Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:21:36 (2691)


[00:21]
     Svavar Gestsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og vil sérstaklega víkja að listskreytingasjóði og þeim svörum sem fram komu. Ég tel að það sé gagnslítið að halda lögunum ef engir peningar eru í sjóðnum þannig að það er kannski aðalatriðið að sjóðurinn sé til með einhverjum peningum og það skipti kannski meira máli en allt annað í tengslum við hann.
    Ég held að þessi sjóður eigi miklu fleiri vini en menn kannski almennt gera sér ljóst í þessari stofnun og ég tel að menn eigi að fara mjög varlega í að slátra honum alveg eins og hér er gert ráð fyrir því að þó að lögin verði látin standa en sjóðurinn tómur þá held ég að því ferli sem listskreytingasjóður hefur staðið fyrir sé þar með lokið þannig að ég teldi allt betra en ekkert, allt betra en núll í sambandi við listskreytingasjóð og fer fram á það að menn skoði með velvild í fyrsta lagi tillögu mína um það að veita sömu upphæð í sjóðinn á næsta ári og veitt yrði á þessu ári en í öðru lagi teldi ég að jafnvel þó að sú tillaga yrði ekki samþykkt heldur kannski einhver minni upphæð sett í sjóðinn þá er það betra en ekki neitt því að það væri verulegur skaði að því að missa þennan sjóð því að að honum er menningarauki þó að skiptar skoðanir séu um margt sem frá honum hefur komið.