Flutningsjöfnunargjald á olíu

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 16:11:52 (2563)


[16:11]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alkunna í viðskiptum þjóða, þó að það sé ekki til fyrirmyndar heldur langt í frá, að þjóðir beiti hver aðra viðskiptahindrunum. Ég held að það séu hins vegar ekki mörg dæmi um það að þjóð beiti sjálfa sig viðskiptahindrunum en það er nákvæmlega það sem íslenska þjóðin hefur gert með ákvörðunum Alþingis um hvernig haga skuli verðjöfnun á olíu. Það er nefnilega alveg laukrétt sem hv. þm. sagði að erlendir aðilar njóta hagkvæmari kjara í olíuviðskiptum á Íslandi en Íslendingar sjálfir. Ég varaði mjög við þessu ákvæði þegar það var ákveðið af Alþingi að hafa þetta svona og spurði hvers íslenskir sjómenn og íslenskir útgerðarmenn ættu að gjalda að fá ekki í íslenskum olíuhöfnum að kaupa olíu til rekstrar fiskiskipa sinna á jafnlágu verði og útlendingar og hvort Íslendingar ætluðu virkilega að fara að beita sjálfa sig óeðlilegum viðskiptahömlum með þessum hætti. En Alþingi komst að þeirri niðurstöðu að þetta skyldi gert svona. Og afleiðingin verður sú sem hv. þm. benti á að það er misrétti á milli útgerðaraðila sem koma í íslenska höfn eftir því hvort þeir eru Íslendingar eða útlendir aðilar eða útlend hentifánaskip gerð út af Íslendinum og sá mismunur er Íslendingum í óhag í þeirra eigin landi.
    Það er líka ástæða til þess að staðnæmast við það sem hann benti réttilega á að þessi breyting á viðskiptakjörum með olíuvörur hefur þó áorkað því að skip eru að koma til íslenskra hafna til þess að versla þar með olíu og þau versla ekki bara með olíu heldur versla þau um leið með ýmsa aðra þjónustu, svo sem kost og viðgerðarviðfangsefni þannig að þessi aðgerð hefur örugglega orðið til þess að hvetja erlenda útgerðaraðila til viðskipta í íslenskum höfnum og er það af hinu góða.