Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:37:52 (2636)


[01:37]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. --- Er hæstv. fjmrh. farinn? Meðan það er kannað langar mig til þess að fara örfáum orðum um sumt af því sem sagt hefur verið í kvöld. --- Hæstv. fjmrh. er mættur á staðinn. Ég tel reyndar að ástæða sé til þess að fara einu sinni enn yfir samskipti hans og hæstv. ríkisstjórnar við sveitarfélögin. Mér finnst ekki koma til greina að hæstv. ráðherra komist upp með að halda því fram að þarna hafi allt verið með felldu og ég ætla að lesa fyrir hæstv. ráðherra og aðra sem hér eru fyrsta liðinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. des. í fyrra sem var sameiginleg yfirlýsing með fjmrh., félmrh., formanni Sambands ísl. sveitarfélaga og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga. En þar stendur:
    ,,Fé til Atvinnuleysistryggingasjóðs og eflingar atvinnulífs á vegum sveitarfélaga. Samband ísl. sveitarfélaga mælir með því við sveitarfélögin að þau leggi 600 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári og verði framlag miðað við íbúafjölda hvers sveitarfélags. Ekki er gert ráð fyrir að framhald verði á þessum greiðslum 1995.``
    Svo sagði hæstv. fjmrh. áðan í ræðustól á hv. Alþingi að samkomulag hafi náðst við sveitarfélögin um að í stað þess að greiða 600 millj. kr. til atvinnuleysismálanna þá legðu þau peninga í atvinnuátaksverkefni. Hæstv. ráðherra talar um að þau hafi, í staðinn fyrir að borga það sem búið er að semja um að þau borgi, ekki fallist á að setja peninga í átaksverkefnið. Þannig liggur málið.
    Það er bara þannig og best er að segja hlutina eins og þeir eru að hæstv. ráðherra og félagar hans í ríkisstjórninni hafa verið að snúa upp á handleggina á sveitarstjórnarmönnum undanfarna daga og vikur með því að koma ekki til móts við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna meðlagsskuldanna og hafa haldið því máli óleystu þangað til í dag. Þess vegna var samið um þessi mál í samhengi. Menn eiga auðvitað að viðurkenna hvernig hlutirnir standa. Svona er þetta. Það var verið að kvelja sveitarfélögin til þessa samkomulags með þessum líka þokkalega hætti eftir að hafa skrifað undir samkomulagið.
    Hæstv. fjmrh. kemst ekki undan þessu. Það er óeðlilegt að haga sér með þessum hætti sem hefur verið gert og menn þurfa auðvitað að gera sér grein fyrir því að svona má ekki koma fram við sveitarfélögin. Ég held að betra væri upp á framtíðina að menn létu nótt sem nemur í þessu og hétu sér því að standa betur að samkomulagi við sveitarfélögin en gert hefur verið.
    Hæstv. forsrh. sagði einmitt í ræðu áðan að hæstv. fjmrh. og forráðamenn sveitarfélaganna hefðu reyndar túlkað samkomulagið hvor með sínum hætti. Það kann vel að vera að hann hafi haft aðra skoðun á því hvernig samkomulagið væri en forráðamenn sveitarfélaganna. En þeir voru sammála um að verið væri að svíkja það. Ég tel að það hafi verið nánast viðurkennt í ræðustól á hv. Alþingi að þá skoðun hafi ýmsir fleiri haft aðrir en þeir.
    Ég ætla ekki að lengja ræðuna meira annað en það að ég vil aðeins koma að afnámi tvísköttunar aftur. Það er þannig að þetta mikla afrek, sem verið er að gera, mun ekki koma öllum ellilífeyrisþegum til mikils góða. Ég var að gamni mínu að gá að því hvað mundi koma út úr þessu og auðvitað kemur þó nokkuð út úr þessu fyrir þá sem hafa mjög háan ellilífeyri. Sá sem fengi t.d. 100 þús. kr. í ellilífeyri fengi u.þ.b. 6.000 kr. í lækkun skatta. En býsna margir fá lágan ellilífeyri úr lífeyrissjóði og ég gæti trúað því að meðalellilífeyrir verkamanna í dag væri ekki miklu meira 20.000 þús. kr. og slíkur ellilífeyrisþegi fær um 1.200 kr. í afslátt vegna afnáms tvísköttunar sem kallað er hér.
