Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 15:23:54 (2496)


[15:23]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það liggur fyrir við 2. umr. um fjáraukalög fyrir árið 1994 að forsendur fjárlaga stóðust ekki frekar en endranær. Breyting frá fjárlögum er að tekjur verða samkvæmt því sem nú er

áætlað 2,6 milljörðum kr. hærri en áætlað var en það dugar þó ekki til að halda sama halla og var í fjárlögum yfirstandandi árs því að gjöldin hækka einnig um 3,9 milljarða kr. samkvæmt frv. og síðan koma breytingartillögur til viðbótar frá meiri hluta fjárln. sem eru í kringum 200 millj. kr. Áætlun gerir því ráð fyrir að mismunurinn verði a.m.k. 1,5 milljarðar kr. ef þessar breytingartillögur eru teknar með í reikninginn.
    Það liggur einnig fyrir samkvæmt því sem hv. formaður fjárln. sagði í framsögu sinni um nefndarálit meiri hlutans að enn er eftir að taka á nokkrum atriðum sem ekki hefur verið ákveðið hvernig verða afgreidd. Þau vandamál eru nokkuð stór og ef við leggjum gróft saman þær upphæðir sem þar er um að ræða þá er það um einn milljarður kr. og mundi fjárlagahallinn hækka sem því næmi ef við því yrði orðið. Með öðrum orðum, þá hækkar fjárlagahallinn líklegast í ár um upp undir 5 milljarða kr. svo að hann verður engan veginn 9,6 milljarðar kr. eins og áætlað var í fjárlögum heldur líklega 5 milljörðum kr. hærri.
    Það eru auðvitað ánægjulegar fréttir að tekjurnar skyldu hafa orðið hærri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir en því miður eru slæmu tíðindin þau að lánsfjárþörfin eykst, hún hækkar. Hrein lánsfjárþörf hækkar úr 11,7 milljörðum kr. í 20 eða um 8,8 milljarða kr. og heildarlánsfjárþörfin hækkar meira að segja allmikið frá því sem Ríkisendurskoðun gerði ráð fyrir þegar hún gerði skýrslu um afkomuhorfur ríkissjóðs á miðju ári. Þá var gert ráð fyrir því að lánsfjárþörfin yrði í kringum 31 milljarður kr. en núna lítur út fyrir að lánsfjárþörfin sé 36,5 milljarðar, heildarlánsfjárþörfin. Með leyfi forseta ætla ég að taka hér upp úr athugasemdum með frv. til fjáraukalaga þar sem mér finnst það ekki hafa komið nægilega skýrt fram hér, en mér finnst stærsta málið þegar við erum að ræða um fjárlög ársins vera lánsfjárþörf ríkissjóðs, hvað hún eykst í framhaldi af þeim halla sem ævinlega verður á hverju ári. Með leyfi forseta er í athugasemdum við frv. talað um lánahreyfingar:
    ,,Í fjárlögum 1994 var hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs áætluð 11,8 milljarðar. Að viðbættum afborgunum eldri lána var heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs talin vera 27,7 milljarðar kr. Hrein lánsfjárþörf er nú áætluð 20,6 milljarðar kr. og heildarlánsfjárþörfin því 36,5 milljarðar kr.`` eða eins og ég sagði áðan um 8,8 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Það er ekki nóg svo að ég bæti því við, það er ekki nóg að hallinn hafi hækkað núna um 3,9 milljarða kr. og bætist e.t.v. einn milljaður við í viðbót, heldur hefur lánsfjárþörfin hækkað um 8,8 milljarða kr. ( Fjmrh.: Skýringin kemur fram.) Sú aukning skýrist að vísu, hæstv. fjmrh., af því að ríkissjóður hefur þurft að hafa milligöngu um 7 milljarða kr. lántöku fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem innlend lánsfjáröflun stofnunarinnar hefur ekki gengið sem skyldi.
