Þróunarsjóður sjávarútvegsins

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 12:25:09 (2403)


[12:25]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli óánægju minni með það að í gær þegar þessi umræða hófst þá fór ég fram á það að henni yrði frestað þar til hæstv. sjútvrh. yrði viðstaddur. Það var ekki orðið við þeirri ósk og það gefið til kynna að sjútvrh. væri í útlöndum og ég a.m.k. skildi það þannig að þetta væri löng ferð og ekki von á sjútvrh. á næstunni og af þeim ástæðum væri ekki hægt að fresta umræðu um þetta stórmerkilega mál sem hér er á dagskrá. Það kemur síðan í ljós að hæstv. sjútvrh. mun vera að koma til landsins í dag og a.m.k. hefur hann boðað fund með þingmönnum Suðurlands á morgun þannig að það hefði verið hægt að hafa hæstv. sjútvrh. við þessa umræðu með því að fresta henni ekki mjög lengi. Það hefur sýnt sig í umræðunni að hæstv. sjútvrh. hefði átt að vera hér því hæstv. starfandi sjútvrh. skilur greinilega ekki upp eða niður í þessu máli. Svör hans og umræða sem hann hefur tekið þátt í hér um þetta mál hefur a.m.k. sannfært mig um það að hann skilur ekki tilganginn í því að úrelda skip út úr fiskiskipastólnum. ( SJS: Lái honum hver sem vill.) Hann leggur það að jöfnu, virðist vera, hvort skipið hefur veiðileyfi við Ísland eða ekki. Það virðist engu máli skipta í hans augum. Ég a.m.k. hefði vonast til þess að hæstv. sjútvrh. skildi muninn á þessu tvennu og þess vegna hefði verið ástæða til bara af þeim ástæðum að hann hefði verið hér til staðar til að ræða þetta mál. Það verður ekki úr þessu, ég geri ekki ráð fyrir að þessi umræða standi það lengi að hæstv. sjútvrh. verði kominn til hennar en ég get ekki annað en látið koma fram óánægju mína við hæstv. forseta vegna þess að hann neitaði því að fresta þessari umræðu vegna þess að þetta liggur fyrir og ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar láti hæstv. forseta vita af ferðum sínum hversu lengi þeir eru fjarri ættlandinu þannig að það sé hægt að taka tillit til þess við stjórn þingsins.