Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 23:03:44 (2605)


[23:03]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 og einnig er mjög eðlilegt að rædd sé í sömu lotu að einhverju leyti yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun.
    Nú er það svo að mjög margir þingmenn fengu þessi skjöl í hendur í dag, einstöku fengu annað plaggið fyrir helgi og ekki hefur gefist mikill tími til þess að kynna sér þetta. Engu að síður ætla ég að ræða nokkra þætti málsins og byrja á að ræða svolítið um I. kafla og 1. og 2. gr. þessa frv. sem fjalla um skólamál.
    Í 1. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eftirtalin ákvæði laganna koma ekki til framkvæmda á fyrri hluta árs 1995 og ekki á skólaárinu 1995--1996:
    a. 3. mgr. 4. gr.
    b. 1. og 6. mgr. 46. gr.``
    Þetta eru ákvæði í grunnskólalögunum 1991 og áttu að koma til framkvæmda á næstu þremur árum samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða en þeim hefur verið frestað æ ofan í æ.
    3. mgr. 4. gr. fjallar um málsverð í skólum. Framkvæmd hennar hefur verið frestað ár frá ári en ég velti fyrir mér hvers vegna er verið að fresta þessari framkvæmd nú þegar hefur komið fram í umræðum um frv. til nýrra grunnskólalaga að í rauninni er engin þörf á því þar sem í greinargerð með frv. til laga um grunnskóla stendur um þessa málsgrein, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þar er átt við að nemendur geti keypt mat í skólanum eða komið með nesti að heiman og hafi aðstöðu í skólanum til að neyta matar. Sveitarfélögum er ekki gert skylt að stofna og reka mötuneyti.``
    Ef þessi túlkun á ákvæðum núgildandi laga er svona skil ég ekki vegna hvers er yfirleitt verið að fresta þessu ákvæði því sé engin skylda á sveitarfélögum eftir nýju frv. til þess að stofna og reka mötuneyti er tæpast frekari skylda samkvæmt áliti sömu manna til þess að gera það af hálfu ráðuneytis. Mér finnst þetta vera svolítið sérkennilegt. Þessa túlkun hafði ég reyndar ekki heyrt fyrr en hún kom til tals við þessa umræðu en ef hún er í gildi þá er í rauninni ekkert sem þarf að gera annað en það sem verið hefur að nemendur koma með nesti sitt og borði það og greinin því í rauninni marklaus eins og hún hefur verið og jafnmarklaus í nýju frv. Á þetta var reyndar bent í þeirri umræðu.
    Auk þessa er rætt um 1. og 6. mgr. 46. gr. Það er um vikulegan kennslustundafjölda. Samkvæmt núgildandi lögum um grunnskóla ætti vikulegur kennslustundafjöldi í grunnskóla að vera 314. Af þeim eru aðeins kenndar 293 á viku. Það vantar 21 vikustund upp á að þessum lögum sé framfylgt. Niðurskurði hefur verið beitt ár eftir ár síðan lögin voru sett og er enn beitt á sama tíma og í þinginu er frv. til nýrra grunnskólalaga þar sem á að gera miklum mun betur. Reyndar sýndi ég fram á í þeirri umræðu að í því frv. er svolítill blekkingaleikur stundaður þar sem það er alls ekki gert ráð fyrir að ákvæði núgildandi laga komi til framkvæmda fyrr en á árinu 1997 því samkvæmt frv. er áætlað að bæta við sex stundum á næsta hausti, reyndar nákvæmlega sama og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Á árinu 1996 er gert ráð fyrir að stundum fjölgi upp í 309. Eins og ég gat um áðan eru í núgildandi lögum 314 vikustundir þannig að ekki fyrr en árið 1997 fara vikustundir upp í 319 og þar með umfram ákvæði núgildandi laga.
    Að vísu er tekið fram í greinargerð með frv. að nái frv. um ný grunnskólalög fram að ganga verður ekki þörf á þessum tveimur greinum og munu þær þá verða felldar niður.
