Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 15:05:23 (2427)


[15:05]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi frv. hefur þegar komið fram að deilt er um það og má sjálfsagt deila um það hvort hér sé mikil stefnubreyting á ferðinni. Hitt er annað mál og að mínu mati ekki nokkur vafi að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, sem hæstv. fjmrh. gat reyndar um, sem hafa þegar breytt lögum sínum í sömu átt, þ.e. Svíar og Finnar, hafa haft áhyggjur af því ekki einasta að þessar breytingar hafi haft í för með sér neikvæð áhrif heldur einnig að annað muni fylgja á eftir. Út frá því vil ég fjalla um málið að þessu sinni.
    Ég held að hafi gleymst mjög í þessu og hv. seinasti ræðumaður, 2. þm. Suðurl., gat reyndar um og það er það að ekki er minnst á að hér sé um heilsufarslegt mál að ræða heldur einungis fjárhagslegt mál. Ég hafna þeirri skilgreiningu að hægt sé að einangra fjárhagsleg mál eða skipulagsleg mál sérstaklega og tengja þau ekki afleiðingum sem þau kunna að hafa á heilsufar fólks.
    Það sem fyrst og fremst skiptir máli er það hvort sú breyting sem hér er lögð til og er í þeim þremur frumvörpum sem eru til umræðu og eru öll sama eðlis, þ.e. að gefa heildsölu og innflutning á áfengi frjálst, er í rauninni spurning um áfengisstefnu fyrst og fremst. Það sem hér er verið að opna fyrir er aukin samkeppni í innflutningi á áfengi og að það séu ákveðnir hagsmunir sem að sjálfsögðu öllum innflytjendum ber að gæta. Þar af leiðandi má búast við því að meiri þrýstingur muni verða á þá aðila sem dreifa áfengi því að það er ekki bara samkvæmt þessu frv. að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé með smásöluna. Eins og segir í frv. um breytingar á áfengislögum verður einnig hægt að flytja inn til áfengi einkanota en í þessu felst það einnig að það sé til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, veitingastaða og lækna. Ég geri ekki athugasemd við 3. liðinn, til lækna og lyfsala eða lækna með lyfsöluleyfi og lyfsala en það eru veitingastaðirnir, sem geta flutt beint inn. Samkvæmt því frv. sem liggur fyrir til áfengislaga sem við munum ræða hér síðar og dómsmrh. mun mæla fyrir er líka verið að tala um að hægt sé að flytja inn áfengi til einkanota. Það er í rauninni gífurlega mikil breyting og ég get ekki skilið þá röksemd að hér

sé í rauninni ekki um stefnubreytingu að ræða. Um það snýst þetta mál fyrst og fremst. (Gripið fram í.) Ég heyri að hæstv. . . .   (Gripið fram í.) Já, ég veit að hv. 5. þm. Reykv. vill gjarnan halda í það mismæli sem mér varð á, að hann væri hæstvirtur en því miður er það ekki í mínu valdi að úthluta slíkum titlum þannig að ég verð að hafa hann háttvirtan svo sem þingsköp leyfa.
    Varðandi reynslu nágrannaþjóða okkar kom réttilega fram hjá hæstv. fjmrh. í framsögu hans að fyrir ákveðinn þrýsting sem deilt er um hvort réttur sé vegna EES-undirritunar ákváðu Finnar og Svíar að breyta sínum reglum og koma á þeirri tilhögun sem hér er lögð til að verði, þ.e. að innflutningurinn sé gefinn frjáls þó að smásalan sé enn í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þetta taldi hann að hefði ekki haft neitt neikvætt í för með sér en það er hins vegar ekki rétt. Þetta er mál sem margir á Norðurlöndum hafa haft verulegar áhyggjur af og ef ég gríp niður í eina grein sem fjallar einmitt um nákvæmlega þetta mál og birtist í sænska dagblaðinu 8. mars sl. þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta, og í lauslegri endursögn minni: Nú þegar hefur EES-samningurinn takmarkað mjög möguleika okkar á því að móta stefnu við innflutning á áfengisvörum og vörum sem eru tengdar áfengi þrátt fyrir að á þjóðþinginu hafi fyrir samþykkt EES-samningsins verið gefið fyrirheit um það og tryggingar fyrir því að svo yrði ekki.
