóls og ræðupúlts.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar er full ástæða til að fara yfir efnisatriði í þeirri löggjöf sem í Þróunarsjóðnum felst. Fyrir það fyrsta er ástæða til að minna á það að stjórnarflokkarnir hafa með þessari löggjöf lagt út á þá braut að taka erlent lán upp á marga milljarða, allt að 4 milljarða kr., í því skyni að eyðileggja verðmæti. Ekki aðeins í því skyni að taka úr umferð fiskiskip þannig að þau hætti að vera fiskiskip heldur líka til þess að eyðileggja skip, brenna þau eða brjóta niður. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að Sjálfstfl. hefur ekki hingað til viljað láta kenna sig við öskuhaugahagfræði af þessu tagi og hann barðist mjög hart gegn löggjöf, sem þó var ekki af þessum toga, fyrri ríkisstjórnar sem fól í sér lántöku til þess að endurreisa atvinnulíf á landsbyggðinni. Það fannst Sjálfstfl. vont mál að menn skyldu eyða peningum til þess að endurreisa atvinnulíf á landsbyggðinni, m.a. í kjördæmi hæstv. landbrh. En Sjálfstfl. finnst það gott mál að taka milljarða króna að láni erlendis til þess eins að eyðileggja verðmæti sem fyrir eru upp á miklu hærri upphæðir. Það hefur aldrei, svo mér sé kunnugt, nokkur flokkur í Íslandssögunni gengið jafnlangt í að ástunda öskuhaugahagfræði þá sem Sjálfstfl. aðhyllist og mælir hér fyrir þing eftir þing með löggjöf og málflutningi. En það er nauðsynlegt að menn átti sig á því og sérstaklega landsbyggðarþingmenn og landsbyggðarkjósendur að það er Sjálfstfl. sem hefur forgöngu um það að úrelda atvinnutækifæri landsbyggðarinnar. Það er grundvöllurinn í þeirra

hagfræði sem liggur að baki þessum lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Það er engin ástæða til þess að hlífa Sjálfstfl. við því að svara fyrir þessa vitlausu löggjöf, að láta hann svara fyrir það og rökstyðja hvernig hann metur að slík löggjöf verði til þess að styrkja landsbyggðina enda hafa þeir svo sem þegar svarað því á þann hátt að þetta sé ófullnægjandi og meira en það og það þurfi að setja sérstök lög um einstaka landshluta til þess að koma í veg fyrir að algjört hrun verði.
    Ef við lítum á málið eins og það er rökstutt í frv. þá er um ákveðinn misskilning að ræða að það sé yfir höfuð þörf á því að flytja þetta frv. því lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins leiða af sér að þau skip sem hafa fengið styrk til úreldingar eru ekki lengur fiskiskip og stunda þar af leiðandi engar fiskveiðar. Samkvæmt þessari hagfræði sem menn hafa verið með sem grundvöll að löggjöfinni þá er búið að fækka þeim skipum sem stunda fiskveiðar og bæta stöðu hinna sem eftir eru. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og það er ekki verið að fara fram hjá þessum anda laganna enda nefnir frv. ekki að neinir meinbugir séu á framkvæmd núverandi laga hvað það varðar.
    Í öðru lagi hafa þessi skip sem eru þar af leiðandi ekki lengur fiskiskip ekki atvinnuleyfi til veiða og það breytist ekkert. Þrátt fyrir það að þau séu seld úr landi og síðan flutt inn aftur fá þau hvorki leyfi sem fiskiskip né sérstakt atvinnuleyfi. Vandamálið er því ekki fyrir hendi. Ástæðan virðist mér vera bara einfaldlega þráhyggja í hæstv. sjútvrh., sem finnst ekki nóg að það sé búið að kaupa skip til að hætta að vera fiskiskip heldur vill hann líka að þau séu eyðilögð. Það virðist vera alveg sérstakt markmið Sjálfstfl. að skip, jafnvel nýleg skip, séu brotin í spón eða brennd til ösku. Þetta er nú öskuhaugahagfræði sem hæstv. landbrh. er hér að standa fyrir. Mér heyrist honum ganga illa að rökstyðja það hvers vegna sé þörf á slíku. Eða hver er hættan þó að skip sé flutt úr landi og síðan inn aftur og komist þannig á skipaskrá fyrir fiskveiðiskipin hin? Hún er ekki nokkur því þetta skip sem kæmi inn til landsins þannig hefur engar veiðiheimildir. Það er ekki á skrá yfir fiskiskip og hefur ekki leyfi til veiða. Þannig að ávinningurinn er enginn. Það er ekkert að því þó Íslendingar eigi skip sem hægt er að nota til annarra hluta en að fara til veiða. En Sjálfstfl. finnst það greinilega vont að Íslendingar geti átt skip sem þeir sigli á um höfin eða sjóinn. Það er greinilegt að Sjálfstfl. er það mikill þyrnir í augum að Íslendingar geti átt skip. Það er eins og það sé bara eitthvað voðalega vont. Það séu bara útlendingar sem megi eiga fyrrverandi fiskiskip, ekki Íslendingar. Það þurfi að flytja sérstakt lagafrv. til að koma í veg fyrir að Íslendingar eigi skip sem einhvern tímann í gamla daga var fiskiskip en er það ekki lengur. Það getur verið í góðu standi og það er hægt að sigla á því milli hafna jafnvel frá Austfjörðum til Reykjavíkur en þetta finnst Sjálfstfl. alveg ómögulegt. Menn á þeim bæ mega ekki til þess hugsa að Íslendingar hafi það frjálsræði að geta keypt sér skip. Þá fer maður nú að spyrja: Hvenær kemur að því að hæstv. samgrh. flytji frv. sem takmarkar það að menn megi eiga bíla? Það hlýtur að verða næsta skref í þessari forræðishyggjupólitík sem ráðherrann er að mæla fyrir.
