Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:00:28 (2671)


[23:00]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Alþingi misboðið vegna starfshátta fjárln., vinnubrögð til skammar, fjárln. misnotar aðstöðu sína og leikaraskapur. Þetta voru orð sem hv. þm. Guðni Aústsson viðhafði hér um starfshætti og vinnubrögð hv. fjárln. Máli sínu til stuðnings dró hann fram fjárframlög til Eskifjarðar upp í skuld, 3 millj. kr., framlag til byggingar hjúkrunarheimilis á Fáskrúðsfirði, 15 millj. og framlög til sjúkrahúsa í Hafnarfirði, Stykkishólms, Ísafjarðar og Akureyrar. Ekki trúi ég því að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi með þessum málflutningi verið að boða það að Framsfl. muni greiða atkvæði gegn þessum tillögum er meiri hluti fjárln. og fjárln. öll hefur samþykkt að leggja fyrir hv. Alþingi. Því trúi ég ekki. En ef það var málflutningurinn eins og mátti skilja af orðum hv. þm., þá er rétt að hann staðfesti það beint.
    Hvað varðar framlög til landbúnaðarins þá er það rétt að sauðfjárbændur eiga um þessar mundir mjög í vök að verjast og eiga við erfiðleika að stríða og þau málefni hafa verið til umræðu í fjárln. Ég vil í þessu sambandi einnig vekja athygli á annarri stétt manna sem ekki síður á við mikil vandamál að stríða og verður að huga að en það eru smábátaeigendur á aflamarki. Það er kannski sú stétt sem hefur farið verst út úr hremmingum síðustu ára og er við það að missa atvinnutæki sín í stórum stíl. Að þessum hópi þarf líka að huga í sambandi við atvinnumál þjóðarinnar um þessar mundir.