Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:04:52 (2673)


[23:04]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson á það til að vera allgjárífur og blæs hann þá gjarnan af öllum áttum í einu. Slíkt telst ekki til þess að fjalla um rök heldur rakaleysi og flokkast fremur undir spjall og auðvitað var það tónninn í ræðu hv. þm. áðan um störf meiri hluta fjárln.
    Ótti hv. þm. Guðna Ágústssonar við alþjóðasamninga, viðskiptasamninga sem Íslendingar eru að gera skýtur svolítið skökku við og er ástæða til að vekja athygli á að það er allt annað mál með alþjóðlega viðskiptasamninga milli þjóða en almenna vopnasölusamninga á erlendum markaði sem sumir hafa kannski meiri reynslu af. En það er ekki til umfjöllunar hér.
    Hv. þm. Guðna Ágústssyni er líka svolítið tamt að sjá eilífan vetur fram undan en málið er ekki svo einfalt. Það vorar og ég veit að það mun vora í sinni hv. þm. með bjartari tíð fram undan enda er hann í höndum góðrar ríkisstjórnar sem færir hann fram á veg og vinnur honum áleiðis fet fyrir fet eins og vonir standa til.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson þarf hvorki að minna mig á málefni Sunnlendinga né málefni annarra kjördæma. Í fjárln. reynum við öll að mínu mati að vinna með hag heildarinnar í huga og á það bæði við um meiri hluta og minni hluta fjárln. Önnur vinnubrögð þekki ég ekki þar þó auðvitað sé álitamál um marga hluti en engin ástæða til að minna okkur sérstaklega á það.
    Hv. þm. Guðna Ágústssyni er tamt, virðulegi forseti, að vorkenna stíft. Það er virðingarvert.