    Það er líka rétt að benda á það að ríkissjóður hefur þurft að fjármagna lán fyrir húsnæðiskerfið og það kemur m.a. til af því að fjmrn. hefur neitað að selja húsnæðisbréf á þeim kjörum sem markaðurinn krefst. Það hefur því ekki verið hægt að selja bréfin á þeim kjörum. Þar með hefur auðvitað safnast upp mikil skuld hjá ríkissjóði og ríkissjóður orðið að fjármagna húsnæðiskerfið.
    Síðan má bæta því við að það hækka einnig lánveitingar til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins um hálfan milljarð kr. samkvæmt fjáraukalagafrv. Við vorum að ræða í gær um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þar kom fram að búið væri að úthluta úr honum 1,5 milljörðum og stefndi í að það væru líklega 2 milljarðar kr. sem úthlutað væri úr Þróunarsjóðnum til þess að úrelda skip og eyðileggja. Þannig er þeim fjármunum varið.
    Virðulegi forseti. Mér finnst það nokkuð athyglisvert þegar við erum að skoða tekjuöflun ríkissjóðs á yfirstandandi ári að þrátt fyrir það að virðisaukaskattur á matvælum var lækkaður niður í 14% úr 24,5%, þá hefur orðið aukning í þeim sköttum og mér finnst eðlilegt að varpa þeirri spurningu fram hvort það sanni þá kenningu að þegar skattar lækka, þá verði meiri umsvif og velta í kjölfarið. Það er líka athyglisvert að tekjur af bifreiðum og bensíni verða lægri samkvæmt því sem nú er áætlað, lægri heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir, en þar voru einmitt miklar hækkanir ákveðnar um síðustu áramót. Og þrátt fyrir það að þessar hækkanir hafi verið ákveðnar sem áttu að skila meiri tekjum til ríkissjóðs þá verða tekjurnar af þessum gjöldum, þ.e. bifreiðagjaldi og bensíni, lægri en gert var ráð fyrir. Í raun og veru sýnir það að boginn hefur verið spenntur nokkuð hátt. Það er ekki alltaf þannig að hækkanir sem eiga að skila auknum tekjum skila sér vegna þess að þá eru hlutirnir einfaldlega orðnir svo dýrir að fólk minnkar við sig notkun og kaup á þessum hlutum og þarna kemur það fram í því að fólk kaupir t.d. síður nýja bíla en það hefur gert á undanförnum árum þegar kaupmáttur var meiri hjá fólki, enda hefur dregist mjög mikið saman innflutningur og ekki síst í nýjum bílum.
    Sala eigna skilar einnig minna og enn þá einu sinni lægri tekjum heldur en fjárlög hafa gert ráð fyrir og það er eiginlega athyglisvert, ég held að ég muni það rétt að í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 er ekki gert ráð fyrir neinum tekjum af sölu eigna og sýnir það nú að menn eru loks að átta sig á því að sala eigna skilar ekkert miklum tekjum í ríkissjóð, enda er oft og tíðum nánast um gjöf að ræða.
    Það er einnig rétt að vekja athygli á því að núna er farið að hafa þann háttinn á að yfirfæra heimildir á milli ára og skekkir það nokkuð myndina um afkomu ríkissjóðs. Um síðustu áramót, 1993--1994, var yfirfærsla á heimildum vegna rekstrar og stofnkostnaðar tæpir 2 milljarðar kr. sem kemur þá inn í tekjurnar á þessu ári eða til framkvæmda á þessu ári. Síðan er aftur fært á milli um næstu áramót en það stefnir þó í að það verði ekki sama upphæð þannig að þetta rúllar nú ekki sjálfkrafa í gegn heldur verður sennilega um minni upphæð að ræða næsta árið sem verður færð á milli. En þarna eru tveir milljarðar kr. sem ekki voru nýttir á síðasta ári og koma inn til framkvæmda og reksturs á þessu ári.

