Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:03:41 (2625)



[01:03]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skil það út af fyrir sig vel að hv. þm. stjórnarandstöðunnar vilji gera eins lítið úr þessu plaggi og verða má en ég tel þó að sá málflutningur gangi ekki upp eins og ég hef reyndar sýnt fram á með allmörg atriði nú þegar. Ég tek eitt atriði til viðbótar. Eins og það sem hv. þm. nefndi varðandi þriðja liðinn. Hv. þm. sagði ef svo fer sem gefið hefur verið til kynna að arðurinn af eignum Iðnþróunarsjóðs verði notaður til þess að verða grundvöllur aðgerða í nýsköpun, þá hefur það ekkert með ríkissjóð að gera og er ekkert framlag. Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm. vegna þess að þegar Iðnþróunarsjóður lýkur hlutverki sínu á vormánuðum næsta árs þá mundu eignir hans ganga til ríkisins að öðru óbreyttu. Með þessari ákvörðun er því, ef málin takast til með þessum hætti, verið að fórna fjármunum ríkissjóðs til nýsköpunar. Það gefur auga leið. Ella gengju þessir fjármunir til ríkissjóðs og ríkissjóður væri því betur settur sem því næmi. Það er auðvitað skammsýni og vanhugsað að telja að málatilbúnaður af þessu tagi gagnist ekki fyrirtækjum og sé fyrir óbeinan a.m.k. og jafnvel fyrir beinan atbeina ríkissjóðs.
    Sama má segja um fjármagnstekjuskattinn eins og ég hef áður sagt. Það var tekin ákvörðun um það í október 1993 að fresta honum ótímasett. Nú er tekin ákvörðun um það að hefjast handa um undirbúning þess að það mál geti farið í tiltekinn farveg og óskað eftir víðtækri samstöðu um það mál.