Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 18:18:22 (2573)


[18:18]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í andsvari vil ég reyna að svara örfáum spurningum sem hv. þm. beindi til mín.
    Í fyrsta lagi var það varðandi endurbótasjóð menningarbygginga, hvernig hann yrði nýttur og hvort ætti að verja honum áfram til að reka Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn. Það er ekki ætlunin að nýta sjóðinn svo um alla framtíð, alls ekki. Sá rekstrarkostnaður sem fallið hefur á Þjóðarbókhlöðu til þessa hefur verið greiddur af endurbótasjóðnum og það þótti eðlilegt að á fyrsta heila starfsári hins nýja safns yrði varið nokkrum hluta af endurbótasjóðnum til rekstrar eða 40 millj. kr. Yfir þessum sjóði er sérstök stjórn og hún mun ræða það að sjálfsögðu í samráði við ríkisstjórnina hvernig tekjum sjóðsins verður varið á næstunni, þar er af ýmsu að taka. Það eru margar byggingar sem þarfnast framlaga úr þessum sjóði.
    Varðandi listskreytingasjóðinn þá hef ég áður svarað því hér á hv. Alþingi að það er ekki með þessu ákvæði verið að leggja sjóðinn niður. Hann fær hins vegar ekki framlög á fjárlögum þessa árs. Það hefur ekki verið settur sérstakur starfshópur til að endurskoða lögin um listskreytingasjóð en málið hefur verið rætt innan ráðuneytisins. Ég bendi á í þessu sambandi að ég svaraði fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar skriflega um ráðstöfun listskreytingasjóðs á árunum 1991--1994, á þskj. 252. Þar kemur í ljós hvernig sjóðnum hefur verið varið á undangengnum árum.