    Það er freistandi að gera hér nokkuð grein fyrir örfáum liðum í fjáraukalagafrv. eins og það er núna. Því miður var ég ekki hér við 1. umr. um þetta frv. en eftir því sem ég gat séð í þeim umræðum sem komnar eru út í þingtíðindum þá hefur ekki mikið verið farið í að skoða einstaka liði í því fjáraukalagafrv. sem liggur frammi og síðan hafa bæst við fleiri liðir í brtt. meiri hluta fjárln. Það verður þá fyrst fyrir að skoða að það kemur fram á ýmsum liðum að lýðeldishátíðin í sumar fór allmikið úr böndum og það er auðvitað ámælisvert að það skuli ekki hafa verið meira að marka þá áætlun sem gerð var um þann kostnað. Og það koma hér aukaframlög bæði hjá Alþingi, forsrn. og dómsmrn. vegna þessa máls. Það er auðvitað ekkert við því að gera úr því sem komið er. Það verður að standa við þær greiðslur sem búið er að efna til en það er ámælisvert að áætlunin skuli hafa farið svo mikið úr böndum sem greinilegt er að hún hefur gert.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna Byggðastofnun sem reyndar er enn óafgreidd hjá hv. fjárln. og mun verða rætt í 3. umr. hvort Byggðastofnun muni fá viðbótarframlag vegna búvörusamninga sem hún telur sig enn vanta. Ég ætla ekki að gera það sérstaklega að umræðuefni þar sem hv. formaður fjárln. hefur lýst því yfir að þetta verði skoðað fyrir 3. umr. En í fjáraukalagafrv. núna er viðbótarframlag að fjárhæð 300 millj. kr. og skýringin á því er að það sé vegna erfiðleika í atvinnulífi á Vestfjörðum og þar sé átt við þau lög sem samþykkt voru í vor um Vestfjarðaaðstoð. Mér finnst alveg fullkomin ástæða til að geta þess hér sem mér finnst hafa verið mjög rangfært oft og tíðum úti í þjóðfélaginu að hér er ekki um framlag, ekki um aðstoð sem beint framlag að ræða. Þetta er víkjandi lán. Þetta víkjandi lán á að greiða aftur eftir framleiðnihæfni þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga. Það er líka ástæða til þess að árétta það að þetta lán hefur ekki enn, svo mér sé kunnugt um, verið greitt til nokkurra fyrirtækja. Ég legg enn og aftur áherslu á það að hér er um lán að ræða fyrir utan 15 millj. kr. sem áttu að fara til sérstakrar atvinnusköpunar, nýsköpunar, og er að ég held verið að úthluta eða a.m.k. komnar tillögur um úthlutun á því. En þau lán sem áttu að fara til fyrirtækjanna eru held ég ekki enn komin til greiðslu og jafnvel ekki enn búið að ákveða hverjir fái þau.
    Ég vil þá aftur minna á það að við vorum að ræða um áðan að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fengi 500 millj. kr. til viðbótar í þessu fjáraukalagafrv. og það er ekki talin ástæða til þess að skýra það nema með einni línu í fjáraukalagafrv. og það verða alveg örugglega ekki jafnmiklar umræður um það hverjir fái þær 500 millj. kr. eins og búið er að verða um þessar 300 millj. kr. í víkjandi láni til Vestfjarða.
    Það er lítils háttar aukning til utanrrn. sem er einnig vert að vekja aðeins athygli á. Til hvers skyldi það nú vera? Prentun og útgáfa á gerðum og viðaukum í tengslum við EES-samninginn upp á tæpar 9 millj., þýðingarmiðstöð 14 millj. og síðan aukinn ferðakostnaður ráðuneytisins vegna formennsku Íslands í EFTA. Alls eru þetta í kringum 30 millj. kr. og kemur raunar ekki á óvart enda kostnaður við framkvæmd EES-samningsins, undirbúning og framkvæmd víða falin í ýmsum liðum í ráðuneytunum.
    Það hefur komið hér fram og ég nefndi það áðan að það er eftir að afgreiða ýmsa liði sem bíða til 3. umr. og er hægt að nefna það hér en ég ætla ekki að gera að sérstöku umtalsefni, það gefst tækifæri til þess í 3. umr. og það er um Innheimtustofnun sveitarfélaganna, þ.e. um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem þarf framlag vegna Innheimtustofnunar sveitarfélaganna. Hv. frsm. minni hluta nefndarinnar gerði vel grein fyrir því hér áðan.