    Ég endurtek það vegna þess að minn tími var svo stuttur áðan í andsvari að mér finnst með algjörum eindæmum að orða þetta með þeim hætti sem gert er í þessari yfirlýsingu. Hér stendur að til þess að tryggja að ákvörðunin komi lífeyrisþegum strax til góða verði jafngildi lífeyrisframlags þeirra eða sem nemur 15% af útborguðum lífeyri undanþegið skatti þegar á næsta ári.
    Það er verið að segja það að lífeyrisþegarnir hafi sjálfir einungis lagt til 15% af ellilífeyrinum sínum. Mér finnst að þarna sé verið að falsa og leggja mat á framlag lífeyrisþeganna sjálfra sem er langt frá öllu lagi. Auðvitað hefur atvinna lífeyrisþeganna skapað verðmætin og auðvitað hafa verið peningarnir, sem þeir hafa borgað inn í lífeyrissjóðinn, skapað verðmætin. Hvað sem menn meintu með þessum setningum þá trúi ég því illa að menn hafi ekki skilið að sú setning sem hér stendur um það að þetta jafngildi lífeyrisframlagi þeirra verður ekkert skilin öðruvísi en þeir hafi einungis átt upphafið að 15% af lífeyri sínum. Ég held að menn þurfi að stíga varlega til jarðar þegar talað er um þessa hluti því að auðvitað er það afrakstur af vinnu þessara lífeyrisþega sem þeir lifa á í elli sinni. Það þurfa menn auðvitað að gera sér grein fyrir þegar verið er að tala um að afnema tvísköttun á lífeyri að lífeyrisþegarnir hafa gert sér miklu hærri hugmyndir um hvað þar væri á ferðinni en þessi 15% sem hér er verið að tala um. Vegna þessa ömurlega ástands, sem er í þjóðfélaginu, að hér eru skattlagðar svo lágar tekjur að fólk hefur ekki einu sinni lífsframfæri af þeim, þá hafa menn örugglega gert sér vonir um það að þegar yrði tekið á þessu máli mundi fólk, sem er á mjög lágum ellilaunum, ekki þurfa að borga skatta. Ég held að það væri til umhugsunar hvort ekki verður hreinlega að taka á þessu máli þannig að gefa ellilífeyrisþegum einhvers konar skattafslátt eins og reyndar er búið að gera í ýmsum sveitarfélögum í langa tíð. Þar eru ellilífeyrisþegar margir hverjir algjörlega undanþegnir útsvari og hefur verið um langa tíð. Ég held að það sé ástæða til þess að skoða þetta betur og velta því fyrir sér hvort ekki er hægt að finna einhverjar leiðir til þess að ganga lengra til móts við lífeyrisþegana en hér er gert.
    Ég get nú ekki að því gert að nefna enn einu sinni þessa lækkun á húshitunarkostnaði því ég spyr bara hæstv. fjmrh.: Getur hann ekki útskýrt fyrir a.m.k. mér hvað það er sem á að gerast með þessari yfirlýsingu númer 13: ,,Ríkisstjórnin mun hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu svæðunum`` --- og svo kemur: ,,umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda með niðurgreiðslum og yfirtöku skulda orkufyrirtækja.``
    Ég verð bara að viðurkenna það að fyrir fram hef ég ákaflega litla trú á því að það komi nokkur skapaður hlutur út úr þessu. Ég held að ríkisstjórnin þurfi að taka betur á málinu en þetta. Það eina sem er hægt að segja jákvætt um þessa yfirlýsingu er að ríkisstjórnin er með henni að viðurkenna það að yfirlýsingar hennar í sambandi við orkumál í upphafi kjörtímabilsins hafi allt saman mistekist. Enda hefur það gert það, því miður. Þó niðurgreiðslurnar á fjárlögunum hafi lítillega hækkað þá hafa hækkanir Landsvirkjunar og orkufyrirtækjanna étið það meira og minna allt saman upp aftur. Því miður, þannig standa þessi mál. Það þyrfti svo sannarlega að taka þar betur til hendinni. Eina stóra afrekið sem eftir situr hjá hæstv. ríkisstjórn er það að hafa hækkað orkureikninginn á Reykjavíkursvæðinu með því að koma virðisaukaskattinum á húshitun. Það er út af fyrir sig hægt að taka eftir því því að samanburðurinn við Reykjavíkursvæðið hjá fólki á landsbyggðinni er ekki eins glannalegur og hann var áður en það huggar ekki meðan þeir eru að borga orkureikningana sína úti á landi því þeir eru jafnháir og þeir hafa verið.