    Margt bendir til þess að menn hafi ekki mikla trú á því að nýtt frv. til grunnskólalaga verði samþykkt á þinginu og þar ber reyndar býsna margt til. Það er mjög stutt til næstu áramóta en þau tímamörk höfðu samtök sveitarstjórna sett til þess að uppfyllt væru ýmis skilyrði til að þau gætu fallist á gildistíma og gildistöku laganna 1. ágúst 1995. Ekkert bendir til að það mál sé komið miklu lengra en þegar frv. til grunnskólalaga var rætt í haust. Enn þá eru ófrágengin kjaramál kennara sem hlýtur að vera mjög stór hluti þessa pakka. Það hefur borið mjög á trúnaðarbresti milli sveitarfélaga og ríkisstjórnar. Enda þótt nú sé verið að reyna að berja í brestina er ljóst að ýmis brigðmæli, sem þarna hafa verið á, hafi farið fyrir brjóstið á sveitarstjórnarmönnum og þeir eru efins um að ríkisstjórninni sé treystandi.
    Síðan er, eins og oft hefur verið bent á, ekkert ljóst hvað verður gert við allt stoðkerfi skólakerfisins sem hefur verið rekið af fræðsluskrifstofum víðs vegar um landið. Reyndar verð ég að bæta við, virðulegur forseti, upplýsingum, sem komu fram nýlega innan úr menntmn. frá fulltrúum menntmrn., og komu mér í opna skjöldu og ég tel víst að komi sveitarstjórnarmönnum í opna skjöldu. Þess vegna finnst mér rétt að greina frá þeim og jafnframt spyrjast fyrir um hvort sá skilningur sem fulltrúar ráðuneytisins færðu okkur sé réttur. En málið snýst fyrst og fremst um það að rætt hefur verið um að stoðþjónusta sú, sem fræðsluskrifstofur veita, verði veitt af sveitarfélögum við gildistöku nýrra laga um grunnskóla. Í allri umræðunni, sem ég hef tekið þátt í, og öll þau sjónarmið, sem ég hef heyrt sett fram um þessi mál, er reiknað með því --- og ég man ekki betur reyndar en það hafi verið tekið fram í útreikningum um kostnað sem færa

skyldi yfir --- að allur kostnaður við fræðsluskrifstofur færist yfir til sveitarfélaganna til þess að þau geti síðan veitt samsvarandi þjónustu fyrir sína skóla. Rætt hefur verið um að skipuleggja þyrfti hvernig hún gæti farið fram, hvort sú þjónusta verður veitt af einstökum stórum sveitarfélögum eða af samlagi smærri sveitarfélaga og ég reikna með því að víðs vegar úti um land verði nauðsynlegt að svo verði gert. En á áðurgreindum fundi komu fram þau sjónarmið þegar rætt var um aukið hlutverk mennmrn., sem mun taka að sér miklu meira eftirlitshlutverk en áður er, mun verða að leggja mikla vinnu í samræmd próf, í úttektir og þróunarstarf í skólunum því það er gert ráð fyrir að allt að 40 grunnskólar verði í úttekt hvert ár. Þeir verði rannsakaðir fimmta hvert ár af hálfu ráðuneytis. Þegar spurt var um hvort þetta hefði ekki mikinn kostnað í för með sér, þ.e. hvort ekki þyrfti aukinn mannafla suður í ráðuneyti og hvort hér væri ekki um að ræða átak í miðstýringarátt var því borið við að e.t.v. mundi sá hluti af starfi fræðsluskrifstofanna sem sneri að eftirlitsstörfum með skólanum á vegum ráðuneytis, flytjast suður í ráðuneyti. Þetta finnst mér vera verulega alvarlegt mál ef rétt er og að mínu viti hefur ekki verið rætt um þetta í samningum milli ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort til stendur að hluta sundur hlut fræðsluskrifstofanna og skipta þeim milli sveitarfélaga og ríkis eða hvort það verður eins og rætt hefur verið um að fræðsluskrifstofupakkinn í heilu lagi færist yfir til sveitarfélaganna til þess að veita þar sambærilega þjónustu og veitt hefur verið af hálfu menntmrn. í gegnum fræðsluskrifstofur.
