Varaflugvöllur á Egilsstöðum

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:42:52 (2551)


[15:42]
     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans, þann hluta ræðunnar sem voru svör, og fagna því að það er ætlunin á miðju ári að bæta hér úr. Hins vegar undrast ég þau hortugheit sem einkenna málflutning samgrh. þegar flugmál á Austurlandi berast í tal. Ég hef aldrei opnað munninn um flugmál á Austurlandi án þess að vera borinn þeim sökum af hæstv. samgrh. í fyrsta lagi að vera vanþakka það sem kemur til Austurlands í þessum framkvæmdum og í öðru lagi að vera að vekja ýfingar milli kjördæma um málið. Ég mótmæli þessu og þetta eru hortugheit sem eiga ekki við í þingsölum. Ég hef aðeins rætt um það hér að það hefur verið ákveðið að byggja upp flugvöllinn á Egilsstöðum. Það hefur verið góð samstaða um það á Alþingi og góð samstaða um það meðal Austfirðinga og ég mótmæli slíkum hortugheitum í svörum og sit ekkert undir því. Ég mótmæli því einnig að teknar séu ákvarðanir um það að fresta þessum framkvæmdum og hafa flugstöðina hálfkaraða og tel að varavöllur standi ekki undir nafni nema aðstaða fyrir farþega sé þar fyrir hendi.