    Í umræðunni hefur komið að í Noregi hyggja menn ekki á breytingar, þeir eru með sömu tilhögun og við og þar af leiðandi virðast hæstv. ráðherrar hér vera að ganga á lagið og nýta sér það færi sem þeir þykjast sjá í skjóli EES-samningsins, færi sem er allsendis óvíst að þeir þurfi yfir höfuð að nýta sér.
    Ég veit að um þetta er deilt og e.t.v. mun ekki fást niðurstaða í málinu nema fyrir þeim eftirlitsstofnunum og dómstól sem EES-samningurinn heldur enn í gangi. Mér finnst nokkuð skjótráðið af hæstv. ráðherrum að stökkva fram með slíkt frv. á meðan ekki einu sinni er komin niðurstaða í málið. Það er ljóst að af þeim þremur Norðurlandaþjóðum, sem stóðu með okkur að EES-samningunum, þá hafa tvær valið þá leið að opna fyrir innflutninginn en það þriðja ekki.
    Nú ætla ég ekki að gefa mér hver niðurstaðan gæti orðið ef það yrði látið á þetta reyna en ég held að það sé ekki ofmælt að taka það upp hér sem skoðun hæstv. dómsmrh., sem bagalegt er að skuli ekki vera við þessa umræðu svo nátengd sem þessi þrjú frv. eru, að hann hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að hann vilji gefa sölu á alla vega áfengi og ef mig misminnir ekki einnig tóbaki sem allra frjálsasta. Þetta er algjörlega úr takt við öll þau heilsufarsmarkmið sem sett voru með áætluninni ,,Heilbrigði allra árið 2000`` þar sem sérstaklega var sett það fróma markmið að draga um 25% úr áfengisneyslu innan hvers aðildarríkis að þessari áætlun fyrir sig á þessu tímabili fram að aldamótum. Ég sé ekki annað en að verið sé að fara nákvæmlega í öfuga átt með þeirri stefnumótun sem kemur fram í þessum þremur frv.
    Það er alveg augljóst mál að það er mat þeirra sem vinna að áfengisvarnarmálum innan Norðurlanda að með því skrefi, sem hér er stigið, og með rýmkun á áfengislöggjöfinni er verið að kalla yfir sig bæði fleiri slys, sjúkdóma og önnur vandamál sem beinlínis tengjast áfengi. Ég held að það sé varla nokkur, sem fjallar með ábyrgðartilfinningu um þessi mál, sem tekur ekki að einhverju leyti mark á slíku áliti.
    Það er augljóst að með þessari lagabreytingu er opnað fyrir ýmiss konar niðurboð á áfengisinnkaupum og það er athyglisvert sem fram kemur í einni af þeim greinum sem ég hef aðgang að varðandi þessi málefni sérstaklega að það er algjörlega hægt að sýna fram á bein tengsl milli áfengisverðs annars vegar og þess heilsufarsskaða sem áfengið veldur hins vegar.
    Ef ég tek bara dauðsföll af lifrarsjúkdómum í grein sem er að finna í riti um Evrópusambandið og áfengisstefnu sem heitir Sannanir og afleiðingar þá kemur þar sérstaklega fram að Ísland hefur verið með einna hæsta áfengisverð þeirra landa sem þar eru nefnd, það eru OECD-löndin sem þar eru tekin til, og það eru reyndar langfæst tilfelli hér á landi af lifrarskaða vegna áfengisneyslu. Þarna er beinlínis hið háa verðlag, sem hefur verið haldið hér og ég mæli ekki gegn, sem hefur reynst bein tenging á milli þessara tveggja þátta, verðlagsins og þessara dauðsfalla. Það er aðeins eitt af þeim heilsufarsvandamálum sem þekkt eru varðandi áfengisneyslu og er alveg áreiðanlega hægt að taka einhver fleiri dæmi um aðra sjúkdóma.