    Síðan er það í sambandi við niðurskurðinn á grunnskólanum. Maður veltir fyrir sér hvernig á að skila grunnskólanum yfir til sveitarfélaga þegar og ef af því verður sem ég reikna reyndar með að verði þó að mín skoðun og trú sé að tímamörk séu löngu fallin og þetta verði líklega einu til tveimur árum síðar en stefnt hefur verið að, fyrst og fremst vegna þess að undirbúningsvinnan er svo skammt á veg komin.
    Maður veltir fyrir sér hvort eigi að skila grunnskólanum svo aðþrengdum sem hann er nú og síðan þegar sveitarfélögin hafa tekið við þá verði lögin látin taka gildi. Þá er það sveitarfélaganna að borga brúsann og mér finnst það ekki verulega góð pólitík ef svo er. En ég endurtek að ég tel að flutningur grunnskólans til sveitarfélaga sé fallinn á tíma og mín skoðun er reyndar sú að grunnskólafrv. hafi verið of viðamikið. Í stað þess að taka fyrst og fremst á þeim þáttum sem sneru að flutningi grunnskólans, afmarka þá og skýra, var svo til hver hver einasta grein tekin og henni breytt. Það eru mjög margar nýjar áherslur og allt aðrar en verið hafa. Ég held að þetta valdi því ásamt öðru að grunnskólafrv. mun ekki fara í gegn, bara vegna tímaskorts, ekki vegna óvilja manna við þetta, heldur er breytingin svo viðamikil að það kostar mikla umræðu. Mín skoðun er sú að hefði verið tekið á þáttum sem voru nauðsynlegir hefði frv. náð afgreiðslu og það hefði ekki staðið á því.
    Í 2. gr. er rætt um að í stað orðanna ,,1993 og 1994`` og ,,skólaárið 1994--1995`` komi: 1994--1995 og 1995--1996. Hérna er um að ræða eitt niðurskurðarákvæði til. Í lögunum stendur að meðalfjöldi í bekk skuli vera 24 að jafnaði í grunnskólum. Svo sem flestum er kunnugt er fjöldi í bekk núna miðaður við 28--29, það er heimild til að fjölga upp í 29 og reyndar eru dæmi um að fleiri nemendur séu í einstökum bekkjum. Auðvitað er þetta niðurskurður því að það að uppfylla ákvæðið kostar mun fleiri bekkjardeildir, fleiri kennarastöður og þar af leiðandi meira fjármagn. En þetta er skorið niður ásamt öðru og ekki þörf að hafa miklu fleiri orð um það. Áðan kom fram að niðurskurður í skólunum vegna kennslu er tæpar 200 millj.
    Mig langar að fara nokkrum orðum um fleiri ákvæði þessa frv. og kem ég kannski næst að 3. gr. frv. um breytingu á lögum um málefni fatlaðra. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laganna, um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra, er á árinu 1995 heimilt að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sjóðsins til eftirfarandi verkefna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra`` og það síðan talið upp.
    Nú er það svo að hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra er og hefur lengst af verið að veita fjármagn sitt til uppbyggingar, til nýframkvæmda og það var ekki ætlað til reksturs. Mér sýnist að greinin beri með sér að ríkið telji sig ekki ráða við reksturinn og er að klípa þarna af tekjustofni sem er ætlaður til annarra hluta. Þetta er í samræmi við II. kafla þessa frv. ,,þrátt fyrir ákvæðin`` öll. Mig langar aðeins til þess að ræða í þessu sambandi þá breytingu sem gerð var þegar svæðisstjórnir um málefni fatlaðra voru lagðar af og svæðisráð tekin upp í staðinn.
