Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:06:30 (2582)


[19:06]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að hæstv. félmrh. sagði áðan að það yrði áfram reynt að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til uppbyggingar átaksverkefna eða til þess að koma til móts við átaksverkefni sveitarfélaga þá vil ég spyrja hvort það sé samt sem áður ekki gert ráð fyrir því í 4. gr. þessa bandorms. Þar stendur að það sé ekki gert ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður veiti styrki til þróunarverkefna til varanlegrar atvinnusköpunar á árinu 1995. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Á þá bara að veita styrki til átaksverkefna sem hugsanlega standa aðeins skamman tíma en ekki til þróunarverkefna sem mundi þá verða varanleg atvinnusköpun?