Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 16:09:22 (2433)


[16:09]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir nánast alla ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og alveg sérstaklega þann kafla í ræðunni þar sem hún ræddi um stöðu heimilanna í landinu í dag. Það voru vissulega orð í tíma töluð og ég tek undir þau.
    En ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er fyrst og fremst sú að lýsa stuðningi við þá tillögu sem hér er borin fram en ekki síður til þess að benda hv. flm. á það sem alla vega sá sem hér talar hefur haft sem reglu þegar hann leggur fram slíkar tillögur þar sem farið er fram á eitthvert ákveðið starf, það er að tímasetja þær þannig að sú áætlun sem hér á að framkvæma, það verði sett sem skilyrði að henni verði lokið fyrir einhvern tiltekinn tíma þannig að þetta sé ekki galopið og framkvæmdarvaldið geti verið að draga málið á langinn þess vegna. Þess vegna tel ég eðlilegt, ef hv. frsm. er mér sammála, að hann leggi það til við nefndina að einhverjum tímamörkum verði bætt við þetta.
    Ég hef farið aðeins yfir þau atriði sem nefnd eru og ættu að vera í framkvæmdaáætluninni. Ég stoppa aðeins við 2. lið þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Styðja við starfsemi áhugahópa sem starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum.``
    Ég tek auðvitað heils hugar undir þetta en ég harma það að á sama tíma og við 63 þingmenn, sem hér sitjum, tölum sýknt og heilagt um gildi íþrótta og hversu mikilvægar þær eru í forvarnastarfi og hvaða nafni sem ber að nefna meinum við á sama tíma nákvæmlega neitt með okkar orðum. Þetta er náttúrlega ljóst þegar menn fletta fjárlögunum. Niðurskurður til íþrótta í landinu hefur verið árviss og nú er svo komið að íþróttasjóður er lagður af. Ég hlýt þá að ætlast til þess að þeir hv. þm. sem koma núna upp styðji okkur sem erum að reyna að berjast fyrir því að íþróttasjóðurinn verði ekki lagður af. Ég mun flytja brtt., sem verður mjög á hógværu nótunum, og þar verður farið fram á að sjóðurinn fái að halda sér í sínu horfi sem eru 14 millj. kr. og hefur þó verið hraustlega skorið niður undanfarin ár. Ég fagna enn einu sinni að menn sýna íþróttunum áhuga og óska þá eftir stuðningi við það að hugur fylgi máli.
    Íþróttir eru auðvitað afar mikilvægar. Ég veit ekki hvort þingmenn hafa fengið senda þá könnun sem prófessor Þórólfur Þórlindsson stóð fyrir og íþróttanefnd ríkisins um gildi íþrótta fyrir ungt fólk. Ef þingmenn hafa ekki fengið könnunina mælist ég til þess að þeir verði sér úti um hana vegna þess að þar er mikill fróðleikur um gildi íþróttanna. Þar kemur fram að bein tengsl eru milli íþróttaiðkana og tóbaksnotkunar, áfengisnotkunar, vímuefnanotkunar, árangurs í skóla, heilsu, hugleiðinga um sjálfsmorð og allt slíkt. Þar er í einu riti slíkur rökstuðningur fyrir gildi íþrótta að það er hrein gullnáma enda hefur önnur eins könnun aldrei farið fram hér á landi og þykir mjög merkileg víða um heim og nú er eftir því sem ég best veit verið að þýða hana til að senda úr landi. Auðvitað vita þeir sem það vilja vita að það starf sem fram fer í íþróttunum er það starf sem er mjög mikilvægt núna og er mikill skortur á. Þá á ég ekki síst við það agaleysi sem komið er í íslenskt þjóðfélag. Það eru akkúrat íþróttafélögin og skólarnir sem geta tekið á þeim þætti. Hvar annars staðar í dag læra krakkar t.d. stundvísi? Hvar læra þeir tillitssemi? Hvar læra þeir snyrtimennsku? Hvar læra þeir að taka tillit hvert til annars? Hvar læra þeir að starfa í hópi og þar fram eftir götu? Ég held að rökin séu svo massív fyrir því að styðja hraustlega við bakið á íþróttunum að það eigi að gera þá kröfu til þingmanna að hugur fylgi máli. Það er deginum ljósara. M.a. í þessari tillögu hér tala menn um áfengisneyslu og vímuefnaneyslu og það er deginum ljósara að það er ekkert til sem er betri forvörn gegn þessu en íþróttastarf í landinu. Þá má auðvitað útvíkka það því að hér er talað um æskulýðsmál. Það má taka skáta og aðrar slíkar hreyfingar inn í. Það er nákvæmlega ekkert sem er mikilvægara. Ég óska eftir því að þingheimur styðji okkur sem vilja hag íþróttanna sem mestan.
    Mér finnst kannski vanta aðeins inn í upptalninguna samstarf við skóla og foreldrafélög. Ég held að það væri að ósekju að hafa þann lið þarna inn í fyrir þá nefnd sem skoðar þetta.
    Hæstv. forseti, eins og ég segi kom ég fyrst og fremst upp til þess að lýsa stuðningi við þetta mál og ég vona að að fái framgang, en ég ítreka það að ég teldi æskilegt að tímamörk yrðu sett þannig að við sæjum þetta fyrr en seinna inni í þinginu.