Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:39:52 (2353)


[15:39]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að fara yfir grundvallaratriðin hægt og rólega fyrir hæstv. landbrh. Fyrir það fyrsta þá lagði stjórnarandstaðan til að frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það vona ég að hæstv. ráðherra hafi alveg skýrt. Í öðru lagi er ráðherrann að leggja til breytingu á 8. gr. laganna vegna þess að ráðherrann er ekki ánægður með greinina eins og hún er. Eini aðilinn hér í þingsölum sem hefur tekið til máls sem er óánægður með núv. 8. gr. laganna er hæstv. ráðherra. Það er vegna þess að honum er ekki nóg að það sé hægt að úrelda fiskiskip með því að taka það af skipaskrá, taka af því atvinnuleyfið, heldur vill hann gera meira. Hann vill setja það skilyrði að báturinn fari á bálið. Hann er að flytja hér frv. um að það verði ófrávíkjanlegt skilyrði að bátar sem fái úreldingu verði brenndir eða brotnir í spón. Það er öskuhaugahagfræði hæstv. landbrh. Af því að hann getur ekki til þess hugsað að Íslendingar megi eiga þessi skip og hafa þau til annarra nota en sem fiskiskip. Þess vegna kalla ég þetta öskuhaugahagfræði, virðulegur forseti. Hæstv. landbrh. er að vísu nokkuð fróður um þá hagfræði, ég viðurkenni það og hann er líklega fremstur meðal jafningja í Sjálfstfl. í þeim fræðum. En ég frábið mér það að hann ætli að koma þessari forræðishyggju og öskuhaugahagfræði yfir þingheim.