    Það var ekki svo að hér væri um einfalda og litla nafnabreytingu að ræða, síður en svo. Svæðisstjórnir um málefni fatlaðra réðu ákveðnum þáttum í starfsemi svæðisskrifstofanna úti um landið. Þær gátu haft áhrif á ýmsa þætti. Ákvarðanir voru teknar heima. Svæðisstjórnir voru virkir þátttakendur í starfi, bæði þeirra stofnana sem undir svæðisstjórn heyrðu, í starfi svæðisstjórnar sjálfrar og í þeim ákvörðunum sem voru teknar. Með breyttum lögum var allt þetta vald tekið af svæðisstjórnum sem voru þá farin að heita svæðisráð, það var allt saman flutt suður til Reykjavíkur í félmrn. og nú verða svæðisskrifstofur að sækja öll sín ráð suður til Reykjavíkur. Svæðisráðin koma endrum og eins saman víðast hvar. Ég held að þau komi þó yfirleitt saman einu sinni, kannski tvisvar á ári og ég held að það sé gert ósköp lítið annað en að drekka kaffi og hlusta á skýrslur þeirra sem stýra svæðisskrifstofunum fyrir hönd félmrn. Þetta var afar vond þróun og var varað við henni á sínum tíma. Ekki var hlustað á það en reynslan hefur sýnt svo að ekki verður um villst að þetta eru nákvæmlega þau áhrif sem hafa orðið. Málefnum fatlaðra úti um landið er stýrt af svæðisskrifstofum sem verða að sækja öll sín ráð til félmrn. og því er um að ræða að hérna hafi

verið fært mjög til miðstýringar og það þykir mér verulega miður.
    Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áður ber tvennt til, að þetta er fyrir skömmu komið á borð þingmanna og ég hef ekki haft tækifæri til að fara svo ítarlega í hverja grein eins og vert væri eða þurft hefði til þess að geta tjáð mig um þær allar enda hefur verið farið allrækilega í marga þætti í umræðunni í dag þannig að ég mun stikla nokkuð á stóru með þetta.
    Mig langaði aðeins til þess að ræða um II. kafla frv. þar sem 20 lagabálkar eru gerðir ómerkir að meira eða minna leyti og það sem er samkvæmt lögum ákveðnir tekjustofnar sem eru nú skertir og hafa reyndar verið skertir ár frá ári. Ég nefni sem dæmi listskreytingasjóð, sem hér er á blaði, þar skulu framlög falla niður. Síðan eru skerðingar á ýmsum ákvæðum sem eru að mínu viti mjög þörf og svolítið sérstakt að skuli vera skert. Það eru ýmsar skerðingar til landbúnaðarins, það eru skerðingar samkvæmt þjóðminjalögum í Húsafriðunarsjóð og ég nefni t.d. 13. gr. um útvarpslög. Þrátt fyrir ákvæði um útvarpslög skulu tekjur vegna aðflutningsgjalda af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð. Það er svolítið sérstakt að skerða sjálfstæðar tekjur stofnana til þess að láta það renna í ríkissjóð til þess að geta síðar úthlutað þeim aftur til þessara sömu stofnana. Það getur vel verið að það sé einhver æðri lógik á bak við þetta. Hún er þá göfugri en svo að ég nái að skilja hana, því miður, virðulegi forseti. En þetta hefur reyndar viðgengist ár eftir ár og virðist vera frekar vinsælt í þinginu, nokkuð sama hver er við völd. Það er ekki mikill munur á því. Sá siður hefur verið viðhafður og verður trúlega áfram þar sem þetta þykir allgóð regla, heyri ég marga telja.
    Í 22. gr. er rætt um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og framlag ríkissjóðs til Gæsluvistarsjóðs skal falla niður á árinu 1995. Þetta á sér vafalaust einhverjar haldbærar skýringar en maður hlýtur að velta aðeins fyrir sér að á sama tíma og þetta er gert er hér til umræðu í þinginu frv. um mjög aukið frjálsræði í innflutningi og sölu á áfengi þar sem sá aðili sem hefur annast það hefur talið sig skuldbundinn til þess að sjá jafnframt um afleiðingar áfengis og reynt að sjá til þess að verja einhverju af þeim tekjum sem af þessu fást til meðferðar og annars þess sem hlýst af þessu. Mér virðist að frv., sem er til umfjöllunar, sé ekki í þá veru að þeir sem flytji og selji áfengi eigi að bera þennan kostnað heldur muni það áfram verða á herðum ríkisins. Það er svolítið sérstakt að þetta framlag skuli vera fellt niður á sama tíma og verið er að auka þetta frjálsræði sem mun óhjákvæmilega leiða til meiri þarfa til meðferðar slíkra mála.