    Ég vil skora á hæstv. ráðherra því ég veit að hann á eftir að koma aftur í þennan ræðustól í þessari umræðu, og jafnvel mjög oft, að leggja niður fyrir sig rökin fyrir því hvers vegna Íslendingar mega ekki eiga fyrrverandi fiskiskip heldur bara útlendingar? Biðja hann um að svara því svona eins og einu sinni í þeim ræðum sem hann á eftir að halda í umræðunni. Koma þeirri röksemdafærslu að sem er væntanlega grundvöllur þess að málið er flutt. Hvað er það sem er svo vont við það að Íslendingar eigi skip sem þeir geti siglt á milli staða innan lands sem erlendis ef það skip hefur einhvern tímann áður verið fiskiskip? Ég næ því ekki og það hefur ekki komið fram neinn rökstuðningur fyrir því að þetta sé eitthvað slæmt, það er í dag. Ég vænti þess að hæstv. landbrh. verði ekki skotaskuld úr því að réttlæta ráðstjórnarhagfræðina sem hann mælir fyrir enda væntanlega vel sjóaður úr sínu ráðuneyti.
    Ég vil benda ráðherranum á það áður en hann svarar að í 10. gr. laganna um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er fjallað um heimild sjóðsins til að kaupa fasteignir eða kaupa fiskvinnsluhús og gera þau að fyrrverandi fiskvinnsluhúsum. Hvað segir svo í niðurlagi 10. gr. um það hvað eigi að gera við þessi fiskvinnsluhús sem eru hætt að vera fiskvinnsluhús en eru áfram fasteignir? Skyldi eiga að brenna þau eða brjóta þau? Það ætti að vera ef það væri samsvörun milli úreldingar á fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp lokamálsgrein 10. gr. frv. en hún er svohljóðandi:
    ,,Stjórn sjóðsins skal leitast við að selja fasteignir, sem sjóðurinn eignast, til óskyldrar starfsemi.``
    Það eru ekki fyrirmæli um að brenna húsið, það eru ekki fyrirmæli um að brjóta það heldur er gert ráð fyrir því að fasteignin fái að vera áfram fasteign og meira að segja er mælst til þess að menn leitist við að búa svo um hnútana að fasteignin verði að einhverju gagni á öðru sviði af því að það þjónar hugmyndafræðinni um úreldingu úr atvinnugreininni. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Af hverju þjónar það ekki hagsmunum þeirra sem vilja hafa úreldingu fiskiskipa að leiðarljósi að fiskiskip geti gert eitthvað annað en að vera fiskiskip? Af hverju má það ekki? Að vísu má það ef það er útlendingur sem á fiskiskipið en það má ekki vera Íslendingur. Þetta er nú vandamálið sem hæstv. sjútvrh. stendur frammi fyrir að reyna að sannfæra sjálfa sig hygg ég og okkur hin um að það sé nauðsynlegt að gera þessa breytingu á lögunum sem er lögð er til.
    Virðulegur forseti. Þetta er nú eitt það allra vitlausasta frv. sem ég hef séð frá hæstv. ríkisstjórn og hafa nú mörg verið skrýtin og sérlega skrýtið var nú þetta frv. sem síðar varð að lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. En það er svo sem annað mál en það er makalaust af hæstv. ríkisstjórn að flytja þingmál eins og þetta sem er fullkomlega órökstutt. Fullkomlega órökstutt. Ég hygg að þingheimur hafi annað við tímann sinn að gera en að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina í þessu máli þó það verði auðvitað að gerast fyrst málið er komið fram. Tímanum hefði verið betur varið í eitthvað annað þarfara.
    Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að eyða fleiri orðum að þessum málflutningi ríkisstjórnarinnar sem hæstv. landbrh. hefur tekið að sér að mæla fyrir og verja enda öðrum færari um það, væntanlega besti fulltrúi ríkisstjórnarinnar í þessari öskuhaugahagfræði og forræðishyggju sem felst í málinu.