    Það vantar einnig framlag til Byggðastofnunar vegna búvörusamnings og síðan jarðræktarframlög.
    Hvað Lánasjóð ísl. námsmanna varðar sem hér er gerð tillaga um að lækki um 65 millj. kr. þá hefur það komið fram að það er vegna þess að sjóðurinn hefur sett sér ákveðna reglu um hvað mikið ríkissjóður leggi fram af því fjármagni sem sjóðurinn þarf á að halda og það er 54%, minnir mig, af því sem sjóðurinn þarf á að halda í lántöku.
    Það er alveg staðreynd að lánasjóðurinn hefur sett sér þannig reglur við úthlutun lána að það kemur þannig út að lánþegum sjóðsins fækkar og þar af leiðandi eru framlög lægri sem þarf til úthlutunar.
    Það er einnig hægt að minna á það að enn þá hefur lánasjóðurinn ekki sett sér þær reglur að veita neina beina styrki eins og gert er í lánasjóðskerfum annarra þjóða. Hér á landi eru engir beinir styrkir heldur aðeins þau lán sem hægt er að fá í lánasjóðnum sem eru háð stífum reglum og oft og tíðum óréttlátum reglum, vil ég segja. Mér hefði fundist eðlilegra að hækka þá heldur hlutfallið og stuðla að því að lánasjóðurinn liðkaði til þessar reglur og gæti þá notað það fjármagn sem hann átti upphaflega að hafa.
    Það kemur einnig fram í þessu frv. og ásamt því sem Ríkisendurskoðun gerði grein fyrir um framkvæmd fjárlaga fyrir sex mánuði þessa árs að atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar hefur fengið niðurfellingu upp á rúman milljarð króna sem kemur inn í þennan heildarpakka. Niðurfellingu um rúman milljarð króna, 1 milljarð og 32 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, ef hann heyrir mitt mál, hverjir fengu þá niðurfellingu? Hvað er verið að fella niður af lánum hjá atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar? Þarf ekki að ræða það svona álíka eins og víkjandi lán til Vestfjarða?
    Það væri hægt að fara mörgum orðum um þann kafla sem tilheyrir heilbr.- og trmrn. en af því að hv. frsm. minni hluta fjárln. hefur gert mjög vel grein fyrir því í sínu nál. þá ætla ég ekki að endurtaka það en vil aðeins minna á að í fjáraukalagafrv. núna er farið fram á 400 millj. kr. aukafjárveitingu vegna lífeyristrygginga. Síðan kemur það fram í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að það á enn að leika sama leikinn í næstu fjárlögum, þ.e. það á að draga úr framlögum til lífeyristrygginga og síðan er alltaf komið með fjáraukalagafrv. sem sýna að það verður að bæta við þetta. Það er svolítið merkileg ein setning í fjárlagafrv.

fyrir næsta ár. Það á að takast að draga úr lífeyristryggingum með því að skerða bætur þeirra lífeyrisþega sem fá húsaleigubætur á næsta ári. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig á að framkvæma það. Hvernig eiga húsaleigubæturnar að hafa áhrif á það og er hægt að gera það algjörlega án lagabreytinga? Við vorum að fá rétt áðan á borð hjá okkur frv. til ráðstafana í ríkisfjármálum. Ég gat ekki séð að þar væri neitt tekið á neinum lögum sem tilheyrðu lífeyristryggingum þannig að það er spurning hvort það á að breyta þessum réttindum bara með reglugerðarbreytingum í heilbrrn., rétt eins og oft hefur verið gert og síðast á miðju sumri í sambandi við tekjutryggingu ekkna og örorkulífeyrisþega.
    Í fjmrn. er farið fram á 300 millj. kr. aukafjárveitingu til kaupa á húseigninni Rauðarárstíg 25 af Byggðastofnun og Framkvæmdasjóði og utanrrn. er að flytja þangað. Mér er spurn hvort ekki hefði verið hægt að gera þetta á einhvern ódýrari hátt heldur en að kaupa hús upp á 300 millj. kr. og svo er kannski eftir --- maður getur slegið fram 50--100 millj. til að breyta þessu húsnæði svo utanrrn. geti flutt inn í það eða kannski er það flutt inn í það án þess að mér sé kunnugt um það. En það er alla vega verið að fara fram á 300 millj. kr. aukafjárveitingu vegna þessara kaupa.