    Ég get ómögulega látið hjá líða að nefna 25. gr. þar sem ég hef yfirleitt reynt að koma að þeim málum ef ég hef haft tækifæri til þess. Það er varðandi framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs. Ég get aldrei hætt að furða mig á þessu, virðulegi forseti. Sú atvinnugrein sem fyrir hverjar einustu kosningar er prísuð sem sú vænlegasta, bjargráð þjóðarinnar á krepputímum, mesta aukning sem fram undan er í atvinnumálum muni koma úr ferðageiranum, segja menn, og eru stoltir. Jafnframt lýsa þeir yfir því, sem er reyndar alveg hárrétt, að þetta er sú atvinnugrein í heiminum sem hefur mest aukist á undanförnum árum og mestrar aukningar er að vænta. Þetta vilja menn gjarnan að verði hér. Samt sem áður þegar lögin voru sett um framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og sérstakra verkefna Ferðamálaráðs, sem er 10% af vörusölu í fríhöfninni voru rökin á bak við það að einmitt ef greinin fengi að eflast mundi hún færa ríkinu meiri tekjur. Menn töldu svo sem ekki óeðlilegt að greinin fengi 10% af þeirri aukningu sem hún sjálf skapaði. Menn voru sammála um þetta, ekki veit ég betur, þegar þessi lög voru sett. En ég man ekki hvort það var einu sinni eða tvisvar, það var alla vega ekki oftar, sem þessi tekjustofn rann óskertur til Ferðamálaráðs. Síðan hefur verið höggvið í hann og stöðugt meira og meira eftir því sem greinin hefur skilað betur í kassann og þá jafnframt þurft á meiri fjármunum að halda til þess að geta haldið uppi landkynningarstarfsemi sinni. Ég held að þetta sé fimmta árið. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon ræddi um að þetta væri líklega fjórða árið í röð. Ég held að ég megi segja að þetta sé fimmta árið í röð sem sama upphæðin er til Ferðamálaráðs, 68 millj. En samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð hér fyrir aftan hefði upphæðin núna átt að vera 198,5 millj. þannig að 130,5 millj. eru dregnar undan Ferðamálaráði til annarra nota á sama tíma og verið er að ræða um það að fá, ef ég man rétt 20 millj. til sérstakra landkynningaverkefna vegna HM 95 í stað þess að fela þeim aðila sem er sérhæfður í þessu, ætti að sjá um þetta og vantar fyrst og fremst tekjur vegna þess að ríkiskerfið fær æ ofan í æ þessi framlög. Mér finnst mjög nauðsynlegt að ræða þetta atriði og óhjákvæmilegt að gagnrýna þar sem þetta gerist ár eftir ár.
    Ég velti aðeins fyrir mér 29. gr. um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og einkum það sem stendur aftar í greininni, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Umhverfisráðherra er heimilt, að fengnum tillögum veiðistjóra, að ákveða að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu á tilteknum svæðum.`` Og nokkru síðar er þessi viðbót: ,,Sveitarstjórnum og stjórnum upprekstrarfélaga er heimilt á árinu 1994 að fella niður grenja- og minkaleitir á svæðum þar sem ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við veiðarnar og umhvrn. auglýsir skv. 4. málsl. þessarar greinar.``
    Nú veit ég ekki hvað er átt við með greininni þar sem verið er að spara endurgreiðslu til refa- og minkaveiða, hvort í því felst að það sé verið að friða þessar skepnur bændum til hagsbóta. Ég átta mig ekki alveg á því og væri gott að fá betri skýringu á því.
    Ég hefði viljað aðeins koma nokkrum orðum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir er stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Í inngangi þar er rætt um að tímabil stöðvunar og samdráttar virðist að baki og hægfara efnahagsbati í augsýn. Það er afskaplega gott að vita af þessu. Ég veit að launþegar vilja gjarnan heyra eitthvað svona og fá að njóta með öðrum.