    Í frv. er því verið að stíga stærra skref en hæstv. ráðherra vildi vera láta og samanlagt eru þessi þrjú frv. algjör stefnubreyting og sú stefnubreyting er því miður til hins verra.
    Við höfum horft upp á það núna, raunar í kjölfar EES-samningsins, að farið er að auglýsa lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld í tímaritum og raunar að hvetja til neyslu þeirra. Ég er ekki að segja að það sé líklegt, alla vega að svo stöddu, að opnað verði fyrir aðrar áfengisauglýsingar en þær sem því miður berast til landsins núna með erlendum tímaritum og víðar. Við höfum ekki verið reiðubúin og ég get ekki út af fyrir sig mælt því bót að við hættum að flytja inn tímarit þrátt fyrir áfengisauglýsingarnar en ég verð að viðurkenna að þær eru mér þyrnir í augum. Hitt er annað mál að lesmál sem er á erlendum tungumálum berst yfirleitt ekki í hendurnar á þeim hópi sem okkur ber fyrst og fremst skylda til að gæta hagsmuna fyrir en það er unga fólkið og a.m.k. í þeim unglingablöðum sem koma inn á mitt heimili, og ég er móðir 15 og 17 ára gamalla unglinga, eru slíkar auglýsingar sem betur fer ekki, en það eru m.a. ýmis poppblöð, íþróttablöð og fleira. Ég held að sú takmörkun sem er á áfengisauglýsingum sé að sjálfsögðu af hinu góða. Hitt er annað mál að óbeinar auglýsingar með ýmsum hætti, þrýstingur, kynningar og eitt og annað svoleiðis lagað er nú þegar orðið nokkuð áberandi. Ég býst við því að ef samkeppni í innflutningi yrði aukin og meira frjálsræði yrði í þeim viðskiptum sé verið að opna fyrir það að það verði aukinn þrýstingur á slíkar óbeinar auglýsingar, kynningar og áróður af ýmsu tagi og að sjálfsögðu frá sjónarhóli innflytjenda er það eðlilegt.

    Niðurstaða mín er sú að ekki séu nein knýjandi rök fyrir því að stíga þetta skref. Að mati nágrannaþjóða okkar og þeirra sem gerst þekkja þar til er það varasamt að gera það. Ekki er verið að þjóna hagsmunum neinna nema að sjálfsögðu þeirra innflytjenda sem hafa mjög þrýst á um þetta og ég held einfaldlega að við verðum að taka meiri hagsmuni fram yfir minni hagsmuni. Ég held að það séu meiri hagsmunir að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að takmarka áfengisneyslu og ekki síst áfengisneyslu unglinga. Þeir eru því miður sá markhópur sem mikið er höfðað til og það er fleira sem bent hefur verið á sem getur verið gildra í því frv. sem hér er. Hæstv. ráðherra kom að því í máli sínu að það væri kannski ekki svo ýkja mikið vandamál að fara út í merkingar á áfengi en í minnisblaði frá starfsmannafélagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem barst í hólfin í dag og vitnað hefur verið til, benda starfsmenn ÁTVR sérstaklega á það að í dag sé allt áfengi sem selt er veitingahúsum sérstaklega merkt og hægt sé að merkja áfengið hverju húsi fyrir sig. Þetta sé gert í samráði við lögreglu og skattyfirvöld og sé mjög gott aðhald varðandi smygl og brugg. Þessu eftirliti á að hætta eftir gildistöku frumvarpanna og þær merkingar sem hæstv. ráðherra talaði um að væri mögulegt að setja í staðinn eru bara einfaldlega --- ég sé ekki stafkrók um hvernig á að standa að því þannig að það er alveg opin leið að vera ekki með neinar merkingar. Ég held að það þjóni ekki einu sinni hagsmunum innflytjenda að opna þarna smugu. Þetta hlýtur að vera í versta falli gert af hreinu kæruleysi og í skásta falli hefur þetta bara hreinlega verið yfirsjón og ég held að við verðum einfaldlega að líta á þessi rök líka vegna þess að mínu mati er um að ræða mjög sérkennilega vanrækslu eða yfirsjón og ræða hæstv. ráðherra sannfærði mig ekki um að það væru nein úrræði þar um.