    Síðan langar mig til að gera að umtalsefni brtt. hv. meiri hluta fjárln. Ég get samþykkt að mörgu leyti þær breytingar því mér sýnist að þar sé verið að leiðrétta ýmislegt sem ekki var tekið tillit til við gerð fjárlaga þrátt fyrir ábendingar okkar í minni hluta fjárln. og allmargra hv. þm. á Alþingi. Það er vissulega til bóta margt af því sem verið er að gera nema eins og ég segi að ég er mjög ósátt við það að það skuli verið að skerða eða lækka framlagið til Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Í iðnrn. er verið að óska eftir í brtt. 15 millj. kr. fjárveitingu til markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og því á að verja til að fjármagna athugun á sérstökum kostum í orkufrekum iðnaði og m.a. verður athuguð hagkvæmni af rekstri sinkverksmiðju í samstarfi við bandaríska aðila.
    Það væri nokkuð fróðlegt að vita það hvað markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar hefur notað mikið fjármagn á undanförnum árum til þess að athuga sérstaka kosti í orkufrekum iðnaði og hversu mikið af því ætli hafi skilað sér í því að fyrirtæki hafi komið hingað eða orðið hér til. Hins vegar tók ég eftir því að í frv. sem liggur á borðum okkar um ráðstafanir í ríkisfjármálum á að skerða Atvinnuleysistryggingasjóð um framlag sem hann hefur fengið til þess að veita fólki til atvinnusköpunar til þess að vera á launum við að stofna til nýrra fyrirtækja. En það virðist vera allt í lagi að veita 15 millj. kr. til markaðsskrifstofunnar til þess að gera meiri athuganir á orkufrekum iðnaði.
    Mér liggur nú við að spyrja, en ég veit ekki til hverra ég ætti að beina þeirri spurningu þar sem hæstv. samgrh. er ekki hér staddur en helst hefur heyrst að þetta sé mikið áhugamál hans eða landbrh. öllu heldur vegna þess að hér er um að ræða sinkverksmiðju sem hann hefur hug á að tengja Áburðarverksmiðju ríkisins.
    Ég velti því fyrir mér hvort það sé það hagstæðasta fyrir okkur þó auðvitað þurfum við á öllum ráðum að halda í sambandi við ný atvinnutækifæri, hvort það sé það ráðlegasta fyrir okkur á sama tíma og landbúnaðurinn er að reyna að einbeita sér að því að vera sem allra vistvænastur, gera landið að hreinni ímynd fyrir vistvænan landbúnað og framleiðslu þá skuli hæstv. landbrh. vera að beita sér fyrir því að reyna að koma hér inn sinkverksmiðju sem ég held að bæti ekki þá ímynd því mér skilst að það sé verksmiðja sem flestar þjóðir vilji losna við að hafa starfandi í sínu landi. Ég hef miklar efasemdir um að þessu fjármagni sé vel varið með því að veita það til markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar.
    Virðulegi forseti. Ég hef komið þeim athugasemdum á framfæri sem mér fannst nauðsynlegt að gera í þessari umræðu og vekja athygli á því sem helst hefur vakið athygli mína í þeirri afgreiðslu sem ég hef tekið þátt í núna síðustu daga. Ég tel að þetta frv. sanni það enn og aftur að fjárlögin voru óraunhæf, að fjárlagahallinn verður ekki 9,6 milljarðar heldur verða gjöldin líklega 5 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir. Og það að hallinn verði hugsanlega ekki nema 12--13 milljarðar er fyrst og fremst vegna þess að tekjurnar urðu meiri sem hæstv. ríkisstjórn hafði heldur ekki gert ráð fyrir. En það sýnir, eins og ég sagði enn og aftur, að fjárlagagerðin er í skötulíki og ekki nægilega marktækt unnin.