    ,,Einörð stefna ríkisstjórnarinnar . . .   hefur hefur tryggt meiri festu í efnahagslífinu en verið hefur um áratuga skeið`` --- stendur hér, með leyfi hæstv. forseta. Ég veit svo sem ekki hvernig ber að skilja þetta. Hvort meiri festa í efnahagslífinu felst í því að fjárlagahalli er nokkuð fastur í um eða yfir 10 milljarða, það er viss festa í því. Ég sé ekki mikla festu í efnahagslífi þar sem gjaldþrot hafa á undanförnum árum verið meiri en menn muna um mjög langt skeið ef nokkru sinni. Ég sé heldur ekki festu í því þar sem víða ríkir atvinnuleysi sem er ástand sem við höfum ekki þekkt um áratuga skeið. E.t.v. ber að líta á það sem festu ef það er orðið landlægt og því verður viðhaldið. Ég leyfi mér að efast um að sú festa, sem tryggð hefur verið, sé raunhæf, að þessi yfirlýsing hafi við rök að styðjast. Ég get ekki samkvæmt mínum skilningi á því fundið það út, virðulegi forseti.
    Hér er sagt að ríkisstjórnin hafi samþykkt að verja 3,5 milljörðum kr. til öflugs átaks í vegamálum á næstu fjórum árum. Það var tími til kominn að gera átak í þeim málum og ég fagna því. Yfirleitt fagna ég öllu átaki, sem gert er í vegamálum, því ég lít svo á að samgöngumál yfirleitt séu í rauninni landvarnarkostnaður okkar Íslendinga. Við verðum að taka það alvarlega að til að geta búið á þeim slóðum sem við búum þurfum við á verulega góðu samgöngukerfi að halda og því fagna ég þessu öfluga átaki. En þetta er á næstu fjórum árum og er gefið þegar ríkisstjórnin á rétt rúma þrjá mánuði eftir af starfstíma sínum svo að ég veit ekki reyndar hvað ber að taka þetta alvarlega. En það vekur spurningar hvað sé með bensínskattinn sem ég heyrði af í fjölmiðlum um daginn og verð reyndar var við á bensínstöðinni þegar ég fylli á bílinn minn. Ég verð að spyrjast fyrir um hvort þingmenn hafa fréttir af þeim skatti formlega. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér. Ég hef ekkert séð um þetta á blaði. Ég veit í rauninni ekki hvað er um að ræða annað en vangaveltur sem fjölmiðlar hafa haft eftir því sem ég hef haft tíma til að fylgjast með þeim. Þess vegna spyr ég hvort þessu hafi verið dreift hérna og hvort þetta hafi þá farið fram hjá mér. Ég hefði þá gjarnan viljað að skoða þetta betur til að geta rætt um það. Það get ég ekki eins og sakir standa.
    Þá velti ég líka fyrir mér: Er virkilega svo að heimildir séu til að hækka þessa hluti ótakmarkað að öðru leyti en því að menn reyna náttúrlega að vernda vísitölu og annað slíkt? Þetta kom afar snöggt og kom illa við býsna marga.
    2. liður. Samstarf við sveitarfélög um atvinnuskapandi aðgerðir. Ríkisstjórnin mun leita eftir samkomulagi. Áðan var spurt hvort það væri samkomulag. Ég man ekki eftir að hafa heyrt svar við því, það kann þó að hafa farið fram hjá mér. Talað er um að átaksverkefni og atvinnuskapandi aðgerðir á vegum sveitarfélaga eigi að koma í stað beinna fjárframlaga þeirra til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þessa fræga framlags, sem hefur verið deilt um í allt haust og hefur skapað verulega tortryggni sveitarfélaga í garð ríkisvaldsins. Ég held að átaksverkefni og atvinnuskapandi aðgerðir á vegum sveitarfélaga séu afskaplega ódýrt og vænlegt átak til þess að styðja við atvinnulífið og hefur reynst mjög vel þar sem það hefur verið gert. En ég velti fyrir því sem hér stendur: ,, . . .  sem komi í stað beinna fjárframlaga.`` Er verið að tala um að þetta eigi að vera 600 millj. þannig að þessum 600 millj. eigi að ná af sveitarfélögunum hvað sem tautar? Ég spyr aftur: Er samkomulag eða hafa menn eitthvað fyrir sér í að það muni nást?
    Margt hefur komið fram um þessar greinar og ég mun ekki taka tíma í að fara yfir þær allar en ég ætla aðeins að fara í 13. lið sem er um lækkun húshitunarkostnaðar. Þar er rætt um að hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu stöðunum umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda með niðurgreiðslum og yfirtöku skulda. Er ekki nokkuð seint, virðulegur forseti, að koma með þetta á síðasta ársfjórungi þessa fjögurra ára valdatíma? Eins og margt í þessari yfirlýsingu finnst mér þetta bera verulegan keim af kosningaplaggi þar sem menn kaupa sér vinsældir með því að lofa aðgerðum sem annaðhvort koma til framkvæmda einhvern tímann á næsta kjörtímabili eða þá að ekki verður einu sinni búið að samþykkja þær áður en þessu kjörtímabili hæstv. ríkisstjórnar lýkur.
    Mig langar til að minna á að bók sem heitir Velferð á varanlegum grunni, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, stendur, með leyfi virðulegs forseta: ,,Einnig mun ríkisstjórnin leita leiða til að jafna enn frekar húshitunarkostnað í landinu.`` Það eru að verða fjögur ár síðan þessi yfirlýsing var gefin og mér finnst býsna seint að taka þessa ákvörðun núna. ( Forsrh.: Þetta er ekki byrjun, þetta er viðbót.) Þetta er viðbót, segir hæstv. forsrh. Ég reikna með því að þeim sem búa á köldu svæðunum og búa við rafhitun og fjarhitun við dýrustu orkuveitur finnist það sem gert hefur verið frekar lítið. ( Forsrh.: Það eru 400 millj.) Þó það séu 400 millj. er munurinn svo himinhrópandi. Oft er búið að rifja upp söguna um Ísfirðinginn sem flutti hingað í sjö íbúða blokk og er hægt að gera það einu sinni enn. Það vildi svo til að það lenti í hans hlut að vera með hússjóðinn og þegar hitaveitureikningurinn kom borgaði hann hann glaður vegna þess að hann var ekkert hærri, reyndar lægri en hann var vanur. Það var ekki fyrr en nokkru seinna að hann komst að raun um að hann var að borga reikninginn fyrir allar sjö íbúðirnar, ekki bara fyrir sína. Þetta er því miður, virðulegi forseti, sá veruleiki sem blasir við þegar við tölum um jöfnun hitakostnaðar í landinu að hitakostnaður þar sem rafhitun er á köldustu svæðunum er margfaldur, hann er margfaldur á við það sem gerist hér. Að vísu skal tekið fram í þessu dæmi og mörgum háttar svo til að um miðja þessa öld og lengi síðan voru sambýlishús ekki byggð út á landi. Menn bjuggu í einbýlis- eða tvíbýlishúsum sem eru auðvitað dýrari í rekstri og dýrari í hitun. Sá samanburður, sem ég nefndi áðan, er kannski ekki fyllilega raunhæfur en hann varpar þó ljósi á hversu mikill munurinn er vegna þess að þrátt fyrir að menn búa ekki í sambýlishúsum heldur í einbýlis- eða tvíbýlishúsum enn þá mjög margir er það vegna þess að tiltölulega skammt er síðan þessi húsagerð, fjölbýli, komst á í kauptúnum og þorpum landsins. Það eru ekki nema um 20 ár eða innan við það. Allt er þetta lóð á þá vogarskál að óásættanlega mikill munur er á húshitunarkostnaði á lægstu gjaldsvæðunum og þeim hæstu. Enda þótt 400 millj. hafi verið notaðar í þetta á fjögurra ára kjörtímabili finnst mér það ekki vera nema lítið hænufet í þá átt sem þarna þarf að stefna. Og ég lít á þessa yfirlýsingu sem frekar ómerkilegt kosningaplagg. Reyndar má segja um yfirlýsinguna í heild að hún er afskaplega óljós ávísun á eitthvað sem kann að verða í framtíðinni.